L esendur Lesbókar Morgunblaðsins fengu heldur betur staðfestingu á því í síðasta hefti ritsins að öll bönd milli blaðsins og Sjálfstæðisflokksins hafa brostið. Raunar mætti ætla að blaðið hefði bundist öðrum böndum og einungis tímaspursmál hvenær nafni Lesbókarinnar verði breytt í Rauðir pennar. Þeir bræður Jón Baldvin og Ólafur Hannibalssynir fá reyndar samanlagt 5 þéttskrifaðar síður alveg fyrir sig þannig að Sögukaflar úr Selárdal kæmi svo sem einnig til greina sem nafn á ritlinginn, ef svo heldur fram sem horfir.
Undarlegasta greinin er þó eftir prófessor Stefán Ólafsson þar sem hann af einhverjum ástæðum finnur hjá sér þörf til að gera upp sakirnar við Milton Friedman heitinn, sem lést nýverið í San Francisco. Grein þessi er í alla staði hin furðulegasta, en lýsir um leið hugarástandi margra vinstrimanna á Íslandi og kannski víðar. Því miður verður að notast við orðið hugarástand frekar en skoðanir, því greinin öll ber merki einhvers konar gremju. Og hvað skyldi nú valda þessari gremju?
„Í annan stað virðist Stefán kominn í mótsögn við sjálfan sig því hann virðist gleyma þeirri staðreynd að þrátt fyrir allt búum við í lýðræðisþjóðfélagi, þótt gallað sé. Fólkið, þjóðin, almenningur hefur einmitt fengið að segja sitt álit í kosningum á þessu tímabili.“ |
Jú, ekki verður annað séð af grein Stefáns Ólafssonar en að Milton Friedman hafi í raun stolið glæpnum frá vinstri intellígensunni á Vesturlöndum. Hippakynslóðina dreymdi um frið og frelsi auk þess sem hún hafnaði lífsgæðakapphlaupinu. Á móti stóðu kapítalistarnir, sköllóttir af afturhaldi, og vildu allt til vinna að geta haldið áfram gróðabralli sínu, stríðsrekstri og því sem Stefán kallar „yfirgangi fjármálaaflanna“. Rétt í þann mund sem spámennirnir John Lennon og Bob Dylan voru að frelsa heiminn skaust þessi „miðaldra karlmaður í jakkafötum hagfræðiprófessors“ fram á sviðið og stal senunni. Eða eins og Stefán kýs að orða það þá tókst honum að „ræna frelsishugtakinu frá ofangreindum leiðtogum tíðarandans“.
Hvernig hægt er að ræna hugtökum og skilgreina hverjir eru leiðtogar tíðarandans er Vefþjóðviljanum hulin ráðgáta. Hins vegar má ráða af grein Stefáns að þetta hafi verið hið mesta óhæfuverk. Milton Friedman hafi verið jakkaklæddur miðaldra karlmaður, það gerist varla verra, sem í raun hafi gengið erinda verstu manna heimsins, s.s. vopnasala og fjármálamógúla. Við þetta hnýtir Stefán einhvers konar greiningu á því hvar Friedman hafi haft rangt fyrir sér. Hann hafnar algerlega þeirri hugmynd Miltons að frjáls markaðsbúskapur og frelsi einstaklinga tryggi best velferð þegnanna. Mikill munur sé á því að versla úti í búð og að versla á stjórnmálamarkaði. Á stjórnmálamarkaði þar sem lýðræði ríki gildi atkvæði þegnanna jafnt en á efnahagslegum mörkuðum sé það ríkidæmi hvers og eins sem ákvarði mátt hans og megin. Síðan fjallar Stefán um sigur frjálshyggjunnar á Vesturlöndum þar sem hugmyndir Friedmans hafi notið mikillar hylli og hinar hrikalegu afleiðingar sem fylgt hafi í kjölfarið, þó aðallega ójöfnuður.
