Fimmtudagur 15. febrúar 2007

46. tbl. 11. árg.

Þ ví hefur áður verið velt upp að ýmislegt kunni að vera málum blandið með einlægnina í umhverfisáhuga hins sósíalíska flokks, Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs. Dæmin eru einfaldlega svo mörg um að flokkurinn taki aðra afstöðu en búast mætti við að flokki sem raunverulega hefði umhverfið á heilanum og léti náttúruna alltaf „njóta vafans“.

Í gær sagði Morgunblaðið svo frá rannsóknum Jóns Benjamínssonar á niturdíoxíðsmengun við meira en fjörutíu leikskóla í Reykjavík. Niðurstöður Jóns, sem blaðið kallar umhverfisfræðing, voru að sögn nokkuð „sláandi“ og mengun verið yfir heilsuverndarmörkum við fleiri en tuttugu leikskóla. Mælingarnar voru gerðar árin 1997 til 1999 og segir Jón við Morgunblaðið að hann hafi átt von á því að þeim yrði haldið áfram og málinu fylgt eftir. En ekkert gerðist og þegar Morgunblaðið talar við þá fjóra formenn heilbrigðisnefndar Reykjavíkur sem R-listinn hafði á árunum 1998 til 2005, þau Helga Pétursson, Hrannar B. Arnarsson, Kolbein Proppé og Katrínu Jakobsdóttur, kemur í ljós að ekkert þeirra hafði gert nokkurn skapaðan hlut í málinu og mundu raunar ekkert eftir því. Við eftirgrennslan blaðsins upplýsti eitt þeirra þó að „málsins væri getið í fundargerð. Engar tillögur hefðu verið gerðar.“

Ekki ætlar Vefþjóðviljinn að fullyrða hvernig hann hefði brugðist við í sporum þessara heilbrigðisnefndarformanna. En blaðið hefur heldur aldrei komið til dyranna í grænum felubúningi og þóst taka allar hrakspár í umhverfismálum alvarlega. Áður hefur verið vitnað til nýrrar ævisögu Margrétar Frímannsdóttur formanns Alþýðubandalagsins, og þó hún sé vissulega að fjalla þar um menn sem í dag eru pólitískir keppinautar flokks hennar, þá hljóta frásagnir hennar af áhugaleysi þeirra um umhverfismál og nær fullkomið áhugaleysi á kvenréttindabaráttu að verða nokkurt umhugsunarefni því fólki sem í góðri trú hyggst jafnvel kjósa sömu menn á þing vegna áhuga þeirra á hvoru tveggja.

Og fyrst hér hefur verið minnst á Morgunblaðið og harða talsmenn umhverfisnefndar, þá má til gamans vitna til lítils bréfs sem birtist í Velvakanda í vikunni. Þar skrifar Þráinn Skarphéðinsson, svæðisleiðsögumaður á Austurlandi, bréf sem hann nefnir Kjaftaskurinn og örævaþögnin:

Það er grátbroslegt að heyra í Ómari Ragnarssyni þessa dagana, nú ætla hann og Andri Snær að friða náttúru Íslands og úthýsa hvers konar atvinnustarfsemi í landinu. Hér á bara að vera óspillt náttúra, engir vegir eða mannvirki og fólkið í landinu á að lifa á náttúrufegurðinni og öræfaþögninni einni saman. Þessi sami Ómar stundaði ólöglegt lágflug yfir Vesturöræfum, Snæfells- og Brúaröræfum síðastliðið sumar, eins og oft áður. Það virðast engin lög ná yfir atferli þessa manns, ég varð oft vitni að þessu lágflugi Ómars yfir Hafrahvammagljúfri síðast liðið sumar, hann kom ítrekað í lágflugi aftan að fólki sem stóð á barmi gljúfursins og það var ekki honum að þakka að enginn missti fótanna. Þegar kvartað var við flugturninn í Reykjavík skelltu þeir á þegar þeir heyrðu hver flugmaðurinn var, Ómar má brjóta öll lög og allar reglur. Þessi sami Ómar er svo að blása sig út í sjónvarpsviðtali í dag (6. febrúar) að það megi ekki rjúfa öræfakyrrðina, hún er svo dýrmæt, en ekki heyrðist mannsins mál fyrir flugvélagný við Hafrahvammagljúfur í sumar og ferðafólk starði skelfingu lostið á hrægamminn sem ógnaði öryggi þeirra. Ég ber ekki mikla virðingu fyrir þeim sem boða eitt en framkvæma annað.