H vað á að segja um kosningaúrslitin?
Eitt og annað.
Aldrei datt Vefþjóðviljanum í hug að hvetja Hafnfirðinga til að samþykkja stækkun álversins í Straumsvík. Allir vitibornir menn sáu í hendi sér, að í álverskosningunni var enginn sigur í boði annar en phyrrosarsigur. Vinstrigrænir ákváðu að taka kosningasigur sinn út fyrirfram, í tveimur hlutum. Með sigrinum á álverinu í Straumsvík og með því að eyða uppsöfnuðu óþoli í að stöðva marklausa „klámráðstefnu“, sannfærðu þeir ótrúlegan fjölda fólks um að búið væri að greiða valdhöfum það kjaftshögg sem þeir hefðu unnið til. Það skemmtilega við þessi tvö atriði, að þessar afleiðingar blöstu við allan tímann.
Fyrir fjórum árum birtist einn forystumaður vinstrigrænna rétt fyrir kosningar og tilkynnti að fimmti hver karlmaður væri nauðgari. Fjöldi augna opnaðist fyrir vinstrigrænum. Á hverjum mánudegi þetta kosningavorið blasti við lesendum netútgáfu Morgunblaðins vísun á talningu einhverra vinstrigrænna á kynjahlutfalli viðmælenda í „Silfri Egils“. Það gerði sama gagn.
Fyrst eftir kosningarnar verða þingflokkarnir fimm. Í meirihluta þeirra situr fyrrverandi formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna.
Í prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavík lenti Kristrún Heimisdóttir í níunda sæti, Valgerður Bjarnadóttir í tíunda og Guðrún Ögmundsdóttir í ellefta. Langt fyrir neðan þær varð Ellert B. Schram, sem þarna fékk langþráða mælingu á fylgi sínu. Engin þessara kvenna komst á þing. Ellert B. Schram fer hins vegar inn. Enginn spyr Ellert hvort hann hyggist halda sætinu en ekki afsala sér því til Valgerðar Bjarnadóttur sem var fyrir ofan hann í prófkjöri flokksmanna. „Ég býð kjósendum upp á val, ég er þarna með á kjörseðlinum, nafnið mitt stendur þar skýrum stöfum og þátttakendur ráða því sjálfir hvort þeir vilji kjósa mig eða ekki. Hvort eð er. Hvort sem ég hringi eða ekki. Hvort sem ég falast eftir atkvæðinu eða ekki. Þeir sem telja mig geta gert gagn, þeir kjósa mig. Þeir sem telja lista Samfylkingarinnar sigurstranglegri án mín, þeir kjósa mig ekki. Svo einfalt er það“ skrifaði Ellert til Samfylkingarmanna þegar hann tók þátt í prófkjörinu. Þeir tóku hann á orðinu og kusu hann ekki heldur Valgerði Bjarnadóttur. Hann fer glaðbeittur á þing en hún ekki.
Land, þjóð, tunga – þrenning sönn og ein, var einu sinni sagt. Ólafur Hannibalsson er buúinn að vera í Þjóðarhreyfingunni og Íslandshreyfingunni. Næst fer hann í átthagafélag Tungnamanna.
Hjá vinstrigrænum lenti nýliðinn Guðfríður Lilja Grétarsdóttir í fjórða sæti í sameinuðu prófkjöri fyrir Reykjavíkurkjördæmin og suðvesturkjördæmið, fyrir ofan flokksjálka eins og Álfheiði Ingadóttur og Árna Þór Sigurðsson sem nutu mun minna fylgis. Guðfríður Lilja hafði hins vegar engin tengsl við flokkinn áður eða þá sem þar ráða ríkjum. Hún var sett í annað sætið í suðvesturkjördæmi, þar sem vinstrigrænir höfðu aldrei fengið kjörinn mann á þing. Álfheiður og Árni Þór voru hins vegar boðin fram í Reykjavík og eru glaðbeittir nýir þingmenn en Guðfríður Lilja ekki. Hún fær allt annað pólitískt líf án vinstrigrænna.
Björn Ingi Hrafnsson taldi í ljósi fylgis Framsóknarflokksins, rúmra 11 prósenta, að hann gæti ekki reynt að sitja í ríkisstjórn. Í síðustu borgarstjórnarkosningum fékk Framsóknarflokkurinn helmingi minna fylgi. Björn Ingi hljóp til og myndaði meirihluta á meðan Ólafur eff var í mat.
