Helgarsprokið 18. febrúar 2007

49. tbl. 11. árg.

Í byrjun 9. áratugarins var grunnurinn lagður að hugmyndafræðilegri gagnbyltingu á Íslandi. Ísland var þá í hópi ófrjálsustu hagkerfa Evrópu og stundum í spaugi kallað Albanía norðursins. Ef miðað er við frelsisvísitölu Fraser Institute sést að árið 1980 var Ísland í 64. sæti af 105 þjóðum, árið 2004 vorum við í 9. sæti af 130.

„Ein þeirra hugmynda sem mest fjarstæða þótti á 9. áratugnum var hugmynd F. A. Hayeks um að afnema einkarétt ríkisins á myntsláttu.“

Mikilvægur áfangi í þessari gagnsókn voru heimsóknir frjálslyndra fræðimanna sem skýrðu út mikilvægi þeirra breytinga sem seinna var hrint í framkvæmd, verðstöðugleika, frjálsra gjaldeyrisviðskipta, einkavæðingar og skattalækkana. Mörg þessara erinda voru tekin saman og gefin út í bók, Lausnarorðið er frelsi, sem helsti baráttumaður frjálshyggjubyltingarinnar Hannes Hólmsteinn Gissurarson ritstýrði.

Margar þeirra hugmynda sem í upphafi þóttu róttækar, urðu seinna sjálfsögð sannindi. Sú saga er oft sögð að í Englandi þegar hugmyndaveitan IEA gaf fyrst út rit árið 1977 að stáliðnaðurinn yrði einkavæddur þótti það hlægilegt. Flestar þeirra hugmynda sem fræðimennirnir kynntu fyrir Íslendingum á 9. áratugnum þóttu óraunsæjar, en þykja nú sjálfsögð sannindi. Í þessu sambandi ber þó að hafa í huga að Stefán Ólafsson komst ekki á fyrirlestur Miltons Friedmans í september 1984, þar sem aðgöngueyrir auk gjalds fyrir hádegisverð var 1.200 krónur eða 7.220 að núvirði.

Ein þeirra hugmynda sem mest fjarstæða þótti á 9. áratugnum var hugmynd F. A. Hayeks um að afnema einkarétt ríkisins á myntsláttu. Hayek flutti fyrirlestur 2. apríl, á afmælisdegi H. C. Andersen, um skipulag peningamála, sem mörgum þótti ævintýri líkast.

Hayek byrjaði að rifja upp að á meðan stjórnun peningamála hafi verið bundin gullfæti hafi verðlag sveiflast sáralítið. Á tvöhunduð ára tímabili hafi verðlag ekki sveiflast meira en 30% í Bretlandi og reynsla Bandaríkjamanna hafi verið svipuð. Hins vegar taldi Hayek ekki mögulegt að hverfa aftur til gullfótarins. Vantrú hans á afskipti stjórnmálamanna á peningamál hafi snúið honum til þeirrar skoðunar að afnema ætti einkarétt ríkisins á myntsláttu. Hayek segir í fyrirlestri sínum:

„Þegar við horfum um öxl, sjáum við, að flestir siðir okkar og hættir hafa orðið til við úrval eða þróun; þeim, sem reyndust betur, var haldið áfram, hinum hafnað. En þetta átti ekki við um peninga. Þar var ekki um að ræða neitt úrval, neina þróun, neina samkeppni ólíkra siða. Valdsmenn komu þegar í upphafi auga á það, hversu gagnlegir peningar gátu orðið þeim, svo að þeir tóku sér einkaleyfi á framleiðslu þeirra.“

Hayek segir að við þetta hafi eðli peninga breyst úr vöru í tæki sem stjórnmálamenn beittu til að ná mis raunhæfum markmiðum en áður var t.d. hugtakið peningamálastefna óþekkt. Við þetta varð verðgildi gjaldmiðla miklu óstöðugra en áður, án þess þó að öðrum markmiðum eins og fullri atvinnu eða hagvexti væri betur náð.

Hayek bendir á að vegna þess að stjórnmálamenn eigi ekki í neinni samkeppni um framleiðslu peninga hafi þeir aukið magn þeirra fram úr hófi og verðgildi þeirra fallið. Einokunin hafi gert það að verkum að peningar hafi ekki fengið að þróast í sjálfsprottnu skipulagi. Notendur peninga hafa ekki getað valið þá gjaldmiðla sem þeir telja traustasta.

