Helgarsprokið 8. apríl 2007

98. tbl. 11. árg.

S tærsti munurinn á Samfylkingunni og Vinstri hreyfingunni – grænu framboði er að í VG eru menn sem þora að mynda sér skoðanir á málum án þess að fara fyrst á faglegan málfund hjá framtíðarhópi í dögun 21. aldar þar sem kynnt er niðurstaða glænýrrar skoðanakönnunar um málið.

Einn af þessum mönnum er Steingrímur J. Sigfússon formaður VG. Að áliðnu síðasta hausti gaf Steingrímur út bókina Við öll, íslenskt velferðarsamfélag á tímamótum, með hugleiðingum sínum um stjórnmálin og þjóðfélagið. Bókin er hin veglegasta af slíku riti að vera og þótt Steingrímur hafi sjálfsagt áður sagt margt af því sem í henni stendur – og meira til – í ræðustóli Alþingis er það ánægjuefni að íslenskur stjórnmálamaður setji hugmyndir sínar skipulega á blað með þessum hætti. Þetta er raunar ekki frumraun Steingríms í þessu efni því fyrir áratug ritaði hann bókina Róið á ný mið, sóknarfæri íslensks sjávarútvegs.

Svo byrjað sé á byrjuninni segir á saurblaði bókarinnar: „bókin er prentuð með jurtafarfa á umhverfisvænan pappír“. Líklega þýðir þessi mikilvæga yfirlýsing að pappírinn í bókinni er endurunninn þótt það gleymist jafnan að endurvinnsla er ekki síður orkufrekur iðnaður en frumvinnsla á pappír. En hvað með þennan jurtafarfa? Trjám var hlíft með því að nota endurunninn pappír, en lífið hins vegar murkað úr öðrum jurtum til að kreista fram blek í bókina.

Í upphafi bókarinnar tekur Steingrímur þann kost að reyna að telja lesendum trú um að íslenskt þjóðfélag hafi verið í jafnri og góðri þróun alla síðustu öld en ekki aðeins frá því Sjálfstæðisflokkurinn komst til valda árið 1991. Þetta er auðvitað ákveðin viðurkenning á þeim góða árangri sem náðst hefur á síðustu árum en Steingrímur vill láta líta svo út að hann sé eðlilegt framhald af því sem á undan var komið.

Þvert á móti var tuttugasta öldin meira og minna samfellt uppbyggingar- og framfaraskeið. Engu að síður er látið eins og Íslendingar hafi búið í svarthvítum sjónvarpsþætti fram að 1991. Þá hafi allt verið bannað sem ekki var leyft, fólk mátti ekki einu sinni drekka bjór eða horfa á sjónvarp á fimmtudögum. Samfélagið á að hafa verið mótað af höftum og stöðnun ríkt á öllum sviðum.

Það er undarlegt að Steingrímur nefni þessi tvö dæmi því bæði var búið að leyfa bjór, sjónvarp á fimmtudögum og sjónvarp annarra en ríkisins alla daga fyrir árið 1991. Og enginn hefur haldið öðru fram. Steingrímur greiddi samviskusamlega atkvæði á Alþingi gegn leyfi til útvarpsreksturs einstaklinga og bjórsölu á níunda áratugnum, svo að hann ætti að vita betur. Það eru hins vegar til mun nærtækari dæmi. Til að mynda var ríkiseinokun á símaþjónustu hér allt til ársins 1998 og þegar afnám hennar kom til kasta Alþingis brást Steingrímur ekki ríkisforsjánni. Að því tilefni sagði hann:

Það er alveg morgunljóst að aðstæður á Íslandi eru þannig að allt þetta samkeppnishjal t.d. í símaþjónustu er meira og minna bull.