Kosninganóttina virtist ríkisstjórnin til skiptis fallinn og sloppin með skrekkinn. Þegar stjórnin lifði, þá veltu fréttamenn því mjög fyrir sér hvort Framsóknarflokkurinn gæti virkilega sest í ríkisstjórn með 11 prósent fylgi. Þegar stjórnin var fallinn ræddu fréttamenn af áhuga um væntanlega ríkisstjórn stjórnarandstöðunnar, án minnstu áhyggna af því að Frjálslyndi flokkurinn settist þar, með þau 6 prósent sem hann hafði lengst af nætur.
Fréttamenn töldu einnig að afar erfitt yrði fyrir stjórnarflokkana að starfa með eins manns meirihluta. En ekkert því til fyrirstöðu að stjórnarandstöðuflokkarnir gerðu það, þegar sá möguleiki virtist opinn. Þó er mikill munur á eins manns meirihluta tveggja flokka og eins manns meirihluta þriggja flokka. Fyrir nú utan augljós atriði eins og muninn á einstaklingunum sem skipa annars vegar þingflokka Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks eða Frjálslyndra, Samfylkingar og Vinstrigrænna.
Eitt af því fáa sem spillir gleði nýkjörinna þingmanna er ef þeir hafa verið strikaðir mikið út. Ef ekki hefur verið um opinbera herferð að ræða, heldur einfaldlega einkatiltæki hvers og eins kjósenda, þá er nefnilega hæpið að benda á til mótvægis þann hóp sem ekki strikar manninn út. Fyrir kosningarnar í gær, gerðist það hins vegar að einn auðugasti maður landsins efndi til opinberrar herferðar til að fá tiltekinn frambjóðanda strikaðan út. Frá samherjum frambjóðandans bárust litlar varnir. Herferðin fór ekki framhjá nokkrum manni og hafði þær afleiðingar, að hver einasti kjósandi flokksins í kjördæmi mannsins þurfti að gera upp við sig hvort ástæða væri til að strika manninn út. Ef marka má fyrstu fréttir þá höfnuðu fjórir af hverjum fimm þessari áskorun.
Magnús Þór Hafsteinsson yfirgaf kjördæmi sitt og valdi sér annað. Gamla kjördæmið fékk mann sem fyrr, en það nýja ekki. Í þingflokki Frjálslyndra verða auk formannsins þeir Kristinn H. Gunnarsson, Jón Magnússon og Grétar Mar Jónsson. Í þeim hópi hefði Magnús Þór Hafsteinsson verið rödd skynseminnar.
Ein alversta fjárfesting síðari tíma, er heiftúðug gagnrýni vinstrimanna á þingi og fjölmiðlum á fyrrverandi formann Sjálfstæðisflokksins. Árum saman endurtók hver þeirra eftir annan að þáverandi formaður flokksins væri hinn versti maður, allt illt væri honum að kenna og að allt annað líf yrði ef varaformaður hans tæki einhvern tíma við. Það væri nú betri maður sem enginn myndi gagnrýna. Þeir virtust alveg hafa horft framhjá þeim möguleika að hann tæki við einhvern daginn og að þá gæti verið óþægilegt að vera sjálfir búnir að vera besta auglýsingin fyrir höfuðandstæðinginn.
Kristinn H. Gunnarsson náði endurkjöri til þings. Það er sérstaklega verðskuldað, jafnvel í íslenskum stjórnmálum nútímans. Hann fær nú færi á að koma í bakið á sínum þriðja flokki.
Sú gagnrýni sem Samfylkingin fékk eftir prófkjör sín, að í þingflokki hennar yrði engin endurnýjun, reyndist reist á sandi. Það sést af því að gömlu brýnin Róbert Marshall og Guðmundur Steingrímsson náðu ekki kjöri, en Ellert B. Schram kemur ferskur til starfa. Þegar Ellert var fyrst kjörinn á þing, þá var Ólafur Ragnar Grímsson framsóknarmaður, Geir Hallgrímsson borgarstjóri í Reykjavík og enn átta ár þangað til Halldór Blöndal yrði kjörinn alþingismaður í fyrsta skipti.
Í viðtali við Morgunblaðið í febrúar síðastliðnum sagði Guðrún Ögmundsdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, að „allt undir 32% fylgi sé ekki ásættanlegt“. Samfylkingin fékk 26,8 % og tekur Vefþjóðviljinn undir með Guðrúnu að varla megi sætta sig við það. Þetta er allt of mikið fylgi.
Augljóst má vera, að komist Samfylkingin ekki í ríkisstjórn séu pólitískir dagar núverandi forystu hennar taldir. Flokkurinn verði raunar eitt allsherjar mishapp. Nú er því spurt: verður Samfylkingin skorin niður úr snörunni?