Pólitík er ekki eitthvað sem menn ákveða í lokuðum herbergjum. Pólitík gerist þannig að fólk tekur frumkvæði og það verður ekkert stöðvað. Þannig var t.d. stofnað 17. maí félag stuðningsmanna Reykjavíkurlistans í Grafarvogi. Og það er bara vegna þess að fólkinu í Grafarvogi fannst að það þyrfti að stofna félag. Það spyr hvorki kóng né prest að því. Það bara stofnar sitt félag.“ |
– Helgi Hjörvar í R-lista blaðinu Vor í Reykjavík maí 1994. |
H in hjartnæma lýsing Helga Hjörvars á stofnun félags stuðningsmanna R-listans í Grafarvogi 17. maí 1994 verður ekki lakari þótt blaðið sem hún birtist í hafi komið út nokkrum dögum fyrir stofnfundinn. Ástæðan fyrir því að Helga dreymdi stofnfund félags R-listamanna í Grafarvogi með svo góðum fyrirvara er að vinstri menn hefur alltaf dreymt að halda úti félagakerfi eins og því sem Sjálfstæðisflokkurinn byggir á, til að mynda með hverfafélögum í Reykjavík.
Í borgarstjórnarkosningum vorið 2002 ákvað R-listinn að stofna styrkarmannakerfi enda hafa vinstri menn ekki síður horft löngunaraugum á styrktarmannakerfi sjálfstæðismanna. R-listamenn dreifðu því eyðublað til stuðningsmanna sinna sem var slíkt ljósrit af því sem sjálfstæðismenn nota, að R-listamenn voru meira að segja vinsamlega beðnir um að velja sér „sjálfstæðisfélag 1“ og „sjálfstæðisfélag 2“ til að styðja.
Fyrir síðustu þingkosningar stofnaði Samfylkingin svo auðvitað „Stjórnmálaskóla Samfylkingarinnar“ en Stjórnmálaskóli Sjálfstæðisflokksins hefur starfað frá árinu 1938.
Og nú hefur Samfylkingin ákveðið að halda landsfund sinn sömu helgina og Sjálfstæðisflokkurinn í apríl. Vafalaust munu þar fara fram gagnlegar umræður um störf og stefnu flokksins frá síðasta landsfundi. Á síðasta landsfundi mældist flokkurinn með yfir 30% fylgi í skoðanakönnunum en þykir heppinn að ná 20% um þessar mundir. Staða flokksforystunnar hlýtur því að koma til skoðunar á fundinum. Auðvitað býst enginn við því að formaðurinn verði skoraður á hólm svo skömmu fyrir kosningar og er það án efa ein ástæðan fyrir því að landsfundurinn er haldinn svo nærri kosningum. Öðru máli gegnir hins vegar um varaformanninn Ágúst Ólaf Ágústson sem var kjörinn með þvílíkum glæsibrag á síðasta landsfundi að tæplega 839 atkvæði skiluðu sér í kjörtölvurnar á 500 manna fundi. Samfylkingin, sem yfirleitt vill óð og uppvæg skipa rannsóknarnefndir, hefur verið ófáanleg til að ræða þessa glæsikosningu Ágústs Ólafs.
En hverjir eru líklegir til að sækjast eftir varaformennskunni? Því miður hafa skoðanakannanir að undanförnu dregið máttinn svo úr þingmönnum Samfylkingarinnar að fáir þeirra sjást lengur á almannafæri. Það er engu líkara en að þeir hafi flestir ákveðið að láta lítið á sér bera fram yfir kosningar svo þeir verði ekki tengdir um of við tapið, sem þeir virðast ganga út frá sem vísu. Einn maður heldur þó áfram að berjast og staða Samfylkingarinnar í kjördæmi hans er sú skásta á landinu samkvæmt könnunum. Björgvin G. Sigurðsson oddviti flokksins í Suðurkjördæmi hlýtur að hugleiða að gefa kost á sér í forystu flokksins við þessar aðstæður. Ekki myndi slík breyting hafa minnkandi áhrif á fylgið – og eins og dæmin sanna hlyti fundarsóknin að aukast við varaformannskjör. Miðað við stemmninguna í flokknum og þátttöku í prófkjörum hans síðasta haust er að óbreyttu ekki beinlínis von á fjölmenni.
Vefþjóðviljinn styður hins vegar að sjálfsögðu Ágúst Ólaf til áframhaldandi varaformennsku.