Til marks um að allt var í stakasta lagi fyrir 1991 nefnir Steingrímur að „árið 1945 voru 10 Íslendingar um hvern síma, en 1990 aðeins tveir“. Það er helsti gallinn á öllum málflutningi Steingríms að hann telur sig og embættismenn ríkisins geta dæmt um þarfir borgaranna. Hálft símtól á mann var réttur skammtur árið 1990. Hann vill greiða bætur eða „samfélagslaun“ eins og hann telur rétt að kalla þær og samfélagslaunin taki mið að „vandaðri lífskjarakönnun“ sem sýni „raunverulegan framfærslukostnað“. Hann lætur í veðri vaka að allir hafi sömu þarfir og til að meta þær þurfi bara nægilega vandaða könnun. Ef þetta væri raunin hefði Sovétríkjunum væntanlega ekki mistekist svo hrapalega að sinna þörfum þegnanna. Steingrímur minnist raunar lítið á kommúnismann í Sovétríkjunum nema til að réttlæta byltingu bolsévika eins og hún hafi verið uppreisn alþýðunnar gegn glysi og glingri keisaraættarinnar fremur en valdarán lítillar glæpaklíku:

Sá sem gengið hefur um söfn Kremlar með gersemum frá keisaratímanum og barið augum allan þann gegndarlausa íburð skilur betur hvers vegna blásnauð bænda- og verkamannastétt Rússlands lagði eyrun við málflutningi byltingarmanna.

En nóg um það. Nú um stundir þykir ómálefnalegt, kaldastríðshugsun, að tengja gamla kommúnista við kommúnismann. Það er þó áberandi, ef ekki sláandi, við lestur bókarinnar hve hnjóðsyrði Steingríms um Bandaríkin eru mörg, stór og fjölbreytt þegar þau eru borin saman við sakleysisleg orðin hér að ofan um að byltinguna í Rússlandi. Hann gengur jafnvel svo langt að kenna Bandaríkjunum um viðbrögð ofsafenginna múslíma við skopmyndum Jótlandspóstsins (bls. 134).

Steingrímur fullyrðir í bókinni að nýjustu upplýsingar bendi til að ójöfnuður hér á landi sé „orðinn einna mestur í öllum OECD ríkjunum að Bandaríkjunum undanskildum“ og nefnir því til stuðnings tölur um Gini-stuðulinn svonefnda. Í Hagtíðindum hagstofunnar birtust nýlega gögn sem eru hluti af samræmdri lífskjararannsókn Evrópusambandsins sem einnig nær til EFTA landanna. Í tilkynningu hagstofunnar um könnunina sagði: „Af 31 Evrópuþjóð árið 2004 var ein þjóð með lægra lágtekjuhlutfall en Íslendingar, tvær með sama hlutfall en 27 þjóðir voru með hærra lágtekjuhlutfall. Tvær þjóðir voru með lægri fimmtungastuðul en Íslendingar en 28 með hærri stuðul. Loks voru þrjár Evrópuþjóðir með lægri Gini-stuðul en Íslendingar en 27 þjóðir með hærri stuðul.“ Fullyrðingar Steingríms um ójöfnuð hér á landi eru því alger fjarstæða en honum er vorkunn að hafa drukkið ótæpilega úr viskubrunni prófessoranna Þorvaldar Gylfasonar og Stefáns Ólafssonar um þessi efni.

Steingrímur fullyrðir einnig að kynbundinn launamunur sé „hroðaleg meinsemd á íslenskum vinnumarkaði“ þótt margt bendi til að þær mælingar sem sýna þennan mun taki alls ekki tillit til allra þátta og engin leið sé að fullyrða að slíkur kynbundinn munur sé til staðar.

