Helgarsprokið 3. júní 2007

154. tbl. 11. árg.

Þ að telst nú vart til tíðinda lengur að í Evrópusambandinu (ESB) svífist elíta sambandsins einskis við að koma fram vilja sínum. Dugi ekki til þess venjulegar lýðræðislegar aðferðir, nú þá er bara gripið til annarra ráða sem oft þola vart dagsins ljós. Það á ekki síst við um þessar mundir.

„Hvað gengur mönnum til sem krefjast aðildar Íslands að sambandinu, mönnum sem segjast hafa skoðað sambandið og hafa sumir af einstakri hógværð kallað sig sérfræðinga um ESB?“

Það er engin hemja hvað menn ganga langt í viðleitni sinni við að koma stjórnarskránni í gegn, sem þó var hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu í Frakklandi og Hollandi fyrir um tveimur árum. Henni var hafnað samkvæmt leikreglum sambandsins. Því má ekki heldur gleyma að pólitísk elíta fjölmargra aðildarríkja ákvað að fara auðveldu leiðina og leggja hana ekki einu sinni fyrir þjóðir sínar heldur létu bara þing landsins samþykkja hana. Eftir að henni var hafnað hófst hinn mesti vandræðagangur. Fyrst töluðu menn nú bara eins og bíða ætti eilitla stund og þá væri hægt að keyra hana í gegn, en af slíkum vinnubrögðum hafa menn nokkra reynslu í ESB. Þegar það mæltist fremur illa fyrir sættust menn á að skapa ætti umræðu um stjórnarskrána í samfélögum aðildarríkjanna, meðal bæði borgara og hagsmunasamtaka, fyrirtækja og stjórnmálasamtaka. En fremur lítið hefur farið fyrir umræðunni. Hugsanlega hefur sambandið og sá hluti elítunnar sem lengst vill ganga gert minna í því að stuðla að umræðu þar sem umræðan sem þó skapaðist var of andsnúin stjórnarskránni. Og hvað hefur þá gerst í staðinn? Ja, enn er hægt að koma jafnvel mestu efasemdarmönnum um ágæti sambandsins á óvart.

Það hefur nefnilega komið í ljós að undanfarna mánuði hafa átt sér stað leynilegar umræður sem hafa haft það að markmiði að koma stjórnarskránni í gegn í einhverri mynd. Þar á sauðsvartur almúginn ekki að koma nærri. Nei, það þýðir ekkert að vera að blanda í umræðuna almenningi, fræðimönnum, talsmönnum samtaka eða öðrum sem hugsanlega eru á öðru máli. Það flækir bara málið og minnkar líkurnar á því að vilji elítunnar nái fram að ganga. Þá er bara mun betra að komast að samkomulagi fyrir luktum dyrum og finna leið til þess að fá hana samþykkta án of mikillar aðkomu borgara sambandsins.

Háttsettir embættismenn aðildarríkjanna hafa verið að hittast til að reyna að ná samkomulagi um það hvernig stjórnarskráin eigi að líta út. Allt hjal um lýðræðislega umræðu er fokið út í veður og vind. Að umræðunni koma sárafáir. Lítið spyrst út af fundunum. Það er auðvitað ekkert nýtt í þessu, en eins og Vefþjóðviljinn hefur oft bent á þá er verulegur skortur á lýðræðislegum ferlum í sambandinu. Þessi aðferðafræði stjórmálaelítu sambandsins er gerræðisleg og andstæð því sem menn eiga að venjast í flestum þeim aðildarríkjanna sem eiga sér langa lýðræðislega hefð, þó að vissulega megi finna samsvörun í kommúnistaríkjum nútímans og fortíðar. Það er hætt við að Samfylkingin, eini flokkur landsins sem endilega vill aðild að draumaríki ESB, hefði látið í sér heyra á meðan hún var í stjórnarandstöðu ef ríkisstjórnin hefði hegðað sér á þennan hátt.

Þeir leiðtogar sem eru helstu talsmenn stjórnarskrárinnar þeytast milli landa og plotta. Angela Merkel kanslari Þýskalands á sér þann draum æðstan að stjórnarskráin verði lögð fram á leiðtogafundi aðildarríkjanna sem fram fer 21. – 22. júní en þá lýkur 6 mánaða formennskutíma Þýskalands í sambandinu. Að sumu leyti er hægt að hafa samúð með stjórnmálamönnum sem svona láta, ekki síst í ljósi þess að alveg eins miklar líkur eru á að það beri árangur. Þeir hafa fjárfest mikið af pólitískum trúverðugleika sínum í að málið nái fram að ganga og er það ekki einungis álitshnekkir fyrir þá innanlands heldur utanlands líka takist það ekki. En það á lítið skylt við lýðræðislegt fyrirkomulag og því miður er mun erfiðara fyrir borgara sambandsins að fylgjast með og skilja hvað fram fer á vettvangi sambandsins, enda er það mun „fjær“ flestum en mörg innanlandsmál. Jafnframt er aðgengi að upplýsingum um ESB mun minna.

Það sem gerir auðvitað þátt Angelu Merkel og kumpána hennar enn verra er að ekki er um að ræða neitt smámál. Stjórnarskráin mun snerta öll ríki sambandsins, alla borgara og fyrirtæki. Um er að ræða setningu grundvallarreglna samfélagsins sem ætlast er til að sé yfir landslögum hvers ríkis.

Elíta sambandsins vill þvinga stjórnarskrána í gegn í sem minnst breyttri mynd og gefa sem minnst rými fyrir málamiðlanir og annan slíkan óþarfa.

Hvað gengur mönnum til sem krefjast aðildar Íslands að sambandinu, mönnum sem segjast hafa skoðað sambandið og hafa sumir af einstakri hógværð kallað sig sérfræðinga um ESB? Það læðist sjálfsagt að einhverjum sá grunur að eitthvað annað búi að baki hjá sumum þeirra en umhyggja fyrir velferð þjóðarinnar.

Fregnir síðustu vikna herma að samstaða sé að myndast meðal leiðtoga aðildarríkjanna um stjórnarskrá ESB. Margir velta fyrir sér hvað felist í samkomulaginu. Stjórnmálaskýrendur keppast við að geta sér til um það en auðvitað vita það afskaplega fáir því samningaviðræðurnar fara fram í læstum bakherbergjum þar sem dregið er fyrir gluggana. Þó má ætla að í raun verði um litlar breytingar að ræða en hún verði snyrt til þannig að auðveldara verði að fá borgarana til að kyngja henni. Flokkur samræðustjórnmálanna – að nafninu til – er vafalítið ánægður með vinnubrögðin og verður enn ánægðari með niðurstöðuna. Sem betur fer hafði hann lítil áhrif á stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar um Evrópumál.