Helgarsprokið 11. mars 2007

70. tbl. 11. árg.

Special price, only for you my friend. Þessi orð kannast margir íslenskir sólarlandafarar við, einkum þeir sem lagt hafa leið sína á útimarkaði, þar sem oft má finna vörur af óljósum eða dularfullum uppruna. Með þessum ummælum er yfirleitt verið að reyna að lokka fólk til að kaupa eitthvað glingur – venjulega fyrir alltof hátt verð – á þeirri forsendu að viðskiptavinurinn sem í hlut á sé með einhverjum hætti svo sérstakur að hann geti í þessu tilviki gert alveg einstaklega góð kaup. Fyrir slíkum tilboðum eru margir dálítið veikir og það vita sölumennirnir að sjálfsögðu.

Nú þegar skammt er til kosninga eru kjósendur umsetnir af sölumönnum úr röðum frambjóðenda sem keppast við að gera þeim tilboð af þessu tagi. Þeir hlaupa milli hagsmunasamtaka, byggðarlaga og áhugahópa um einstök málefni og gera þeim ótrúlega hagstæð tilboð um fjárveitingar, sérsniðna löggjöf eða fyrirgreiðslu af einhverju öðru tagi, uppfullir af djúpum skilningi á þeim óvenjulegu og einstæðu aðstæðum sem fyrir hendi eru í hverju tilviki fyrir sig. Sumir þeirra trúa áreiðanlega því sem þeir segja – að minnsta kosti á meðan þeir eru að segja það – en aðrir eru án efa bara að gera kaldrifjaðar tilraunir til atkvæðakaupa.

„Raunar er sömu sögu að segja af Samfylkingunni. Ótal dæmi sanna að hún fer alltaf á taugum þegar hagsmunahópar fara af stað og setja þrýsting á stjórnmálamenn. Hún hegðaði sér jafnvel oft með þeim hætti þegar útlit var fyrir að hún gæti orðið allstór flokkur og nú þegar fylgi hennar er að hrynja er fyrirstaðan greinilega engin.“

Þetta vita líka hagsmunahóparnir. Þeir þekkja af reynslu, að stjórnmálamenn og flokkar eru sérstaklega veikir fyrir á síðustu mánuðunum fyrir kosningar og nota því þennan tíma sérstaklega vel til að króa þá af og kreista út úr þeim aðgerðir eða að minnsta kosti kosningaloforð í sína þágu. Aðferðirnar eru einfaldar, en árangursríkar. Þær geta til dæmis birst í því að hafa persónulega samband við einstaka þingmenn eða frambjóðendur, halda blaðamannafundi eða senda út fréttatilkynningar til að vekja athygli á vandamálum á viðkomandi sviði, halda fundi og ráðstefnur þar sem fulltrúum flokkanna er boðið að setja fram sína stefnu í málaflokknum og svo má lengi telja. Yfirleitt spila fjölmiðlar gagnrýnislaust með í þessum leik og láta hagsmunahópana misnota sig í þeim tilgangi að magna upp þrýstinginn.

Reynslan sýnir að allir flokkar eru viðkvæmir fyrir baráttuaðferðum af þessu tagi. Þeir eru hins vegar misnæmir fyrir þeim. Litlir flokkar og þeir sem eiga undir högg að sækja hverju sinni eru að jafnaði auðveldustu fórnarlömbin. Það á ekki síst við þegar um er að ræða flokka sem hafa óljósan hugmyndafræðilegan grundvöll. Eðli málsins samkvæmt er freistingin mest fyrir slíka flokka að láta undan þrýstingi hagsmunahópanna og það er um leið auðveldast, því stefnan er hvort sem er á reiki. Það ætti því engum að koma á óvart að Framsóknarflokkurinn hefur löngum verið fljótur að bregðast við þrýstingi af þessu tagi og gefa loforð út og suður. Sagan sýnir, að flokkurinn sem eitt sinn reyndi að skapa sér þá ímynd að hann væri „kletturinn í hafinu“ hefur miklu oftar feykst til eins og lauf í vindi.

Raunar er sömu sögu að segja af Samfylkingunni. Ótal dæmi sanna að hún fer alltaf á taugum þegar hagsmunahópar fara af stað og setja þrýsting á stjórnmálamenn. Hún hegðaði sér jafnvel oft með þeim hætti þegar útlit var fyrir að hún gæti orðið allstór flokkur og nú þegar fylgi hennar er að hrynja er fyrirstaðan greinilega engin. Fyrir utan almenna taugaveiklun á þeim bæ er hugsanlega líka sú skýring undirliggjandi, að allir helstu forystumenn flokksins hafa hlotið sitt pólitíska uppeldi í litlum flokkum og þótt metnaður flokksins hafi staðið til þess að verða stór, þá er hugarfarið enn eins og í smáflokki. Það er áreiðanlega skýringin á því að flokknum hefur mistekist að setja fram almenna stefnumörkun og þingmenn flokksins hafa fest sig í málfundaæfingum og upphlaupum út af dægurmálum eins og alræmdur eldri leiðtogi af vinstri kantinum orðaði það nýlega.

Það er að sjálfsögðu mikilvægt fyrir kjósendur að hafa þetta samspil hagsmunahópa og stjórnmálaflokka í huga nú á síðustu vikunum fyrir kosningar. Eins og á útimörkuðunum við Miðjarðarhafið er full ástæða fyrir þá að varast gylliboðin. Ef tilboð frambjóðanda eða stjórnmálaflokks virðist of gott til að vera satt, þá er það örugglega of gott til vera satt.

En fyrir stjórnmálamenn og flokka er líka rétt að hafa í huga, að yfirleitt er lítið samhengi milli loforðakapphlaupsins og árangurs í kosningum. Það er nefnilega sem betur fer algengara en hitt að kjósendur láti pólitískar hugsjónir eða almennt traust til manna og flokka ráða atkvæði sínu. Með undanlátssemi við sérhagsmuni eða fagurgala gagnvart tilteknum markhópi geta menn kannski komist klakklaust í gegnum einn fund eða einn fréttatíma, en til lengdar leiðir ístöðuleysi af því taginu hins vegar til þess að menn glata trúverðugleika sínum. Er ekki trúlegt að sú staðreynd skýri djúpa tilvistarkreppu Framsóknarflokksins og Samfylkingarinnar um þessar mundir?