Steingrímur nefnir að allar skattabreytingar síðustu 10 – 15 ára hafi „miðast að því að bæta stöðu fjármagnseigenda, hinna tekjuhæstu og gróðafyrirtækja“. Það er rétt að ákveðin stefnubreyting varð árið 1991 þegar ríkisstuðningi við tapfyrirtæki var hætt með aflagningu ýmissa styrktarsjóða atvinnulífsins sem ríkisstjórn Steingríms 1988 – 1991 hafði komið á koppinn. Skattlagningu fyrirtækja var einnig breytt þannig að nú geta þau óhikað sýnt hagnað. Það hefur margfaldað tekjur ríkissjóðs af tekjuskatti fyrirtækja. Annað dæmi sem Steingrímur nefnir um að dekrað hafi verið við hina tekjuhæstu er að hátekjuskatturinn svonefndi var nýlega lagður niður. En hátekjuskatturinn var ekki lagður á fyrr en árið 1994 svo að nú má segja að tekin hafi verið upp sú stefna sem ríkisstjórn Steingríms hafði hvort eð er að þessu leyti.

Vinstri grænir hafa í seinni tíð verið mjög andvígir álframleiðslu og meðal annars nefnt í því samhengi að stóriðjan ryðji öðrum atvinnugreinum, sem þeir kalla „þekkingariðnað“, úr vegi. Steingrímur gerir þessu ýtarlega skil í bókinni. Þessi kenning um „ruðningsáhrif stóriðjunnar“ getur verið rétt að því leyti að Landsvirkjun er ríkisfyrirtæki og nýtur því ábyrgðar ríkisins gagnvart lánveitendum sínum. Það er því hugsanlegt að stóriðjan njóti niðurgreiddrar orku. En VG er líklega eini flokkurinn þar sem andstaða við einkavæðingu orkufyrirtækjanna er alger og undanbragðalaus. Þeir vilja alls ekki að raunverulegur kostnaður við fjáröflun og landnotkun Landsvirkjunar og annarra orkufyrirtækja komi í ljós.

Þótt vinstri grænir tali mikið um þekkingariðnaðinn vildi Steingrímur engu að síður banna mönnum að spreyta sig á einu helsta sviði tækninýjunga í samtímanum, fjarskiptum. Ef marka má bókina er hann enn sömu skoðunar (bls. 79). Hversu trúverðugt er þetta tal hans um „þekkingariðnaðinn“ þegar hann vill banna einstaklingum að reka fyrirtæki í þeirri tæknigrein sem er í hvað örustum vexti og er undirstaða margra annarra tæknigreina?

Og það fer ekki á milli mála að Steingrími þykir hlutur hins opinbera, ríkis og sveitarfélaga, af þjóðarkökunni afar rýr.

Hlutur hins opinbera losar rétt 40% af vergri landsframleiðslu á Íslandi (rúm 42% árið 2005) . Þetta er verulega lægra en á hinum Norðurlöndunum og mörgum löndum meginlands Evrópu, en eðlilega nokkuð yfir meðaltalinu innan OECD, sem lönd með allt aðra þjóðfélagsgerð draga niður.

Já hugsiði ykkur, Íslendingar eru bara 42% ársins að vinna fyrir útgjöldum ríkis og sveitarfélaga. Það „rétt losar“ 23 vikur á ári. Við það bætist svo ýmis kostnaður sem ríkið leggur á menn með höftum eins og innflutningshömlum ýmiss konar. Það minnir á þá tíð er Steingrímur var landbúnaðarráðherra þjóðarinnar og fyrirtækið Baula hóf að flytja inn jurtaost eða ostlíki fyrir veitingastaði til pizzugerðar. Þá sagðist Steingrímur ekki kæra sig um slíkt „gervidrasl“ og reyndi að stöðva innflutninginn í ríkisstjórn.

