Fimmtudagur 8. febrúar 2007

39. tbl. 11. árg.

Þ að er áberandi að ef menn eiga fá rök við því sem lagt er fram, þá reyna þeir að beina talinu frá aðalatriðum og út í hafsauga. „Undirbúningurinn“, „aðdragandinn“, „málsmeðferðin“ verða þá aðalmálið en ekki staðreyndir málsins. Þetta má sjá og heyra sýknt og heilagt.

Dæmi mátti heyra í þingumræðum á mánudag. Sigurður Kári Kristjánsson alþingismaður beindi þar spurningu til Geirs H. Haarde forsætisráðherra um nýja skýrslu um tekjudreifingu hér á landi og er óhætt að segja að niðurstaða hennar sé ekki fallin til þess að auka trú á málflutningi stjórnarandstöðunnar eða nokkurra fræðimanna úr sömu átt. Svör stjórnarandstöðunnar voru þau helst að þeir félagar Sigurður Kári og Geir hefðu stillt saman strengi sína og æft málflutninginn fyrir umræðuna. Með öðrum orðum, algert aukaatriði. Þó auðvitað sé ekki sérlega líklegt að þeir Geir og Sigurður sitji í stjórnarráðinu fram á nótt við æfingar, þá myndi það engu breyta um niðurstöður skýrslunnar, eins og þá að tekjuskipting sé nær hvergi í veröldinni jafnari en hér.

Staðreyndin er sú, að undanfarinn áratugur hefur einkennst af bættum hag Íslendinga. Auðvitað hafa ekki allir hópar fengið sömu kjarabætur – en slíkt mun í raun aldrei takast nema með því móti að allir fái engar bætur – en allir hópar miklar. Stjórnvöld hafa lækkað skatta, aflétt hömlum á atvinnulífinu, selt ríkisfyrirtæki og aukið frelsi á ótal sviðum. Þetta hefur atvinnulífið nýtt sér þannig að hagur bæði borgaranna og hins opinbera hefur stórbatnað. Þetta er mikilvægt umræðuefni – enda snerist málflutningur stjórnarandstöðunnar á mánudaginn um allt annað. Svör Geirs Haarde við fyrirspurn Sigurðar Kára skiptu máli, en það skiptir engu hvort hann vissi um fyrirspurnina áður eða ekki.

F rjálslyndi flokkurinn myndi vart mælast í skoðanakönnunum um þessar mundir ef góðgjarnir vinstrimenn hefðu ekki rétt flokknum ígildi 100 milljón króna auglýsingaherferðar í haust með því að hópa stóryrði á borð við „útlendingahatur“ og „kynþáttahyggju“ að honum. Það var einmitt það sem Jón Magnússon og Magnús Þór Hafsteinsson vildu; að mál innflytjenda yrðu rædd á forsendum Frjálslynda flokksins. Nú þegar áhrif þessarar ókeypis athygli eru að fjara út þurfti Sæunn Stefánsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, endilega að gína við sama agninu frá Frjálslynda flokknum og láta gífuryrðin um flokkinn flakka í útvarpspistli með þeirri glæsilegu niðurstöðu að Frjálslyndi flokkurinn varð aðalmálið á dagskrá Alþingis og í fréttum í gær.