Föstudagur 18. maí 2007

138. tbl. 11. árg.

R

Þrátt fyrir að Kolviður fari í vasa skattgreiðenda er þjónusta hans dýrari en sambærilegra fyrirtækja erlendis.

íkissjóður, Orkuveita Reykjavíkur og fleiri hafa styrkt stofnun fyrirtækis að nafni Kolviður. Markmið Kolviðar er að bjóða landsmönnum upp á að jafna útblástur koltvísýrings frá bílum sínum út með því að styrkja skógrækt. Það er kallað kolefnisjöfnun. Hér á landi er því hafin sala aflátsbréfa gegn mengunarsyndum en þau hafa fengist erlendis um árabil. Engin ástæða er til að amast við því að þeir sem vilja kaupa slík bréf geri það. Það er mikilvægt að fólki líði vel og gott að geta bægt syndunum frá með þessum hætti.

Vefþjóðviljinn sagði til að mynda frá erlendum fyrirtækjum sem selja slíka kolefnisjöfnun fyrir tveimur árum. Ekkert er raunar því til fyrirstöðu að Íslendingar skipti við þessi erlendu fyrirtæki og því engin sérstök þörf á því að íslenskir skattgreiðendur styrki rekstur sjóðs af þessu tagi. Vandinn sem sumir telja að stafi af útblæstri mannsins á koltvísýringi er sagður hnattrænn svo það skiptir engu máli hvar kolefnisjöfnunin fer fram. Hinn ríkisstyrkti Kolviður er því enn eitt dæmið um að fyrst og fremst er verið að jafna um skattgreiðendur þegar jöfnunaraðgerðir eru boðaðar.

Félagið TerraPass er eitt þessara erlendu fyrirtækja. Fljótt á litið virðist það bjóða mun hagstæðari kjör á kolefnisjöfnun er Kolviður. Þau dæmi sem Vefþjóðviljinn reiknaði á heimasíðum TerraPass og Kolviðar benda til að verðskrá Kolviðar sé að minnsta kosti 50% hærri.

Til dæmis má taka Toyota Corolla sem ekið er 8.000 mílur á ári. Kolviður rukkar 4.344 krónur fyrir árið en TerraPass aðeins 1.860 krónur. Í þessu dæmi er því Kolviður 130% dýrari en TerraPass.

Kolviður virðist því bæði fara óboðinn í rassvasann á skattgreiðendum og  innheimta mun hærri gjöld af viðskiptavinum sínum en sambærileg fyrirtæki erlendis. Það má líka líta á dæmið frá þeim sjónarhóli að fyrir ákveðna upphæð megi kolefnisbinda mun meiri útblástur með því að skipta við TerraPass en Kolvið.

U mhverfisráð Reykjavíkurborgar ákvað fyrir skömmu að veita eigendum „visthæfra“ bíla afslátt í bílastæði borgarinnar. Umhverfisráði þótti ekki óhætt að nota orðið „vistvænn“ um bíla, það væri of jákvætt og gengi alls ekki því bílar væru bara neikvæð fyrirbæri. „Visthæfir“ bílar munu samkvæmt skilgreiningu ráðsins vera þeir sem gefa frá sér lítinn koltvísýring en mega að öðru leyti menga eins og koladallur, til að mynda hvað sót varðar. Þó er svifryk eitt helsta áhyggjuefni umhverfisráðsins.

Hvað ætlar Umhverfisráð Reykjavíkurborgar að gera þegar eigendur 12 strokka bensínháka mæta í bílastæði borgarinnar með aflátsbréfin sín frá Kolviði sem Orkuveita sömu borgar niðurgreiðir?