Fimmtudagur 4. janúar 2007

4. tbl. 11. árg.

Það urðu alvarleg tíðindi um áramótin. Raunar alveg „skelfileg“ tíðindi, eins og viðmælandi fréttastofu Ríkisútvarpsins orðaði það. Já, og ef ekki hefði verið fyrir árvekni fréttastofu Ríkisútvarpsins þá hefði þetta skelfilega mál ekki fengið þá umfjöllun sem það átti skilið og jafnvel farið alveg fram hjá þeim sem lengst eru komnir út á þekju.

Í frétt Ríkisútvarpsins af málinu var rætt við einn mann, Kristján Hreinsson skáld, og var sérfræðiþekking hans á málinu svo augljós að ekki þurfti að útskýra hana sérstaklega. Um þetta mál sagði hann, réttilega, að það væri „náttúrlega skelfilegt“, og er það síst of sterkt að orði kveðið. Þá var ekki síður mikilvægt að fá skarpa útlistun hans á bakgrunni málsins, sem var í fæstum orðum sá að :„Þetta er eiginlega bara lýsandi dæmi fyrir það hvernig helmingaskiptaveldið hagar sér, og það kemur hérna valdalaus flokkur og kemst í stjórn sem heitir Framsóknarflokkur og er sem betur fer á alveg undanhaldi í íslenskri pólitík en og þegar að hann fer að tjá sig með íhaldinu þá er þetta náttúrlega staðan að menn lofa að lækka skatta en hækka álögur á einstaklinga.“

Og hvert var hið alvarlega mál? Jú það var vitanlega það að um áramót breyttist gjaldskrá sundstaða svo að verð staks miða hækkaði um 70 krónur, fór úr 280 krónum í 350 krónur. Það er náttúrlega skelfilegt en auðvitað það sem menn geta búist við þar sem menn sitja undir hælnum á helmingaskiptaveldinu og Framsóknarflokkurinn sem er nýsestur í stjórn, valdalaus á hröðu undanhaldi.

Það var þakkarvert af Ríkisútvarpinu að gera um þetta mál langa frétt og tala þar við Kristján Hreinsson einan, enda vandséð hvern annan á að tala við um verðbreytingu sundlauga. Raunar var þetta ekki í fyrsta skipti sem ástæða er til að fjölmiðlar tali við Kristján. Fyrir tveimur árum hefði það til dæmis verið tilvalið. Þá var svo við að formaður borgarmálaráðs vinstrigrænna, Kristján Hreinsson, skrifaði opið bréf í Morgunblaðið og sagði sig úr flokknum vegna óánægju með vinnubrögð innan hans, en Kristján taldi að bannað hefði verið að ræða eða greiða atkvæði um tillögu sem hann hefði lagt fram á landsfundi flokksins. Það er augljóslega nokkuð athyglisvert að maður sem gegnir annarri eins trúnaðarstöðu og Kristján gegndi þá, segi sig úr flokki með þeim stóru orðum og Kristján lét falla. En svo merkilega vildi til að það þótti hreint ekki fréttnæmt að formaður borgarmálaráðs vinstrigrænna segði sig úr flokknum, með ásökunum um ólýðræðisleg vinnubrögð.

En þegar sundmiðinn hækkar um sjötíu krónur þá líta fréttamenn Ríkisútvarpsins hver á annan og stama: Hvað ætli Kristján Hreinsson segi við þessu?

Og til að setja hlutina í samhengi. Í opnu bréfi formanns borgarmálaráðs VG sagði meðal annars um þann meirihluta sem VG átti þá fulla aðild að: „Við stjórn borgarinnar eru mönnum svo mislagðar hendur að ég gæti lengi haldið áfram að benda á atriði sem eru fullkomlega á skjön við það velsæmi sem mér var sagt að Vg ætlaði að temja sér“. Þótti nokkurri fréttastofu rétt að segja frá því að formaður borgarmálaráðs vinstrigrænna teldi borgarstjórnarmeirihlutann „fullkomlega á skjön“ við velsæmi?

En þegar sundmiðinn hækkar um sjötíu krónur…