Hvað hefur gerst? Hver er skýringin á þessum umskiptum? Skýringin er tvíþætt: Annars vegar skýrist þetta af mistökum Samfylkingarinnar, sem virðist einhvern veginn ekki kunna að reka pólitík á eigin forsendum, né heldur að endurnýja liðskostinn og virkja hæfileikafólk til starfa. Samfylkingarfólk fer gjarnan með það sem betur hljómar, en það er eins og því fylgi engin sannfæring. Og svo sannarlega enginn eldmóður. Það er alveg sama, hverjir gefast upp á að fylgja stjórnarflokkunum að málum: Alltaf gera þeir lykkju á leið sína framhjá garði Samfylkingarinnar. Meira að segja kvenfólkið flykkist frá Samfylkingunni, þótt stuðningur við hana eigi að gefa þeim von um að sjá konu í fyrsta sinn sem húsráðanda í forsætisráðuneytinu. Sá kostur virðist ekki hafa mikið aðdráttarafl. |
– Jón Baldvin Hannibalsson útskýrir lítið gengi Samfylkingarinnar í Lesbók Morgunblaðsins í gær. |
Á sömu stundu og Jón Baldvin Hannibalsson fyrrverandi formaður Alþýðuflokksins sat á fremsta bekk á landsfundi Samfylkingarinnar sendi hann henni ofangreinda kveðju í Morgunblaðinu. En Jón virtist vera eini maðurinn í landsfundarsalnum sem hafði áhuga á umræðustjórnmálum því aðrir landsfundarmenn höfðu ekki áhuga á að ræða hvernig stendur á því að flokkurinn kann ekki að reka pólitík á eigin forsendum. Enginn gaf sig fram til að ræða um skort á sannfæringu og eldmóði.
Og þetta var ekki eina dæmið um að samræðu- og þátttökustjórnmálin væru sett til hliðar á landsfundi Samfylkingarinnar.
Eins og Vefþjóðviljinn hefur áður rakið afritar Samfylkingin flesta þætti landsfundar Sjálfstæðisflokksins. Jafnvel dagsetningin, auglýsingar um fundinn og skemmtiatriði og hópefli frambjóðenda við setningu eru hin sömu. Eitt bar þó í milli. Samfylkingin treysti ekki landsfundarfulltrúum sínum til að kjósa formann og varaformann. Á landsfundi Sjálfstæðisflokksins fá allir fundarmenn auðan kjörseðil og geta kosið hvaða fundarmann sem er formann og varaformann. Þetta lagði forysta Samfylkingarinnar ekki í. En ef það hefði verið gert hefðu úrslitin verið giska svona.
Formannskjör (131 greiddi atkvæði):
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir: 85
Össur Skarphéðinsson: 45
Jóhanna Sigurðardóttir: 1
Auðir og óvissir: Lúðvík Geirsson og Gunnar Svavarsson.
Varaformannskjör (131 greiddi atkvæði):
Björgvin Sigurðsson: 35
Kristján Möller: 40
Ágúst Ágúst Ágústsson: 892
Auðir og ógildir: 0
Vefþjóðviljinn hefur ekkert annað fyrir sér um kjörsóknina en atkvæðagreiðslu um helsta hitamál fundarins þar sem 131 greiddi atkvæði en talsmenn Samfylkingarinnar höfðu gefið í skyn að um þrettán hundruð fundarmenn tækju þátt í störfum fundarins. En eins og Jón Baldvin segir, þá fer Samfylkingarfólk gjarnan með það sem betur hljómar. Auðvitað hefði verið nærtækara að miða til dæmis við kjörsókn í kjöri til framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar sem einnig fór fram á fundinum. Hinn opni og lýðræðislegi flokkur hefur þó engar upplýsingar gefið um greidd atkvæði í þessu kjöri til æðstu stjórnar flokksins milli landsfunda. Til þess eru vítin að varast þau. Á síðasta landsfundi gaf Samfylkingin upp atkvæðatölur í varaformannskjöri og úr því urðu tóm leiðindi.
Svo vikið sé nánar að átakamálinu þar sem 131 greiddi atkvæði sagði um það í frétt Morgunblaðsins:
Kristrún Heimisdóttir, formaður allsherjarnefndar Samfylkingarinnar, mælti fyrir hönd nefndarinnar eindregið gegn því á landsfundi Samfylkingarinnar í dag að tillaga Valgerðar Bjarnadóttur um eftirlaunafrumvarp yrði tekin til efnislegrar umræðu á fundinum. Gengið var til atkvæða um málið og var tillagan felld með 70 atkvæðum gegn 61. |
Í flokki umræðustjórnmálanna þótti það auðvitað ekki gott að ræða tillögu efnislega og greiða atkvæði um hana heldur var henni bara vísað frá. Í frétt Morgunblaðsins sagði einnig að stuðningsmenn tillögunnar hefðu mótmælt því harðlega að hún kæmi ekki til efnislegrar meðferðar á fundinum og sagt að þessi málsmeðferð myndi færa fylgi flokksins úr 18% í 13%. Eins og atkvæðagreiðslan ber með sér vildi stór hluti fundarmanna ræða málið efnislega. En nei.
Það var Valgerður Bjarnadóttir frambjóðandi Samfylkingarinnar í Reykjavík sem ætlaði að bera fram þessa tillögu um endurskoðun á eftirlaunakjörum alþingismanna. En fékk ekki. Valgerður tók þátt í prófkjöri Samfylkingarinnar í haust og hefði samkvæmt því átt að skipa 5. sæti á framboðslista í öðru hvoru Reykjavíkurkjördæmanna. Þegar framboðslistinn leit dagsins ljós var Ellert B. Schram formaður 60+ sem hlaut lítið gengi í prófkjörinu kominn í sæti Valgerðar og hún færð niður í sjötta sætið.
Valgerður var þó eiginlega eina endurnýjunin í prófkjörinu en eins og Jón Baldvin segir þá kann Samfylkingin ekki „að endurnýja liðskostinn og virkja hæfileikafólk til starfa“.