Reyndar telur hann að ekki þurfi að leita langt yfir skammt til að finna dæmin um hrikalegar afleiðingar þess að stefna Friedmans hafi verið tekin upp. Hér á Íslandi hafi þessari stefnu verið fylgt og meira en það því að í raun hafi Íslendingar gengið lengra í frjálsræðisátt en jafnvel varmennið Milton Friedman hefði lagt til. Ríkisstjórnin sem setið hefur frá árinu 1995 hefur reyndar mjakað þjóðfélaginu í átt til meira frjálsræðis en áður hefur þekkst. Skattar hafa verið lækkaðir á fyrirtæki og einstaklinga og ríkisfyrirtæki seld almenningi og viðskiptahöftum rutt úr vegi. Það má hins vegar spyrja ýmissa spurninga í þessu sambandi. Ein er sú hvort að þau skref sem fyrrnefnd ríkisstjórn hefur stigið í frjálsræðisátt hafi allar verið runnar undan rifjum Friedmans og lærisveina hans? Það er skemmtileg hugarleikfimi að velta fyrir sér hve margt af því sem breyst hefur í átt til frjálsræðis sé eitthvað sem menn sjá almennt eftir og vildu breyta aftur í hið gamla far. Við getum tekið nokkur dæmi s.s. bannað frjálsar útvarpsstöðvar, stöðvað frjálsa fjármagnsflutninga til og frá landinu og farið aftur að skammta gjaldeyri, ríkisvætt bankana aftur og skipað pólitíska bankastjóra, bannað bjórinn, hækkað skatta og svona mætti lengi telja.
Nú gæti einhver sagt að þetta væri útúrsnúningur á málflutningi Stefáns en raunin er sú að það er erfitt að benda á nokkra þá ákvörðun ríkisstjórnarinnar síðustu árin sem fært hefur borgurunum aukið frelsi, sem nokkur væri tilbúinn að skrifa uppá að ætti að breyta aftur til meira helsis. Þau rök Stefáns Ólafssonar að aukið efnahagslegt frelsi hafi leitt til meiri ójafnaðar eru veik sökum þess að margoft hefur verið sýnt frammá að kaupmáttur þeirra lægst launuðu og bótaþegar hefur aldrei í Íslandssögunni vaxið meira en frá árinu 1995 þótt deila megi um hvort bilið milli þeirra ríkustu og þeirra fátækustu hafi vaxið á sama tíma. Í annan stað virðist Stefán kominn í mótsögn við sjálfan sig því hann virðist gleyma þeirri staðreynd að þrátt fyrir allt búum við í lýðræðisþjóðfélagi, þótt gallað sé. Fólkið, þjóðin, almenningur hefur einmitt fengið að segja sitt álit í kosningum á þessu tímabili. Ef hörmungarnar eru slíkar sem Stefán lýsir er manni óskiljanlegt að þjóðin skuli hafa kosið þetta yfir sig, -aftur.
Það verður ekki undan því vikist að nefna eitt atriði enn sem stingur í augu í þessari minningargrein Stefáns Ólafssonar um Milton Friedman. Stefán heldur því fram í grein sinni að Milton Friedman hafi náð eyrum hinna ríku enda hugmyndir hans þess eðlis að þær bæti hag þeirra á kostnað hinna efnaminni. Í þessu samhengi er rétt að nefna að doktorsritgerð Friedmans fjallaði um einokunarstöðu Bandarísku læknasamtakanna (AMA) og þau neikvæðu áhrif sem þau hefðu á hag hins almenna bandaríska borgara. Læknasamtökin brugðust ókvæða við, enda um mjög öflug hagsmunasamtök að ræða þar sem félagsmenn eru síður en svo á nástrái. Svo rammt kvað að andstöðu þeirra við kenningar Friedmans að þegar þeir fréttu að Friedman hyggðist gefa hana út á bók var þeim ekki skemmt. Meðhöfundur Friedmans var Simon Kuznets, leiðbeinandi hans og Nóbelsverðlaunahafi í hagfræði. Samtökin komust yfir próförk að bókinni og reyndu allt til að koma í veg fyrir að hún yrði gefin út. Samtökin höfðu þó ekki erindi sem erfiði og bókin kom að lokum út óbreytt frá hendi höfunda. Það skýtur því skökku við þegar prófessor Stefán Ólafsson heldur því blákalt fram að Milton Friedman hafi einungis náð eyrum þeirra ríku og valdamiklu en látið sig lítilmagnann litlu varða.