Laugardagur 31. mars 2007

90. tbl. 11. árg.

F oreldrar barna í leikskólum og grunnskólum sveitarfélaganna fá reglulega tilkynningar um svonefnda „starfsdaga“ kennara. Starfsdagarnir standa þó ekki alveg undir nafni því þessa daga fellur allt hefðbundið starf í skólum og leikskólum niður. Foreldrar þurfa því að taka frí frá vinnu til að gæta barna sinna eða koma þeim á vini og ættingja. Allt ber þetta þess skýr merki að skólarnir eru opinberar stofnanir og viðskiptavinirnir skipta ekki máli. Það þykir ekkert tiltökumál að skella á nefið á börnum og foreldrum. Líklega myndu engin einkafyrirtæki haga sér með þessum hætti heldur reyna að skipuleggja „starfsdagana“ á kvöldin eða um helgar þegar viðskiptavinirnir þurfa ekki á þjónustu að halda. Þau myndu að minnsta kosti ekki tóra lengi með því að hegða sér eins og skólarnir gera.

Þeir foreldrar sem nýtt hafa sér þjónustu dagmæðra hafa hins vegar ekki þurft að þola starfsdaga fram að þessu. En nú er að verða breyting á því. Reykjavíkurborg hefur nú ákveðið að haldinn verði árlegur námskeiðsdagur fyrir foreldra í Reykjavík. Í tilkynningu frá leikskólaskrifstofu borgarinnar til þeirra foreldra sem nýta sér þjónustu dagmæðra segir að „fyrsti starfsdagur dagforeldra“ verði haldinn föstudaginn 20. apríl 2007. „Það er von okkar að foreldrar sjái sér fært að verða við óskum dagforeldra um frí til þess að taka þátt í námskeiðsdeginum“, segir og í bréfinu.

Það er ekki nóg með að borgin sé með starfsdaga í sínum eigin stofnunum heldur reynir hún nú að koma slíkum dögum að hjá sjálfstæðum atvinnurekendum eins og dagmæðrum.

Það er þó engin ástæða til að ætla að borgarfulltrúar vilji að allir, hvar í stétt sem menn standa, taki sér frí frá störfum til að iðka starfsdaga. Það kom í ljós þegar nokkrir klámframleiðendur ætluðu að hafa starfsdaga á Hótel Sögu. Þeir máttu bara alls ekki taka sér hlé frá störfum sínum, að mati borgarstjórnar.

Hvernig væri að borgarfulltrúar tækju sjálfir eins og 365 starfsdaga á ári?