F réttaþátturinn Ísland í dag á Stöð 2 gerði litla verðkönnun í ódýrum matvöruverslunum Íslands og Danmerkur. Það var athyglisvert að margt sem fréttamennirnir tíndu ofan í innkaupakörfurnar var á svipuðu verði eða jafnvel ódýrara í íslensku versluninni. Það sem gerði það hins vegar að verkum að íslenska karfan varð um 30% dýrari voru einkum kjötinnkaupin. Þótt engin könnun af þessu tagi segi alla söguna kemur þessi niðurstaða auðvitað ekki á óvart því kjötframleiðendur hér á landi eru að mestu leyti verndaðir fyrir samkeppni erlendis frá með innflutningshindrunum.
Það er merkilegt að engum hefur dottið í hug að banna innflutning á fiski. Þó mætti nota flest þau rök sem notuð eru til að styðja innflutningsbann á landbúnaðarafurðum til að réttlæta bann við útlendum fiski. Fiskveiðar og vinnsla eru til að mynda mikilvægur atvinnuvegur á landsbyggðinni. Sumir þeirra búvöruframleiðenda sem njóta mestrar tollverndar fá einnig mikla ríkisstyrki. Ætli sjávarútvegurinn væri ekki sömuleiðis á stórfelldum ríkisstyrkjum ef hann væri verndaður með sama hætti og landbúnaðurinn?
Í vikunni verður haldin bragðlaukahátíð í Reykjavík. Það verður skemmtileg tilbreytni fyrir marga og hefði ekki þurft að verða nokkrum manni til skapraunar. En einhverra hluta vegna gengur hátíðin undir því heldur framandlega nafni, „food and fun“. Hvers vegna var ekki hægt að hafa íslenskt nafn á hátíðinni? Hvað til dæmis með þá gömlu rómversku kröfu, Brauð og leikar?