T vær spurningar í sambandi við væntanlega álverskosningu Hafnfirðinga:
Sumir álversandstæðingar hafa talað um að upplýsingar um það hversu miklum fjárhagslegum ábata bæjarsjóður Hafnarfjarðar megi vænta af álversstækkun, heyri undir mútustarfsemi. Að tal um möguleika bæjarins á aukinni þjónustu við bæjarbúa – því enginn nefnir auðvitað útsvarslækkun – jafngildi því að reynt sé að kaupa atkvæði bæjarbúa í þágu framkvæmdamanna. Gott og vel. Gildir það sama um til dæmis kosningaloforð vinstrigrænna í komandi alþingiskosningum? Þar er lofað stórfelldum fjáraustri til ýmissa málefna. Gildir um kosningaloforð vinstrigrænna sama áskorun og beint er til Hafnfirðinga: „Látum ekki múta okkur“?
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, sú sama og hefur bæði sagst enga skoðun hafa á kosningunni um stækkunina og vera þeirrar skoðunar að ekki eigi að stækka álverið, hefur nú sagt að ákvörðun um stækkun álversins sé stærri en svo að Hafnfirðingar einir geti tekið hana fyrir alla landsmenn. Gott og vel. Gildir þessi skoðun hennar þá óháð því hvernig Hafnarfjarðarkosningin fer? Kemur þá til greina að Alþingi ákveði að heimila stækkun álversins jafnvel þótt meirihluti hafnfirskra kjósenda hafni henni? Eða gildir þessi regla kannski eingöngu ef álversandstæðingar tapa kosningunni?
F rá því var greint í vikunni, að gríðarleg aðsókn barna væri nú í sumarbúðir KFUM og KFUK og hafi hundruð barna verið skráð í búðirnar fyrstu klukkustundina sem skráning stóð yfir. Þetta þarf ekki að koma á óvart enda dvöl í sumarbúðum þessara félaga bæði gagnleg og uppbyggjandi. Vinsælustu og þekktustu búðirnar eru vitaskuld þær sem KFUM stendur fyrir í Vatnaskógi, þar sem enn er byggt á arfleifð og starfi sr. Friðriks Friðrikssonar. Í samtali þeirra sr. Friðriks og Valtýs Stefánssonar, og síðar var endurbirt í Myndum úr þjóðlífinu, segir meðal annars:
Fyrsta sumarið fengum við lánað tjald. Áttum við von á að fá það aftur, en fengum að vita viku áður en við ætluðum að leggja af stað, að það fengist ekki. Þá var ég á ferð með nokkrum drengjum uppi hjá Lækjarhvammi. Þar komu þá ríðandi framhjá okkur bræðurnir Kjartan og Ólafur Thors. Ég kalla til þeirra og segi: Drengir, getið þið ekki útvegað okkur tjald? Ólafur stanzar og spyr, hvað það eigi að vera stórt. Ég segi honum það. Þá segir hann: Við skulum tala saman í fyrramálið. Síðan kom tjaldið á tilsettum tíma. Og sama sagan hefir oft endurtekið sig. Það hefir komið upp í hendurnar á okkur, sem við höfum þurft á að halda.
Nú er teið búið, svo séra Friðrik fer að kveikja sér í vindli. – Þetta er einn af þeim, sem kallaðir eru 100 kílómetra vindlar, segir hann, – þ.e.a.s. þegar maður er í bíl, á sæmilega góðum vegi, þá á einn svona að duga 100 kílómetra leið. Þeir endast mér að vísu ekki nema 60-70 km. |
Og hvað kemur þetta íslenskum stjórnmálum nútímans við? Ekki nokkurn skapaðan hlut. En hugsi menn sér bara: Þarna má í stuttum texta finna sr. Friðrik, kristilegt starf fyrir unga drengi, hjálpsemi Ólafs Thors, vindla og reykingar undir stýri.
Skapraunin sem vinstrimenn hafa af þessu er bara of mikil til að sleppa því.