Þeir forkólfar Framsóknarflokksins, sem nú leggja mikið á sig til að þeirra eigin flokkur verði utan stjórnar, eru það ekki fyrst og fremst þeir sem vilja sjálfir ná ítökum og völdum í flokknum og vilja ekki hafa aðra þar á fleti fyrir? Má þar til dæmis nefna sveitarstjórnarmenn Framsóknarflokksins sem fengu aðeins 6% fylgi í kosningum fyrir ári en fóru beint í meirihlutasamstarf við Sjálfstæðisflokkinn? Ekki töldu þeir að Framsóknarflokkurinn þyrfti að leggjast til hvílu eftir þá útreið.
Það er að minnsta kosti ótrúlegt að menn geti í fullri alvöru ímyndað sér að Framsóknarflokknum sé fyrir bestu að detta nú úr ríkisstjórn og sitja sem áhrifalaus sjö manna stjórnarandstöðuþingflokkur. Framsóknarmenn hljóta að telja sig hafa starfað af ábyrgð í ríkisstjórn undanfarin ár. Er hugmyndin þá sú, að nú eigi flokkurinn að reyna að veiða út á að vera ábyrgðarlaus í stjórnarandstöðu? Og með hvað að markmiði? Til að auka fylgið í næstu kosningum í von um að… komast kannski í ríkisstjórn þá?
Hvenær var það sem fylgi Framsóknarflokksins fór fyrir alvöru að hrynja? Það var þegar úrtölumenn innan flokksins náðu að sannfæra forystuna um að allir væru sáróánægðir með hana og að nú væri ekkert til ráða annað en eilíf naflaskoðun, helst opinber.
Hvert er raunveruleikaskyn þeirra sjálfstæðismanna sem ímynda sér að flokki þeirra standi í raun til boða fjögurra ára stjórnarsamstarf við vinstri flokkana? Hvað halda þeir eiginlega að vinstriflokkarnir yrðu lengi til friðs í stjórninni? Með Ólaf Ragnar Grímsson á Bessastöðum, tilbúinn með „stjórnarmyndunarumboð“ um leið og stjórnin yrði sprengd.
Ígær gerðu ríkisfjölmiðlarnir miklar fréttir um hvað biðlaun hættra alþingismanna munu kosta ríkissjóð næstu mánuði. Allt í lagi – en hvað gerðu þeir margar fréttir um biðlaun þeirra starfsmanna Ríkisútvarpsins sem ákváðu að þiggja slíkt þegar Ríkisútvarpinu var breytt í opinbert hlutafélag á dögunum? Svona af því þeim þykja biðlaun hafa svo mikið fréttagildi.
Ætli það væri búið að segja milljón fréttir af bankastjóra Alþjóðabankans og unnustu hans, ef hann hefði ekki áður verið einarður embættismaður í Bush-stjórninni í Bandaríkjunum?