Þriðjudagur 13. febrúar 2007

44. tbl. 11. árg.
Væmnin yfir Mogganum er sífellt að aukast og núna þegar hann er farinn að blanda saman forsíðufréttum og skoðunum ritstjóranna er hætt við að hann fari að liggja lengur ólesinn.
Meirihluti þeirra sem ég umgengst er Moggavinir. Ekki eru þeir allir Sjálfstæðismenn, en menn hafa borið virðingu fyrir Mogganum. Hann er búinn að byggja upp virðingu í 90 ár. En það er svo skrítið með virðinguna að blöð eru lengi að öðlast hana en fljót að glata henni.
– Benedikt Jóhannesson framkvæmdastjóri Talnakönnunar í pistli á heimur.is 4. febrúar 2007.
 
Ég hef nú verið dyggur áskrifandi Morgunblaðsins ansi lengi. Mér þykja vandamálafréttirnar, sem í gamla daga voru kallaðar skandínavískar vandamálafréttir, standa upp úr nánast annarri hverri síðu í Morgunblaðinu, sérstaklega um helgar. Maður hefur ekki undan að fletta heilu hlemmunum um vandamál í samfélaginu. Það er einhver stemmning að myndast á ritstjórn Moggans sem er svolítið óvenjuleg miðað við sögu Morgunblaðsins.
– Karl Th. Birgisson blaðamaður og fyrrverandi framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar í Kastljósi Ríkissjónvarpsins 2. febrúar 2007.

S ú skoðun að væmni og vandamálamas, öðru nafni femínismi, sé að eyðileggja Morgunblaðið kemur er ekki úr einni átt. Hér að ofan er vitnað í tvo menn sem fylgjast vel með fjölmiðlum enda báðir með mikla reynslu af útgáfustarfi. Jafnvel fyrrverandi framkvæmdastjóra Samfylkingarinnar er nóg boðið og ætti hann þó að hafa myndað mótefni gegn vandamálasýkinni fyrir löngu, verandi í flokki með Jóhönnu, Ágústi Ólafi og Ástu Ragnheiði.

Sífellt fleiri dyggir áskrifendur og lesendur Morgunblaðsins átta sig á því að á nokkrum árum hefur blaðið breyst úr blaði með sæmilega sjálfvirðingu í blað sem leggst óhikað í tilfinningaklámið en það er eina leyfilega klámið í veröld femínismans. Ásakandi myndbirtingar á forsíðu eru síðasta merkið um að blaðið hefur gefist upp á að vera alvöru dagblað.

Í helgarblaði Blaðsins um síðastliðna er farið inn á nýjar brautir með vali á viðmælendum. Blaðið skartaði viðtali við Bryndísi Schram fyrrverandi sendiherrafrú. Hvorki Bryndís né Jón Baldvin Hannibalsson eiginmaður hennar hafa áður viljað tjá sig í fjölmiðlum að nokkru gagni og allra síst um eigin hagi. Loksins, loksins. Blaðið vitnar auðvitað á forsíðu í Bryndísi með orðunum „Hrífst af því sem er fagurt“. Hefði nokkur annar en Bryndís komist upp með að segja í blaðaviðtali: „Hrífst af sjálfri mér“?

SS tjórnmálaskýrendur hafa bent á að meginástæða fylgistaps Samfylkingarinnar til vinstri grænna sé að konur hafi yfirgefið fylkinguna eftir að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir tók við forystu í flokknum. Það er því ekki nema von að Samfylkingarmenn reyni að höfða til kvenna um þessar mundir og reyni að svara því áróðursbragði að vinstrigrænir séu farnir að kalla sig vinstrigræn. Rætt var við Ágúst Ólaf Ágústsson, sem titlar sig varaformann Samfylkingarinnar, í hádegisfréttum Stöðvar 2 á mánudaginn í síðustu viku um þá niðurstöðu skoðanakönnunar Blaðsins að Samfylkingin nyti minna fylgis en vinstrigrænir, afsakið vinstrigræn. Um það mál allt saman sagðist Ágúst vera „bjartsýn“ á að Samfylkingunni tækist að „hosa“ fylgið upp. Fyrst hélt Vefþjóðviljinn að þetta væri misheyrn sín eða mismæli Ágúst en svo endurtók hann greinilega að hann væri „bjartsýn“ á að þetta lukkaðist allt saman.