Í öllu „álbrjálæðinu“ og „stóriðjustefnunni“ hefur eitt álver verið gangsett á Íslandi síðastliðin 36 ár. Norðurál á Grundartanga. |
Guðrún Pétursdóttir lífeðlisfræðingur er sjálfsagt ekki ein um að hafa það á tilfinningunni, eins og hún lýsti svo eftirminnilega í Silfri Egils um síðustu helgi, að fljótlega verði búið að fylla síðustu firðina og dalina á Íslandi af álverum. Eftir umræðu síðustu missera um álver og virkjanir þykja orð eins og „álbrjálæði“, „stóriðjuæði“ og „stalínísk stóriðjustefna“ lítilfjörleg lýsing á þessu eina álveri sem byggt var hér á síðustu 36 árum og hinu sem nú er í byggingu. Það er líka búið að „nauðga“ og „drekkja“ landinu svo rækilega í umræðunni að margir hafa það á tilfinningunni að virkjanir séu við hvert fótmál og það sjáist ekki lengur til himins fyrir háspennulínum.
Álverið í Straumsvík tók til starfa árið 1970 og það var ekki fyrr en árið 1998 sem Norðurál við Grundartanga hóf starfsemi. Þá höfðu ríkisstjórnir allra flokka unnið að því um árabil að lokka orkufrekan iðnað til landsins en lítið orðið ágengt nema að því leyti að íslenska ríkið varð sjálft þátttakandi í Íslenska járnblendifélaginu sem hóf rekstur 1979. Þessi áhugi á jafnt við um vinstri stjórnina sem Steingrímur J. Sigfússon sat í á árunum 1988 til 1991 og stjórnina sem kennd er við Viðey á árunum 1991 til 1995. Sami maðurinn, Jón Sigurðsson Alþýðuflokki, var iðnaðar- og viðskiptaráðherra í báðum stjórnum og verður stjórnarsetu hans helst minnst fyrir „viljayfirlýsingar“ um álver sem aldrei risu. Jafnvel Kvennalistinn, eða í það minnsta Ingibjörg Sólrún Gísladóttir forsvarsmaður hans, var tilbúinn til að samþykkja álver til að komast í ríkisstjórn vorið 1991.
Á síðustu tíu árum hafa 20 þúsund manns bæst við íslenskan vinnumarkað. Í Norðuráli, eina álverinu sem gangsett hefur verið á þeim tíma, vinna nokkur hundruð manns. Ef mark væri takandi á umræðunni mætti ætla að engin ný störf hefðu orðið til nema í kerskálum.
Það breytir því hins vegar ekki að íslenska ríkið á að hætta beinum afskiptum sínum af þessum málum. Fyrsta skrefið að því marki er að einkavæða Landsvirkjun og önnur orkufyrirtæki í opinberri eigu á borð við Orkuveitu Reykjavíkur og Hitaveitu Suðurnesja.
Talsmaður neytenda stakk upp á því í gærkvöldi að íslenskir neytendur færu nú skipulega í verðlagseftirlit og í stað þess að hver einasti maður fylgdist með verðbreytingu allra vara, þá myndi hver og einn fylgjast með einni tiltekinni vöru. Reyndar tók talsmaðurinn ekki fram hvernig best væri að haga skipulagningu átaksins en sjálfsagt er eðlilegast að neytendur hittist bara einhvern tíma þegar öllum hentar og skipti þessu á milli sín.
Vefþjóðviljinn telur þetta skynsamlega tillögu hjá talsmanninum, og til þess að einhver ríði á vaðið þá tilkynnir blaðið hér með að það mun héðan í frá fylgjast með verðlagningu á Bruichladdich-viskíi.