F yrir nú utan armæðuna sem frjálslynt fólk hefur af því að horfa upp á reykingabannið sem ofstækisfólki hefur tekist að fá sett í annarra manna húsum, þá er umræðan um það almennt til leiðinda. Ótrúlega oft virðast skoðanir þeirra sem tjá sig opinberlega um málið, snúast um það eitt hvort þeim sjálfum líkar vel eða illa við tóbaksreyk. „Þetta bann er löngu tímabært. Það er óþolandi að fá reykingalykt í jakkann sinn eftir að hafa verið að skemmta sér.“ – „Nei þetta bann er svívirða, hvar á ég nú að reykja?“
Það vantar ekki sigurhlakk þeirra sem nú hafa um stund náð að þvinga vilja sinn yfir veitingahúsaeigendur. Það sem hins vegar er vanræddara eru grundvallaratriðin sem skipta meira máli en hvort einhverjum líkar betur eða verr að fá tóbakslykt í buxurnar sínar. Það eru principin um eignarrétt, um ráðstöfunarrétt fullorðins fólks á eigin málum og um skyldu hvers manns til að taka ábyrgð á eigin lífi.
- Maður nokkur opnar veitingastaðinn Reykhúsið. Þangað býður hann fullorðnu fólki að koma og skemmta sér með ljúfum drykk og þægilegum vindlum. Hann auglýsir eftir starfsfólki sem reiðubúið sé að vinna á þessum stað sínum. Fólk kemur, sækir um vinnu og fær. Annað fólk ákveður að fara og skemmta sér á þessum stað. Allir vita að hverju þeir ganga, allir mæta sjálfviljugir. Kannski myndu einhverjir gestanna verða enn ánægðari ef einhverju yrði breytt á staðnum, vöruúrval þrengt eða aukið, fengin ný hljómsveit til að spila, ráðinn liprari barþjónn, en hvað sem því líður þá stendur það upp úr að bæði gestir og starfsfólk mæta sjálfviljugir á staðinn kvöld eftir kvöld.
- Þegar svona háttar til og ef einhver vill beita ríkisvaldinu til þess að banna rekstur staðarins, þá hlýtur að reyna á grundvallaratriði en ekki það hvort einhverju fólki leiðist að finna tóbaksreyk af fötunum sínum daginn eftir langa nótt. Vill fólk að ríkið megi banna fólki að reka stað eins og þennan, stað sem neyðir engu upp á nokkurn mann? Ef menn samþykkja það princip, að ríkið megi banna slíkan stað, stað þar sem enginn maður er beittur órétti á nokkurn hátt og enginn neyddur til neins, þá eiga menn að segja það hreint út að þeir telji að á Íslandi eigi að ekki að vera í gildi sá eignarréttur sem leyfi fullorðnu fólki að reka slíkan veitingastað, að á Íslandi eigi ekki að vera svo mikið athafnafrelsi fullorðins fólks að því sé heimilt að ráða sig til vinnu á slíkum stað og að á Íslandi megi ekki vera svo mikið frelsi að fullorðnu fólki sé heimilt að sækja slíkan stað.
- Og ef ríkið má banna slíkan stað, stað sem neyðir engan til neins, þvingar ekkert ofan í þann sem ekki ákveður sjálfur að mæta á staðinn og bíður jafnvel í röð í klukkutíma til að komast inn – hvað má það þá ekki banna?
Það er um slíkar grundvallarspurningar sem umræðan um „reykingabann á veitingahúsum“ hlýtur að snúast.