Hayek segir síðan: „En ekki er óhugsandi, að menn geti framleitt peninga með öðru hugarfari; að fólk tæki betri peninga fram yfir verri. Samkeppni í framleiðslu peninga fæli í sér, að framleiðandi peninga missti viðskiptavini, þegar hann byði vonda peninga, og þeir tækju að skipta við aðra framleiðendur.“

Hér má raunar segja að Hayek hafi reynst ansi sannspár hvað sparnað varðar, en hlutfall ríkisskuldabréfa af sparnaði hefur snar lækkað út um allan heim á undanförnum árum og raunar er það vel þekkt að fjármálastofnanir gefi út skuldabréf til almennings sem eru ekki bundin ríkismyntinni heldur til dæmis hrávöru. Hayek segir að til að hugmynd sín geti orðið að veruleika þurfi einungis að breyta lögum eins og um lögeyri, það er að menn geti ekki innheimt skuldir nema í ríkismyntinni.

En það var ekki bara Hayek sem kom til Íslands á 9. áratugnum og lagði okkur gott til. James Buchanan flutti hér fyrirlestur árið 1982 og gerði þá meðal annars hugmyndir Hayeks að umtalsefni, hann sagði:

„Tillaga Hayeks um samkeppni gjaldmiðla kann til dæmis að eiga við í eins litlu opnu hagkerfi og hinu íslenska. Þá á ég að vísu ekki við peninga, sem framleiddir væru af bönkum eða öðrum einkafyrirtækjum, heldur venjulega gjaldmiðla, svo sem bandaríkjadali, bresk pund, svissneskan franka, þýsk mörk og íslenskar krónur. Þið gætuð látið þessa gjaldmiðla keppa hvern við annan. Með öðrum orðum gætuð þið leyft fólki að velja, í hvaða gjaldmiðli það gerði fjárhagsskuldbindingar sínar. Þetta hlyti að veita valdsmönnum nokkurt aðhald, því að annaðhvort hætti íslenska krónan að falla í verði eða menn tækju upp aðra gjaldmiðla í viðskiptum, til dæmis þannig að svissneskur franki útrýmdi íslenskri krónu af peningamarkaðinum.“

Þessi hugmynd virðist vera að koma til framkvæmda í dag, fremur sem afleiðing sjálfssprottinnar þróunar en meðvitaðrar ákvörðunar. Þótt verðbólga hafi hér verið fremur lítil undanfarinn áratug hefur gengi krónunnar sveiflast á móti myntum helstu viðskiptaþjóða okkar. Ef fyrirtæki telja sér í óhag að nota íslensku krónuna vegna þessa, hefur hún einfaldlega orðið undir í samkeppni og ekkert við því að segja. Þróunin getur því orðið með ósköp svipuðum hætti og Hayek bjóst við, en hann sagði í fyrirlestri sínum:

„Það yrðu líklega atvinnufyrirtækin, sem ættu stærstan hlut að því að velja úr peninga. Þau kæmust fljótlega að því, að ein aðalvandræðin af verðbólgunni hyrfu; þau eru, að útreikningar og bókhald og samningar hætta að merkja eitthvað. Fyrirtækin gætu tekið að velja um það, í hverjum hinna ólíku gjaldmiðla á markaðnum þau ættu viðskipti sín; og framleiðandi peninga hefði ærinn hag af framleiðslu sinni, svo hann legði allt kapp á að halda viðskiptavinum sínum.“

Þótt það séu ekki enn sem komið er fyrirtæki sem keppi um hylli notenda gjaldmiðla má glöggt sjá hvernig stærstu myntsvæði heims keppa, evrusvæðið annars vegar og það sem kallað er dollarablokkin hins vegar. Það er því eðlileg þróun að íslensk fyrirtæki séu farin að hugleiða að nota aðrar myntir en krónuna og raunar ekki nokkur ógn við íslenskt hagkerfi. Það væri mun meiri ógn ef stjórnvöld reyndu að hindra frjálst val fyrirtækjanna, enda myndi það leiða til annars af tvennu; að gjaldmiðillinn hamlaði vexti og viðgangi fyrirtækjanna eða að fyrirtækin flyttust úr landi.

Það væri einnig óeðlilegt að taka sérstaka ákvörðun um að skipta um lögeyri vegna þeirrar þróunar sem nú á sér stað. Eðlilegra væri að afnema lögin um lögeyri eins og Hayek lagði til og leyfa fólki að velja hvaða gjaldmiðil það notar. Það að taka upp dollar eða evru í stað íslenskrar krónu leysir ekki vandann því báðar þessar myntir eru í raun undir forræði stjórnmálamanna ríkja eða ríkjasambanda sem vitað er að standa illa fjárhagslega á næstu áratugum. Ekki er nokkur ástæða til að ætla að stjórnvöldum sé treystandi til vita hvaða gjaldmiðill verði stöðugastur. Nær væri að virkja samkeppnina á þessu sviði sem öðrum.