Þ að er algjör vitleysa að reykja. Eða svo söng Ruth Reginalds. Vel má vera að það sé rétt hjá Ruth, að minnsta kosti benda rannsóknir eindregið til þess að mikil tóbaksnotkun geti skaðað heilsu þeirra sem hana stunda og ánægjan af reykingunum kunni að vera greidd háu verði síðar. Eins og svo margt annað, til dæmis óreglulegur svefn, öfgafullt mataræði, hættuleg störf og mikil áfengisdrykkja. Mennirnir hafa marga lesti og því, sem einum er ánægja og tilhlökkun, hefur annar andstyggð á.
En það er munur á löstum manna og svo glæpum sem sumir þeirra fremja gegn náunga sínum. Að minnsta kosti lítur frjálslynt fólk svo á, að lesti sína eigi menn við sjálfa sig en þurfi ekki að standa öðru fólki skil á þeim. Vefþjóðviljinn hefur löngum talað fyrir rétti hvers manns til þess að haga lífi sínu sem mest eftir eigin dómgreind og löngunum, svo lengi sem betri réttur annarra er ekki brotinn.
Löstur er ekki glæpur fæst í Bóksölu Andríkis og kostar þar kr. 1700 heimsend. |
Í tilefni af tíu ára afmæli blaðsins, sem landsmenn fögnuðu fyrr á þessu ári, gaf útgáfufélag þess, Andríki, út litla bók eftir bandaríska hugsuðinn og sérvitringinn Lysander Spooner, þar sem hann tekur í meginatriðum sömu afstöðu. Í bókinni Löstur er ekki glæpur fjallar Spooner um þau verk manna sem skaða þá sjálfa eða eigur þeirra, það er að segja lesti þeirra, og svo þau verk sem skaða aðra menn eða þeirra eigur, glæpi þeirra. Og eins og vænta má telur Spooner að ríkið eigi ekkert með það að gera að refsa fólki fyrir lesti þess eða leggja á annan hátt stein í götu þeirra sem vilja fá að hafa sína lesti í friði.
Lysander Spooner var hinn kyndugasti maður. Hann var nítjándualdar Bandaríkjamaður; bóndasonur, lögfræðingur, athafnamaður og baráttumaður gegn hvers kyns ofríki. Hann hóf lögmannsstörf án þess að ljúka lögbundnu starfsnámi, hann rak póstburðarfyrirtæki í samkeppni við lögverndaða póstþjónustu ríkisins, hann barðist gegn þrælahaldi en viðurkenndi jafnframt rétt suðurríkjanna til að segja skilið við Bandaríkin. Og hann bar skegg sem minnir svona einna helst á Benjamín H. J. Eiríksson.
Í riti sínu um glæpi og lesti færir Spooner rök að því að ríkið eigi að láta fólk í friði þó það hafi sína lesti. Allir menn hafi lesti, en engin leið sé að slá því föstu í eitt skipti fyrir öll hvaða lestir séu verstir. Það fari ekki síst eftir einstaklingnum sjálfum hvaða áhrif þeir hafi á hann. Ef ríkið ætli sér að gera alla lesti refsiverða þá verða fangelsin full en enginn eftir fyrir utan til að smella í lás.
Löstur er ekki glæpur fæst í Bóksölu Andríkis og kostar þar kr. 1700, heimsending innanlands að sjálfsögðu innifalin eins og á öllum öðrum bókum í Bóksölunni. Og fyrst minnst er á aðrar bækur þar, þá má geta þess að bók Spooners er í sama broti og hliðstæðu útliti og önnur bók sem Andríki hefur gefið út, Lögin eftir Frédéric Bastiat, en nokkur eintök munu enn föl af henni ef vel yrði leitað.
Ekki fer illa á því að kynna bók Spooners í dag, daginn sem forræðishyggjumenn fagna því að hafa náð að reka reykingafólk út úr þeim húsum þar sem húseigandinn hefur hingað til boðið það velkomið. Ekki þarf að taka fram, að Spooner hefði ekki talið ríkinu heimilt að refsa þeim veitingamanni sem leyfði reykingar í eigin húsi. Og þar sem einhver mun ábyggilega æpa upp, að reykingamaðurinn væri ekki eingöngu að sinna lesti sínum heldur einnig að fremja glæp með því að blása reyk yfir saklausan gest, þá myndi Spooner auðvitað benda á það augljósa, að með því að fara sjálfviljugur inn í hús þar sem hann veit að reykingar eru leyfðar og reyks er að vænta, hefði hinn saklausi gestur samþykkt að fá yfir sig reyk. Með sama hætti og hnefaleikahögg lenda væntanlega einungis á þeim sem hafa samþykkt þátttöku í hringnum, fer reykur á veitingahúsum eingöngu til þeirra sem hafa sjálfviljugir gengið inn á þann stað þar sem þeir vissu af reyknum.