Þ áttastjórnendur á Ríkisútvarpinu eru sem kunnugt er ekki mjög áhugasamir um að ræða stóriðjumál. Þeir hafa engar skoðanir á þessum málum og fjalla jafnan um þau af fyllsta hlutleysi. Að minnsta kosti þangað til þeir hefja undirbúning þingframboðs til baráttu gegn stóriðjunni. Í Spegli Ríkisútvarpsins var í gær rætt við formenn eða varaformenn allra þeirra stjórnmálaflokka sem eiga sæti á Alþingi og óneitanlega var nokkuð forvitnilegt að heyra hvernig þetta fólk talaði.
Vefþjóðviljinn er þeirrar skoðunar að ríkisvaldið eigi ekki að hafa neina stefnu í atvinnumálum umfram þá almennu stefnu að búa atvinnulífinu gott starfsumhverfi með sem lægstum sköttum og minnstu regluverki. Að öðru leyti væri farsælast að stjórnvöld fjölluðu ekkert um atvinnumál og létu einstaklingum og félögum þeirra eftir að finna út úr því hvaða fyrirtæki eða hvaða atvinnugrein á helst rétt á sér.
Núverandi stjórnvöld hafa að ýmsu leyti fikrað sig í þessa átt og má í því sambandi taka dæmi af minnkandi afskiptum af sjávarútveginum, einkavæðingu ríkisfyrirtækja – og nú síðast yfirlýsingu Jóns Sigurðssonar formanns Framsóknarflokksins um að ríkisvaldið hefði enga stóriðjustefnu. Í Speglinum í gær kom að vísu fram að hann væri þeirrar skoðunar að sveitarfélögin ættu að vera meðal þeirra sem kæmu að ákvörðun um hvort hér rísi fleiri stóriðjuver en orðið er. En þó að það sé ekki fullkomin leið, þá er hún þó mun skárri en sú leið að láta ríkið taka ákvörðun fyrir alla.
Ein ástæða þess að betra er að fleiri taki ákvarðanir af þessu tagi, jafnvel þó að þeir séu að hluta til sveitarfélög, er að hætta á stórkostlegum mistökum minnkar. Það er minni hætta á að hér taki við völdum ríkisstjórn sem berji í gegn að hver sem arðsemin verði skuli hér reist stóriðjuver í hverjum firði. Eða ríkisstjórn sem taki þveröfuga afstöðu, að hér megi ekki undir nokkrum kringumstæðum rísa fleiri stóriðjuver.
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, tók annan pól í hæðina en formaður Framsóknarflokksins. Ingibjörg, sem er einn þeirra stjórnmálamanna sem greiddi atkvæði sem tryggði byggingu álversins á Reyðarfirði, telur nú að hér megi alls ekki reisa fleiri álver. Álverið á Reyðarfirði, sem hún hefur reyndar ýmist verið með eða á móti, skuli vera það síðasta hér á landi. Hún hefur þess vegna, það er að segja sem stendur, nokkuð skýra stóriðjustefnu.
En það er ekki nóg með að hún sé komin með nýja stóriðjustefnu, hún telur almennt að kominn sé tími til að „við mótum nýja atvinnustefnu“ – hver sem þessi „við“ annars er. Vonandi er það ekki þingflokkurinn sem formaðurinn hefur lýst ótraustvekjandi. Ingibjörg Sólrún veit nefnilega hvaða atvinnugreinar eiga að dafna og hverjar eigi að drepa í dróma. Nú er það „þekkingarsamfélagið“ sem á að byggja upp og þá væntanlega í stað vanþekkingarinnar sem keyrir ál- og raforkuframleiðsluna hér á landi. Ingibjörg vill leyfa hátækni og banna stóriðju, sem er líklega í besta falli lágtækni að mati formannsins.
Trúir því einhver að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, nú eða Steingrímur J. Sigfússon og Guðjón Arnar Kristjánsson, sem tóku í svipaðan streng, viti best hvaða atvinnufyrirtæki eigi að hefja hér starfsemi og hver eigi að banna? Dettur einhverjum í hug að það geti verið farsælt að þetta fólk – nú eða annað fólk ef út í það er farið – taki ákvörðun fyrir alla landsmenn um það hvaða atvinnufyrirtæki megi dafna hér og hver skuli deyja?