Steingrímur gerir afstöðu sinni til Evrópusambandsins góð skil í bókinni. Afstaða Samfylkingar og VG til aðildar Íslands að Evrópusambandinu er gerólík. Ef vinstri grænir standa á sínu má segja að afstaða þeirra tryggi að Ísland verði áfram frjálst og fullvalda ríki, hver sem ríkisstjórn verður á næstu árum. Það er þó ekki víst að það tryggi að Íslendingar sjálfir verði frjálsir ef marka má kerfisbundna afstöðu Steingríms gegn öllum málum sem horft hafa til frjálsræðis í landinu undanfarin 20 ár. Það er hins vegar í sjálfu sér órökrétt fyrir vinstri flokk eins og VG að vera andvígur aðild að miðstýringar- og skrifræðisbákni eins og Evrópusambandinu og að því leyti kæmi ekki á óvart að vinstri grænir skiptu um skoðun á aðild Íslands að ESB einn góðan veðurdag. En vinstri grænir vilja enn sem komið er íslenskan sósíalisma fyrir Íslendinga. Ekkert innflutt gervidrasl.

Það skortir auðvitað ekkert á að Steingrímur fjalli um umhverfismál í bókinni. Hann er góður fulltrúi þeirra gömlu sósíalista, friðarsinna og mótmælenda sem urðu grænir að utan þegar Berlínarmúrin féll, en héldu auðvitað áfram að vera rauðir að innan. Vinstrimenn klifra ekki aðeins upp eftir bökum alþýðunnar heldur nú einnig í trjánum. Patrick Moore stofnfélagi í Greenpeace lýsir þessum hópi manna vel í sjónvarpsmyndinni The Great Global Warming Swindle sem sýnd var nýlega í Bretlandi og verður vonandi sýnd hér á landi. Moore segir að önnur meginástæðan fyrir því að öfgafull umhverfisverndarstefna skaut svo sterkum rótum hafi verið hrun kommúnismans. Berlínarmúrinn féll og margir friðarsinnar og aðrir mótmælendur gerðust umhverfisverndarsinnar. Moore segir þá hafa komið með nýmarxismann með sér inn í umhverfisverndarhreyfinguna og tileinkað sér græn áróðursbrögð á afar hugvitsamlegan hátt. Moore sagði skilið við Greenpeace vegna þessa.

Steingrímur hefur tileinkað sér þennan málflutning af lífi og sál:

Framvindan á sviði umhverfismála heimsins er grafalvarleg. Geigvænlegar umhverfisógnir seðja að mannkyninu vegna hömlulausrar neyslu, rányrkju auðlinda, og hruns vistkerfa. Skammsýn gróðahyggjan er allsráðandi í heimsviðskiptum og ræður í allt of miklum mæli í stjórnmálum heimsins einnig.

Þetta gæti verið úr Kommúnistaávarpinu nema búið er að skipta arðráni öreiganna út fyrir rányrkju auðlinda og umhverfis.

Ekki þarf að fjölyrða um þeir einkunnir sem Steingrímur gefur Bandaríkjunum í þessum málaflokki. Sérstaklega fær ríkisstjórn George W. Bush það óþvegið þegar kemur að svonefndum gróðurhúsaáhrifum. En það er ekki alveg verðskulduð viðurkenning því aukning gróðurhúsalofttegunda undir stjórn Bush er bæði minni en var hjá stjórn Clintons og Gore og líka hjá gömlu Evrópusambandslöndunum 15 sem mest hafa barið sér á brjóst í þessum efnum. Vefþjóðviljinn sagði frá þessum tíðindum hér en þau spurðust út eftir að bók Steingríms kom út.

Og hvað má þá kalla stefnu Steingríms þegar upp er staðið eftir lestur þessarar bókar? Hann veltir því sjálfur fyrir sér í bókarlok:

Nota má ýmis hugtök til að lýsa þeirri hugmyndafræði eða hugsun sem liggur til grundvallar samþættingu umhverfisverndar og félagshyggju. Vinstri hreyfingin -grænt framboð ber í nafni sínu að þar er byggt á slíkri hugmyndafræði, slíkri samþættingu. Við getum kallað það græna félagshyggju eða vinstri stefnu, græna jafnaðarstefnu, grænan nýsósíalisma.

Þetta er nærri lagi hjá Steingrími. Nýgrænn sósíalismi mundi þó ná þessu alveg.