Á
Löstur er ekki glæpur fæst í Bóksölu Andríkis … |
föstudaginn var kynnt ný bók í Bóksölu Andríkis, Löstur er ekki glæpur, eftir bandaríska hugsuðinn Lysander Spooner. Vefþjóðviljanum þótti vel eiga við að kynna bókina á þeim degi, fyrsta júní, þegar forræðishyggjumenn föðmuðu hver annan yfir því að hafa náð að neyða veitingamenn til að reka reykjandi gesti sína á dyr. Ekki stóð þá til að fjölga bókum meira í Bóksölunni að sinni, en það er auðvitað ekki fallega gert að gera upp á milli ríkisstarfsmanna. Löstur er ekki glæpur var þýdd og gefin út í tilefni af tíu ára afmæli Vefþjóðviljans en auðvitað hefði ekki heldur farið illa á því að hún hefði verið gefin út til heiðurs þeim hjá Lýðheilsustofnun, og um helgina minnti önnur ríkisstofnun á sig. Hafrannsóknastofnun gaf enn út nýja veiðiráðgjöf þar sem mesta athygli vekur að starfsmenn stofnunarinnar leggja til mikinn niðurskurð þorskaflans. Kemur sú tillaga í framhaldi af því að ráðum þessara manna hefur verið fylgt undantekningarlítið ár eftir ár.
… það gerir Fiskleysisguðinn líka. |
Meðal þeirra sem harðast gagnrýndu kenningar þeirra á Hafrannsóknarstofnun er Ásgeir Jakobsson rithöfundur. Fyrir nokkrum árum kom út greinasafn hans, Fiskleysisguðinn, þar sem hann segir hafrannsakendum til syndanna og rökstyður sjónarmið sín. Greinar Ásgeirs eru prýðilega skrifaðar og mættu verða til þess að vekja athygli manna á sérfræðingaveldinu sem fleiri og fleiri hlýða umhugsunarlaust. Áður en vísindamennirnir á Hafrannsóknastofnun hófu að stjórna fiskveiðum að meira að minna leyti árið 1972 voru fiskveiðarnar að miklu leyti frjálsar. Í formála bókarinnar kemur fram, að síðustu tuttugu árin þar á undan hafi þorskafli að meðaltali verið 438 þúsund tonn á ári. Árið 1971 hafi aflinn verið 453 þúsund tonn, veiðistofninn þá verið talinn hálf önnur milljón tonna og hrygningarstofninn 700 þúsund tonn. Við útkomu bókarinnar árið 2001, eftir þrjátíu ára faglega stjórn sérfræðinga, var leyfður ársafli 190 þúsund tonn, veiðistofninn talinn 577 þúsund tonn og hrygningarstofninn 219 þúsund tonn.
Nú kann einhver að segja að þetta hrun sé aðeins komið til af því að skammsýnir stjórnmálamenn hafi ekki farið eftir faglegri ráðgjöf hinna óháðu vísindamanna. En sú afsökun fengi tæplega staðist. Frá 1972 til 1992 var um 85 % fylgni við tillögur Hafrannsóknarstofnunar og á þeim árum minnkaði ársafli þorsks úr 453 þúsund tonnum í 230 þúsund tonn og hrygningarstofninn úr 700 þúsund tonnum í 300 þúsund tonn. Og árin 1992 til 2001 hafði tillögum Hafrannsóknarstofnunar verið fylgt undantekningarlítið og ársafli þorsks fór á þeim árum úr 230 þúsund tonnum í 190 þúsund tonn og hrygningarstofninn úr 300 þúsund tonnum í 219 þúsund tonn.
Í tilefni af nýjum tillögum Hafrannsóknarstofnunar verður Fiskleysisguðinn nú boðinn til sölu í Bóksölu Andríki um stund og kostar þar kr. 1500. Heimsending innanlands að sjálfsögðu innifalin eins og um allar aðrar bækur í bóksölunni.