I ngibjörg Sólrún Gísladóttir núverandi formaður Samfylkingarinnar var málshefjandi í utandagskrárumræðu um efnahagsmál á Alþingi í gær. Umræðan hófst á því að Ingibjörg Sólrún steig í pontu og hóf samviskusamlega að lesa stílinn sem hún hafði samið. Efnið var gamalkunnugt, hér er allt á leið til þess í neðra í efnahagsmálum. Íslendingar eru afar illa staddir og mun verr en þegar ríkisstjórnin tók við fyrir 12 árum, ef marka má lýsingu núverandi formanns Samfylkingarinnar. Hér eru allir á vonarvöl og mesta furða að hún skyldi ekki leggja til að Íslendingar yrðu fluttir í heilu lagi á jósku heiðarnar til að bjarga því sem bjargað yrði af þessari örvasa þjóð.
Annar stjórnmálamaður sem ekki er síður myndugur þegar hann hefur lestur stíla sinna í ræðustól tók einnig til máls. Ágúst Ólafur Ágústsson varaformaður Samfylkingarinnar las drjúgan stíl, eða öllu heldur upptalningu. Ágúst er einn af þessum skemmtilegu upptalningarstjórnmálamönnum, sem telur að eina leiðin til að ná til hlustenda sé að telja upp einhver reiðinnar býsn af atriðum sem andstæðingarnir hafi klúðrað. Í fyrsta lagi, í öðru lagi, í þriðja lagi, í fjórða lagi, og svo framvegis. Að þessu sinni taldi hann upp tíu atriði og sló þannig út helsta aðdáanda forystu Samfylkingarinnar, sem tókst aldrei að telja nema upp að þremur.
Já, það vantaði ekki að margt er að í efnahagsmálum landsins ef marka mátti ræður núverandi formanns og varaformanns Samfylkingarinnar, en eins og Birgir Ármannsson benti á í ræðu sinni þá komu gagnrýnendurnir ekki fram með neinar lausnir á þessum brýna aðsteðjandi vanda. Einu lausnirnar sem þeir hafa komið með við of miklum ríkisútgjöldum hafa til að mynda verið tillögur um aukin ríkisútgjöld við afgreiðslu fjárlaga. Þá sagði Birgir að svo virtist sem gagnrýni Ingibjargar beindist einkum að þrennu, Kárahnjúkavirkjun, breytingum á fyrirkomulagi húsnæðislána og lækkun skatta. Hann spurði hvort ætti að túlka þetta á þann veg að Samfylkingin væri á móti Kárahnjúkavirkjun, breytingum á húsnæðislánamarkaði og lækkun skatta. Fátt varð um svör.
Athygli vakti að Ingibjörg Sólrún lagði ekki áherslu á evruna í ræðu sinni og er ef til vill búin að átta sig á að evran nýtur ekki vinsælda meðal almennings. Varaformaður hennar hefur hins vegar ekki áttað sig á þessu og evran var eitt af því sem hann taldi upp til marks um afleita framgöngu ríkisstjórnarinnar. Geir H. Haarde forsætisráðherra benti hins vegar á að þeir sem byggju við evruna væri ekki hrifnir af þeim gjaldmiðli og er það í samræmi við niðurstöður fjölmargra skoðanakannana.
Frá einni þessara kannana var sagt í Financial Times um helgina og þar kom fram að meira en 2/3 hlutar Frakka, Ítala og Spánverja, og meira en helmingur Þjóðverja, telja að evran hafi haft neikvæð áhrif á efnahagslífið. Einungis 5% Frakka sögðust telja að evran hefði haft jákvæð áhrif á franskt efnahagslíf. Meirihluti aðspurðra vildi frekar hafa fyrrum gjaldmiðla landa sinna en evruna.