S umum þykir sem litlu máli skipti hverjir sitji við stjórnvölinn hjá hinu opinbera. Flestir geta tínt eitthvað til, hverjum stjórnmálaflokki til hnjóðs, og sumir tínarar draga á endanum þá ályktun að einu megi gilda hver kosinn sé. Á dögunum birti Morgan Quitno Press í þrettánda sinn lista yfir tíu hættulegustu og öruggustu borgir Bandaríkjanna og var þá miðað við fjölda tiltekinna alvarlegra glæpa, morða, nauðgana, rána, líkamsárása, innbrota og bílþjófnaða. Það var auðvitað tilviljun en svo vill til af níu af borgarstjórum þessara tíu borga eru demókratar – einn reyndar nýorðinn „óháður“ – en einn repúblikani. Borgirnar tíu eiga svo samtals þrettán fulltrúadeildarþingmenn, og þeir eru allir demókratar. Ef horft er til öruggu borganna tíu, þá er staða demókrata heldur lakari, þar eiga þeir fimm borgarstjóra og þrjá fulltrúadeildarþingmenn af tíu.
Auðvitað á ekki að draga miklar ályktanir af tölfræði eins og þessari, einni og sér, en það er hins vegar svo að það skiptir máli hverjir fara með völd. Ekki af því að sumir flokkar séu fullkomnir en öðrum alls varnað, heldur vegna þess að hinir ófullkomnu stjórnmálaflokkar eru mjög misjafnlega ófullkomnir. Stjórnmálamenn eru misgefnir fyrir það að stjórna og skipuleggja líf annars fólks, hvort sem er með sköttum eða þá smávægilegustu reglum um lífshætti. Þegar horft er til opinberra fjármála á liðnum árum, þá er afgerandi munur á því hvernig ríkinu og höfuðborginni hefur verið stjórnað. Á sama tíma og ríkið greiddi niður skuldir sínar af miklu kappi þá söfnuðu borgaryfirvöld skuldum af ótrúlegri hörku. Og borgin hækkaði auk þess útsvarið á sama tíma og ríkið lækkaði tekjuskattinn. Og sama má segja um menn innan flokka. Það er einnig munur á mönnum innan flokka. Sumir bera einstaklingsfrelsið fyrir brjósti, eru einlægir talsmenn þess að hið opinbera sé ekki of frekt til tekna landsmanna og láti þá sem mest sjálfráða um eigið líf; skattalækkanir eru dæmigerð baráttumál slíkra stjórnmálamanna. Aðrir eru hrifnari af stórfelldum aðgerðum, eru alltaf að leita að stóra stökkinu. Tugmilljarða fæðingarorlof, sem engu mun þó hafa skilað í hefðbundnum hernaði gegn ímynduðum launamun kynjanna, er dæmi um baráttumál slíkra stjórnmálamanna.
Í síðasta helgarsproki fjallaði Vefþjóðviljinn um nýútkomna bók Jakobs F. Ásgeirssonar, Í húsi listamanns. Allnokkrar óskir hafa borist um að bókin verði tekin til sölu í bóksölu Andríkis og hefur verið ákveðið að verða við því, um sinn að minnsta kosti. Í húsi listamanns fæst því nú í bóksölunni og kostar þar kr. 3.200 krónur og um bókina gildir það sama og aðrar í bóksölu Andríkis, að heimsending innanlands er innifalin í verðinu.