Þ eir sem hafa lítið að gera um helgar geta stytt sér stundir með því að lesa margs konar efni sem hið opinbera býður upp á. Ekki er nauðsynlegt að fara á bókasöfn hins opinbera til að fylla upp í dauða tímann, þeir sem hafa aðgang að lýðnetinu geta til dæmis brugðið sér inn á vef Tollstjóra og fundið þar efni sem mun halda þeim uppteknum um stund. Þeir sem hafa ekki allt of rúman tíma geta látið sér nægja að lesa sér til um aðflutningsgjöld í afar áhugaverðu riti sem hefst á þeim þarfa skatti almanakssjóðsgjaldi, sem greiðist af innfluttum og útgefnum dagatölum og dagbókum. – Og það er rétt að taka fram að þetta er ekki gabb í tilefni dagsins.
„Tollahandbókin er … einhver svakalegasta hryllingssaga sem gefin hefur verið út á íslensku og er ekki fyrir viðkvæmar sálir.“ |
Hinir, sem hafa allan tíma veraldar og þurfa þess vegna ekki dagatöl, geta gamnað sér lengi við lestur Tollahandbókar I: Tollar, reglugerðir o.fl. sem Tollstjórinn í Reykjavík gefur út af miklum myndarskap. Tollahandbókin er litlar 1.040 blaðsíður og án þess að rétt sé að upplýsa um of um efni bókarinnar, verður ekki hjá því komist að nefna að þetta er einhver svakalegasta hryllingssaga sem gefin hefur verið út á íslensku og er ekki fyrir viðkvæmar sálir.
Í stjórnmálaumræðunni hér á landi kemur stundum í ljós að sumir menn hafa lítið sem ekkert kynnt sér efni þessa rits, sem er miður því að flestir þátttakendur í stjórnmálum tækju líklega skynsamlegri afstöðu til ýmissa mála hefðu þeir kynnt sér stóru hryllingssöguna. Þannig kemur það jafnvel fyrir að menn halda því fram að hér vanti mikið upp á að lagðir séu á sérstakir skattar, gjarnan nefndir umhverfisskattar, til að draga úr innflutningi og notkun á bifreiðum. Sumir halda nefnilega að það sé afar mikilvægt og þjóni umhverfisvernd að hindra fólk í að komast ódýrt og örygglega á milli staða.
Við lestur Tollahandbókarinnar má mönnum hins vegar verða ljóst að hér á landi eru lagðir á umtalsverðir umhverfisskattar þó að þeir heiti allt öðrum nöfnum og hafi verið fundnir upp í öðrum tilgangi en þeim að þjóna andstæðingum nútímans. Þeir eru raunar svo umtalsverðir að með ólíkindum er að nokkur maður skuli ferðast um að öðru en tveimur jafnfljótum, og segir mikla sögu um hvers kyns þarfaþing bifreiðin er fyrir hinn almenna mann.
Á blaðsíðu 45 í þessari bók er til að mynda sagt frá lögum nr. 39/1988 um bifreiðagjald með síðari breytingum og þar er útskýrt hvernig gjaldið leggst á bifreiðar. Bifreiðaeigendur þekkja þetta gjald því að þeir fá gjaldaseðilinn tvisvar á ári inn um lúguna hjá sér. Maður sem á 1.500 kílógramma bíl, sem sagt venjulegum fólksbíl, greiðir 11.435 krónur tvisvar á ári fyrir ekki neitt – nema að vísu ánægjuna af því að þurfa ekki að engjast um í valkvíða yfir að ráðstafa fénu sjálfur.
Nokkru aftar í bókinni er komið inn á ekki síðri lög, nr. 29/1993 um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. með síðari breytingum. Þær breytingar eru raunar sumar til bóta því að gjaldið hefur verið lækkað frá því sem verst var, en engu að síður fá þeir sem kaupa sér bíl að greiða annaðhvort 30% eða 45% vörugjald í ríkissjóð eftir því hvort bifreiðin er með vél yfir eða undir 2.000 rúmsentimetrum. Ofan á þetta gjald leggst svo 24,5% virðisaukaskattur, sem þýðir að eftir að bifreiðin er komin á hafnarbakkann hækkar hún um 62-81% við að fara á göturnar. Sé henni ekið um göturnar bætist svo við hár „umhverfisskattur“ í formi vörugjalds og bensíngjalds, auk virðisaukaskatts.
Vegna sérstakra gjalda og hárra skatta greiða Íslendingar hátt í tvöfalt hærra verð fyrir bíla en Bandaríkjamenn. |
En hvað þýðir þetta fyrir Íslendinginn Jóa sem ber sig saman við vin sinn, Bandaríkjamanninn Joe? Joe segir Jóa að hann hafi keypt sér tvo nýja bíla á dögunum og Jóa langar samstundis að yngja upp bíla heimilisins. Joe segir Jóa frá því að hann hafi fengið sér Ford Focus, fólksbíl með tæplega 2.000 rúmsentimetra vél á 15.130 dali, sem jafngildir um 996 þúsund krónum. Hinn nýi bíllinn er jepplingurinn Ford Escape með 3.000 rúmsentimetra vél á 22.515 dali, sem jafngildir um 1.500 þúsund krónum.
Í eyrum Jóa hljómar þetta nokkuð vel, tæplega tvær og hálf milljón fyrir tvo nýja bíla, fólksbíl og jeppling. Jói ákveður að kaupa bílana af sama bílasala og Joe vinur hans gerði og flytja þá inn sjálfur. Flutningurinn kostar með öllu um 100 þúsund krónur á bíl þannig að þegar þeir eru komnir á hafnarbakkann hefur Jói lagt út 2,7 milljónir króna og er býsna sáttur með settið. Ánægjan verður hins vegar töluvert minni þegar hann er búinn að afhenda ríkinu tæpar 2 milljónir króna fyrir að fá að setja bílana á götuna og verðið er þar með komið upp í tæpar 4,7 milljónir króna.
Eitt brýnasta hagsmunamál Íslendinga er að stóra hryllingssagan verði stytt svo um munar og helst af öllu þyrfti að fækka blaðsíðunum niður í eina með stuttri tilkynningu um að ákveðið hefði verið að Íslendingar mættu kaupa sér hvers kyns vörur án nokkurra sérstakra refsiskatta og -gjalda. Jafnvel í hryllilegustu skáldsögum er skrýmslunum yfirleitt fargað að lokum og öll þau ranglátu gjöld sem er að finna í Tollahandbókinni mættu fara sömu leið.