Laugardagur 20. janúar 2007

20. tbl. 11. árg.

Þ að hefur stundum verið nefnt á þessum stað að fjölmiðlamenn eru ekki öðruvísi en aðrir menn. Þeir hafa skoðanir á því sem gerist í kringum þá og geta ekki verið fullkomlega hlutlausir gagnvart atburðum líðandi stundar. Þetta fer illa í suma fjölmiðlamenn sem telja að sér vegið með slíku tali, en það verður þá svo að vera. Vefþjóðviljinn heldur sig við það að betra væri að fjölmiðlamenn viðurkenndu grímulaust hvaða skoðanir þeir hafa á tilteknum málum í stað þess að láta sem þeir séu óendanlega víðsýnir og hafi jafna samúð með öllum hliðum mála. Það þarf ekki að taka dæmi af Ómari Ragnarssyni til að sjá hvaða hættur fylgja því ef fjölmiðlamenn koma ekki til dyranna eins og þeir eru klæddir.

Af þessum ástæðum er út af fyrir sig ástæða til að fagna því þegar blaðamenn skrifa leiðara og hægt er að sjá hvaða skoðanir þeir hafa. Hins vegar verður um leið að telja nokkuð langt gengið og vekja upp spurningar þegar þrír leiðarar um sama mál birtast í sama dagblaðinu í sömu vikunni. Þegar svo er komið hljóta lesendur að velta því fyrir sér hvaða líkur eru á því að fréttamat litist ekki um of af harðri afstöðu þeirra sem móta fréttastefnuna.

Í þessari viku hafa birst þrír leiðarar í Fréttablaðinu um málefni Ríkisútvarpsins og lagafrumvarp sem hefur verið til umræðu á Alþingi. Eigendur útgáfufélags Fréttablaðsins telja sig hafa mikla hagsmuni í þessu máli og þess vegna er sérstaklega athyglisvert hve harða afstöðu starfsmennirnir taka. Þó er ekki líklegt að afstaða starfsmannanna ráðist eingöngu af hagsmunum eigendanna, hún skýrist vafalítið einnig af því að fjölmiðlamenn eru almennt mun áhugasamari en annað fólk um allt sem við kemur fjölmiðlum. Þannig má telja ólíklegt ef verið væri að ræða hlutafjárvæðingu Íbúðalánasjóðs, svo dæmi sé tekið, að blaðamennirnir beittu sér af slíkri hörku.

Hvernig væri nú að blaðamenn reyndu að setja sjálfa sig og fyrirtæki sín í eitthvert eðlilegt samhengi í stað þess að láta ævinlega eins og ekkert í veröldinni sé jafn mikilvægt og fjölmiðlar? Það er ekki mjög trúverðugt þegar blaðamenn verða svona helteknir af eigin málefnum eða hagsmunum sem snerta þá sérstaklega. Ef einhver hópur manna þarf að geta hafið sig upp fyrir dægurþrasið til að leggja sæmilega skynsamlegt mat á málefni líðandi stundar þá eru það blaðamenn. En hver trúir því að þeir sem virðast um fátt annað hugsa en eigin hagsmuni geti metið fréttir út frá almennu fréttagildi þeirra en ekki einhverjum þrengri sjónarmiðum?