Enn ein fréttin barst í fyrradag um mann sem reynt var að þvinga með illu til að borga skuld sem sögð var vegna fíkniefnaviðskipta. Svo virðist sem farið hafi verið með manninn um hábjartan daginn í sparisjóð undir hótunum um ofbeldi og honum ætlað að taka út fé til að greiða skuldina. Eftir ónafngreindum lögregluþjóni var svo haft að þetta sýndi hversu fíknaefnaheimurinn væri óvæginn.
Þetta þarf engum að koma á óvart. Hvað sem mönnum finnst um þá staðreynd að neysla og sala tiltekinna fíkniefna er bönnuð í flestöllum ríkjum heims, þá blasir það við að svo lengi sem til er fíkniefnamarkaður í blóra við slíkt bann þá munu fjölmargir steypa sér í skuldir vegna neyslu sinnar. Þeir, sem þessir menn skulda, hafa frá sínum bæjardyrum séð engin önnur úrræði en ofbeldið til að innheimta skuldina. Ekki geta þeir farið í mál og gert svo fjárnám hjá skuldaranum. Það er auðvitað engin réttlæting fyrir ofbeldinu, en þeir sem vilja að fíkniefnaviðskipti séu bönnuð, og það er vafalaust mikill meirihluti manna, þeir ættu ekki að loka augunum fyrir því að fíkniefnabann hindrar ekki fíkniefnaskuldir. Það tryggir bara að innheimtuaðferðirnar verða mun ógeðfelldari.
Annar angi þessa máls eru svo þau afbrot sem fíkniefnaneytendur fremja til að fjármagna neysluna. Innbrot, rán, fjársvik og svo að sjálfsögðu innflutningur og sala á efnunum sjálfum er fylgifiskar bannsins. Bannið býr þannig til vítahring ofbeldis og afbrota.
Það kemur heldur engum á óvart að hertar refsingar við fíkniefnabrotum gera ekkert nema auka hörkuna og miskunnarleysið í fíkniefnaviðskiptum. Refsing við fíkniefnainnflutningi getur verið margföld á við refsingu fyrir alvarlegar líkamsmeiðingar, að ekki sé minnst hótanir um meiðingar.
Engum dettur í hug að meira frelsi í fíkniefnamálum muni leysa alla undan fíkninni. En eftir áratuga reynslu af banninu hljóta menn að huga að öðrum leiðum en þeirri sem engu hefur skilað nema fleiri afbrotum og meiri eymd þeirra sem ánetjast efnunum.