Mánudagur 27. nóvember 2006

331. tbl. 10. árg.

H aldreipi þeirra sem mæla um þessar mundir fyrir ríkisvæðingu stjórnmálaflokkanna með boðum og bönnum um fjárframlög til stjórnmálastarfs er að þeim einstaklingum sem geti keypt stjórnmálaflokka hafi fjölgað svo gríðarlega undanfarin ár. Um þetta segir í skýrslu nefndar sem samdi frumvarp til laga um stjórnmálastarfsemi:

Niðurstaða nefndarinnar varð sú að setja öllum framlögum þröngan stakk. Ástæða þess er ekki síst sú breyting sem orðið hefur hér á landi á undanförnum árum þar sem sífellt fleiri fyrirtæki og einstaklingar hafa fjárhagslega burði til að kosta stóran hluta baráttu flokka eða einstaklinga.

Í þessu hanga þeir sérstaklega sem áður mæltu gegn boðum og bönnum um starfsemi flokkanna og ríkisstyrkjum til þeirra. En á það ber einnig að líta að í nefndinni sátu nokkrar helstu eyðsluklærnar í kosningum hér á landi um árabil. Þeirra má meðal eru framkvæmdastjórar flokka og þingmenn sem eytt hafa tugum milljóna í kosningum og prófkjörum en aldrei gefið upp hvaðan peningarnir komu. Það er eftir öðru í þessu máli að þessir menn setji öðrum reglur sem þeir gátu aldrei farið eftir sjálfir.

Mikil fjölgun auðmanna hefur þau áhrif að auðveldara en áður er að afla fjár til frjálsra félagasamtaka. Það þýðir um leið að hugsanlega áhrif hvers einstaks auðmanns hafa minnkað til muna. Flokkar og frambjóðendur geta leitað til fleiri vel stæðra fyrirtækja og einstaklinga en áður um fjárstuðnings. Þeir þurfa ekki lengur að vera upp á einn eða fáa styrktarmenn komnir. Áhættan vegna óeðlilegra áhrifa peninga hefur með öðrum orðum snarminnkað á undanförnum árum.

Að vísu geta menn haldið því fram að hinir fáu sem áttu pening hér áður hafi allir verið sómakærir heiðursmenn en því sé ekki að heilsa með alla þá sem orðið hafa ríkir á síðustu árum. Um þetta liggur ekkert fyrir og Vefþjóðviljanum er til efst að nokkur haldi þessu fram. Á tímum hafta, einokunnar, sérleyfa, ríkisbanka og ríkisreksturs var auk þess eftir meiru að slægjast fyrir þá sem vildu kaupa sér ítök í stjórnmálum.

Í lagafrumvarpi nefndarinnar er kveðið á um hámarksstuðning einstaklinga og fyrirtækja innan hvers árs. Nýliði sem ætlar í prófkjör verður því helst að komast í áskrift að styrkjum frá fyrirtækjum nokkrum árum áður en hann býður sig fram. Fram til þessa hefur fjáröflun vegna framboðs einstaklinga í prófkjörum í flestum tilvikum verið átaksverkefni sem staðið hefur í nokkrar vikur eða mánuði í kringum prófkjörið sjálft. Verði frumvarpið að lögum má gera ráð fyrir að þingmenn og sveitarstjórnarmenn verði að banka upp á hjá fyrirtækjum allt kjörtímabilið til að nýta sér sem best það svigrúm sem lögin veita til fjáröflunar. Ætli það sé tilgangur laganna að stjórnmálamenn séu ætíð með söfnunarbaukinn með sér, hvort sem þeir eru að úthluta lóðum til verktaka, hlýða á erindi á fundum fjárlaganefndar eða greiða atkvæði um hvaðeina annað sem kann að varða fjárhagslega hagsmuni fyrirtækja og einstaklinga?