Mánudagur 12. mars 2007

71. tbl. 11. árg.

Hann leyndi sér varla spenningurinn hjá Morgunblaðinu þegar það á dögunum sló upp nýjustu furðukenningu sinni. Ráða konur úrslitum? spurði blaðið í ritstjórnargrein og réði sér varla fyrir áhuga á því sjónarmiði að helmingur kjósenda gæti ráðið úrslitum komandi alþingiskosninga – og þá sennilega óháð því sem hinum helmingnum dytti í hug að kjósa. Sú kenning blaðsins, að eftirlætishópur þess, „konur“, muni ráða úrslitum kosninganna er auðvitað mjög skemmtileg og til að vera ekki eftirbátur í framsetningu þvættings þá vill Vefþjóðviljinn láta þess getið að hann telur að einstaklingar fæddir 1. til 15. dag mánaðar muni ráða kosningaúrslitunum einir og sér.

Annað er það sem Morgunblaðið hefur mikinn áhuga á, er að kannanir sýni að Konur muni að þessu sinni fremur kjósa vinstriflokka en aðra. Af því mun Morgunblaðið vitaskuld draga þá röngu ályktun að aðrir flokkar, sem kunni að vilja fá atkvæði Kvenna, eigi þá að sveigja stefnu sína enn frekar til vinstri. Í raun er það hins vegar svo, að vilji borgaralega sinnaðir menn, hvort sem þeir halda úti stjórnmálaflokki, dagblaði eða öðru þvílíku, höfða meira til kvenna en þeir gera nú, þá eiga þeir þvert á móti að hverfa aftur til sinna eigin grundvallarviðhorfa og andæfa þeim femínisma sem þeir hafa í samblandi af hræðslu og hugsunarleysi daðrað við undanfarin ár.

Á síðustu misserum hafa hinir og þessir af borgaralega væng íslenskra þjóðmála eytt drjúgum hluta af tíma og virðingu sinni í að láta eins og þeir hafi miklar áhyggjur af „stöðu kvenna“ á Íslandi. Látið eins og í landinu sé í raun einhver „kynbundinn launamunur“ sem nauðsynlegt sé að berjast gegn. Látið eins og „staða kvenna“ í flokkum þeirra sé skammarleg og að þeir þurfi að sverja hana af sér dag og nótt. Haldið að þeir þurfi að skrifa leiðara eftir leiðara um stöðu kvenna. Það sem þeir virðast aldrei geta skilið, er að með þessu tali áorka þeir ekki öðru en því að sannfæra fólk um að vandamálin séu í raun og veru til. Að það sé í raun til „kynbundinn launamunur“, og það þó engar rannsóknir hafi sýnt fram á marktækan launamun sem byggist á kyni en ekki vinnuframlagi, menntun, reynslu og svo framvegis. En þegar búið er að sannfæra fólk um þetta – þá fer þetta fólk ekki og kýs hægrimenn. Nei þá fer það fólk, sem trúir þessu, og kýs þá sem hæst hafa talað um þetta árum saman. Hægrimenn munu aldrei fá eitt einasta atkvæði út á það að láta eins og þeir trúi ruglinu. Þeir munu einungis ná að staðfesta fyrir öðru fólki að ruglið sé sannleikur. Magnús Stefánsson getur mætt með eins mörg bleik bindi í vinnuna og hann vill. Framsóknarflokkurinn mun ekki fá eitt einasta atkvæði út á það – en einhvers staðar mun einhver sitja við sjónvarpsskjáinn og hugsa: já nú verður að fara að gera eitthvað alvarlegt í þessum jafnréttismálum. Og fara svo og kjósa vinstrigræna.

Og af því að minnst var á „kynbundinn launamun“ sem sumir halda í einlægni að sé til staðar og hafi lengi verið, þá er ekki úr vegi að vekja enn athygli á fróðlegri grein dr. Helga Tómassonar dósents um þetta mál, en hann hefur í tímaritinu Þjóðmálum fjallað um tölfræðigildrur og blekkingar og fært rök fyrir því að það séu í raun engar upplýsingar sem réttæti fullyrðingar um kynbundinn launamun. Hin fróðlega grein dr. Helga birtist í hausthefti Þjóðmála árið 2005 en það hefti fæst einmitt, eins og önnur, í bóksölu Andríkis.

Áfáum einstaklingsvefjum er fjallað af meiri skynsemi um þjóðmál en á heimasíðu hins þindarlausa Gunnlaugs Júlíussonar, fyrrverandi sveitarstjóra. Í nýjustu færslu sinni segir hann meðal annars:

Mig undrar ekki að það hafi næstum því liðið yfir Magnús Stefánsson félagsmálaráðherra þegar hann hóf að kynna væntanlegt frumvarp til jafnréttislaga sem hann ætlar að vísu ekki að leggja fram. Líklega hefur hann ekki verið búinn að lesa það áður en síðan þyrmt yfir hann í ræðustól Alþingis þegar hann hóf lesturinn og sá hvað stóð í frumvarpinu. Það stendur til að gera jafnréttisstofu að nokkurs konar Stasi stofu sem getur krafið fyrir tæki um gögn, beitt þau dagssektum og fellt óáfrýjanlega dóma. Á hvaða leið eru menn. Umræðan byggir á einhverjum frösum og fjasi. Launamunur kynjanna er sagður vera hitt og þetta. án þess að hönd sé festandi á umræðunni. Er ekki einnig munur á launum karla innbyrðis og launum kvenna innbyrðis? Vitaskuld. Einstaklingarnir eru misjafnir og skila mismunandi verðmætum störfum þótt þeir vinni hlið við hlið. Sumir vinna vel, aðrir miður. Suma einstaklinga vilja fyrirtækin alls ekki missa en aðrir mega svo sem fara. Á að taka alla möguleika fyrirtækjanna til að gera vel við gott fólk? Það þýðir bara eitt, launalækkun, því ekki geta fyrirtækin hækkað laun þeirra sem eru slakari upp í laun þeirra allra bestu. Ef þetta frumvarp fer í gegn munu verktakasamningar smám saman verða ráðandi form á vinnumarkaði til að fyrirtækin hafi einhverja möguleika á að hífa og slaka. Það er ekkert kynbundið heldur bundið við einstaklinga.

Mér finnst óskiljanlegt að stjórnmálamenn sem vilja láta taka sig alvarlega skuli gleypa svona samsetning ótugginn og halda að þetta sé þjóðfélaginu til framdráttar. Ef haldið er nógu lengi áfram á verða fullyrðingarnar að staðreyndum það er gömul saga og ný.