Þetta er eitt af því sem afgreitt var, nánast í skjóli nætur í þinginu. Þegar fjármál stjórnmálaflokkanna koma á borð Alþingis er eins og það sé minnimáttarkennd ríkjandi. Það er engu líkara en að við skömmumst okkar fyrir framlögin sem flokkarnir fá, laun þingmanna og þá starfsemi sem við rekum. |
– Margrét Frímannsdóttir þingmaður Samfylkingarinnar, Stelpan frá Stokkseyri. |
Kannast einhver við þessa lýsingu á afgreiðslu frumvarps er varðar fjármál stjórnmálaflokkana? Þótt lýsingin komi heim og saman við flýtiafgreiðslu Alþingis á lögum um fjármál stjórnmálaflokkanna í desember síðastliðnum er Margrét Frímannsdóttir að lýsa lagabreytingum sem hún segir hafa orðið í tíð síðustu vinstri stjórnar á árunum 1988 til 1991. Um þessar breytingar segir hún:
Á ríkisstjórnartímanum var fleira samþykkt í þinginu sem ég var ekki sátt við. Sem dæmi má nefna að framlög fyrirtækja til stjórnmálaflokka yrðu frádráttarbær frá skatti. |
Vinstriflokkarnir sem samþykktu þessa lagabreytingu eru auðvitað búnir að skipta um nafn og númer síðan þetta var. Um borð í nýju flokkunum eru enn þingmenn eins og Margrét sjálf og heimilisvinur hennar, Steingrímur J. Sigfússon, sem var landbúnaðar- og samgönguráðherra í vinstri stjórninni þótt hann komi nú fram sem pólitískur hvítvoðungur. Jóhanna Sigurðardóttir var ráðherra í ríkisstjórninni. Þau hafa öll farið langa leið frá því að samþykkja að veita fyrirtækjum skattafrádrátt fyrir stuðning við stjórnmálaflokka til þess að banna slíkan stuðning að mestu leyti eins og gert var í desember síðastliðnum.
Sjómannafélag Íslands hefur samþykkt í almennri atkvæðagreiðslu að segja sig úr Sjómannasambandi Íslands til þess að komast úr Alþýðusambandi Íslands. Úrsögnin var samþykkt með 98,44% greiddra atkvæða. Kjörsókn var um 10%.
Vafalítið eiga ýmsir fjölmiðlar og forstjórar og framkvæmdastjórar Alþýðusambands Íslands eftir að gera mikið úr því kjörsókn var lítil í þessari atkvæðagreiðslu. Og þá vaknar önnur áhugaverð spurning. Hver var kjörsóknin þegar tugir þúsunda félagsmanna í öðrum aðildarfélögum gengu í ASÍ? Og svo í framhaldinu, svona fyrir þá sem meta vilja einstaklingsins einhvers: Hvenær ákvað félagsmaður fyrir sig að ganga í þennan félagsskap?