B jarni Harðarson frambjóðandi Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi mætti þremur umhverfisvonabíum úr 101 í Silfri Egils á Stöð 2 á sunnudaginn. Meðal þeirra var Guðrún Pétursdóttir lífeðlisfræðingur sem sagði áhorfendum Silfursins að hún vildi ekki „fylla hvern fjörð og hvern dal af einhverjum vatnsorkudrifnum álverum“. Eins og menn vita eru dalir og firðir á Íslandi teljandi á fingrum annarrar handar og þeir þegar orðnir smekkfullir af þessum þremur álverum sem hér eru og mega ekki við þeim tveimur sem hugsanlega verður bætt við á næstu áratugum. Þegar talið barst svo að bótum á svonefndum Kjalvegi urðu þremenningarnir úr 101 einnig verulega æstir þótt alvöru vegur stytti leiðina milli Suður- og Norðurlands og dragi þar með úr þeim gróðurhúsalofttegundum sem bílar gefa frá sér á för milli landsfjórðunganna en þremenningarnir hafa einmitt, að sögn, miklar áhyggjur af gróðurhúsalofttegundunum Guðrún fullyrti svo að bílhljóð bærust „tugi ef ekki hundruð kílómetra“ í kyrrðinni á hálendinu. Segjum nú bara að Guðrún heyri í bíl í tvöhundruð kílómetra fjarlægð, svo ekki sé verið að oftúlka orð hennar. Gefum okkur svo að hún fari út fyrir 101 og upp á Hveravelli. Þaðan mun lífeðlisfræðingurinn heyra glöggt í jeppa Steingríms J. Sigfússonar þegar hann kemur brunandi út úr Héðinsfjarðargöngunum sínum og rýfur kyrrðina í eyðifirðinum þegar hann geysist eftir hraðbrautinni sem sker fjörðinn þveran.
En auðvitað er möguleiki að Vefþjóðviljinn hafi tekið rangt eftir Guðrúnu. Blaðið var nefnilega statt í Reykjavík þegar viðtalið við hana var sent út, og á sama tíma var rauðum bronco-jeppa ekið með látum eftir Helgamagrastræti á Akureyri svo varla heyrðist mannsins mál langleiðina suður.
B óksala Andríkis hefur nú fengið aftur í sölu hið merka rit Arnljóts Ólafssonar, Auðfræði. Arnljótur var prestur, hagfræðingur, rithöfundur, alþingismaður, forsprakki pereatsins og andstæðingur vistarbandsins svo nokkuð sé nefnt. Auðfræði kom fyrst út árið 1880 og telst fyrsta íslenska hagfræðiritið. Arnljótur studdist einkum við rit franska hagfræðingsins Frédéric Bastiat sem gert hafði kenningar Adam Smith ljóslifandi með skemmtilegum stíl sínum en í bóksölunni fæst einmitt einnig eitt rita Bastiat, Lögin. Auðfræði var gefin út að nýju árið 1988 og kynntust þá margir þessu riti. Gylfi Þ. Gíslason prófessor og ráðherra sagði í formála þeirrar útgáfu að það sé „merkileg staðreynd að árið 1880 skuli jafn fámenn útkjálkaþjóð og Íslendingar eignast jafnágætt kynningarrit á jafnungum vísindum og fræðileg hagfræði hlaut þá að teljast“.