J ólabækurnar eru margar komnar, blöðin farin að birta úr þeim kafla og auglýsingastofurnar bíða með skærin á lofti eftir ritdómum þar sem finna má setningar til að blása út með sama ákafa og þegar fréttamenn finna fuglaflensu í finnskri hænu. Eina bók rak á fjörur Vefþjóðviljans sem heldur er ólíkleg til að slá met í auglýsingabirtingum eða stóryrðaritdómum. Í húsi listamanns geymir samtöl sem Jakob F. Ásgeirsson rithöfundur og ritstjóri Þjóðmála átti við tugi þekktra listamanna og birti á sínum tíma flest í sunnudagsblaði Morgunblaðsins þegar hann var þar blaðamaður, fyrst á árunum 1980-1982 og svo á árinu 1998.
Þarna má finna samtöl við skáld og rithöfunda eins og Kristmann Guðmundsson, Jón úr Vör, Snorra Hjartarson, Guðberg Bergsson, Jónas Árnason, Ólaf Jóhann Sigurðsson, Agnar Þórðarson, Kristján Karlsson og Gísla J. Ástþórsson, listmálara eins og Jóhann Briem, Finn Jónsson, Valtý Pétursson og Svavar Guðnason, Sigurjón Ólafsson myndhöggvara og marga fleiri. Samtölin bregða upp forvitnilegum skyndimyndum af hverjum listamanni og mörg viðhorf þeirra til listar og lífs eru umhugsunarverð. Auðvitað verður að hafa samtalstíma hvers um sig í huga og ekki má ganga út frá því sem gefnu að allar lýsingar viðmælenda Jakobs á íslenskum listaheimi eigi við í dag. En þær eru ekki síðri heimild um viðhorf þessara listamanna til eigin samtíma.
Einn þeirra sem talað er við í bókinni er Kjartan Guðjónsson myndlistarmaður, og var viðtalið við hann tekið árið 1998. Kjartan var bæði myndlistarmaður og myndlistarkennari en þó hann hafi á yngri árum verið talinn til formbyltingarmanna þá átti hann eftir verða kallaður hinn versti afturhaldsmaður þegar hann tók að reifa það sjónarmið að rétt væri að myndlistarmenn kynnu nokkuð fyrir sér í teikningu.
Já, einn daginn hafði enginn not fyrir það sem ég gat kennt og kunni. Samkvæmt hinni nýju heimspeki þarf enginn lengur að kunna neitt, heldur bara hafa hugmyndir. Það er ekki lengur kennt neitt fag. Ég held því fram að skussarnir fari í myndlist og úrvalsfólkið í leikhúsið. Mér sýnist að mesta talentið sé þar. Allur þessi fjöldi, hugsaðu þér, það eru útskrifaðir 44 myndlistarmenn á ári! Megnið af þessu er náttúrulega píp út í loftið. Og þessu fólki er talin trú um að það þurfi ekkert að læra. Þetta væri þó a.m.k. einhvers virði ef því væri kennt eitthvert handverk, kennd teikning. Samt sem áður eru ennþá til góðir ungir málarar. Þetta er auðvitað aðeins að jafna sig aftur og það er að koma fólk sem virkilega málar í alvöru og er mjög efnilegt. En það fær ekki mikla umfjöllun hjá þessu listfræðingapakki. |
Já sum viðtölin verða að skoðast í ljósi samræðutímans. Nú er kannski allt annað uppi á teningnum og þeir í listaháskólanum farnir að sinna alvöru list, eins og kannski að kasta vatni hver á annan. Og kennararnir hafa af því mestar áhyggjur hvort nemendurnir séu komnir með „listrænar forsendur“ til þess að stunda svo háfleyga starfsemi.
Annar sem talað er við í bókinni er teiknarinn, rithöfundurinn og ritstjórinn Gísli J. Ástþórsson. Skopteikningar hans hafa glatt marga á liðnum áratugum og í ritstjóratíð Gísla náði Alþýðublaðið mikilli dreifingu. Gísli var einnig afkastamikill rithöfundur en segist alltaf hafa litið á sig sem blaðamann:
Frá því ég byrjaði á Mogganum 1945 hef ég kallað mig blaðamann. Þar að auki hef ég alltaf verið þeirrar skoðunar að það sé ekki beinlínis skylda þjóðarinnar að framfleyta þessum mönnum sem langar til að fremja list. Það kemur engum við þó einhverjir fæðist skrýtnir og beri þessa löngun í brjósti sér að skrifa bækur eða mála myndir. Ég vorkenni þeim ekkert. Sumir af þessum guttum krefjast forréttinda við að skrifa bækur, mála mynd eða blása í flautu. Þeir eru reiðubúnir að fremja hina miklu list bara ef þjóðfélagið sér fyrir þeim. Og það er hlálegt að þeir sem eru háværastir í þessari kröfugerð um ríkisframfærslu listamanna, þeir eru um leið háværastir í baráttu gegn forréttindum almennt. Ég gleðst ef einhver maður á Íslandi getur haft framfæri sitt af listsköpun – í landi tvö hundruð og þrjátíu þúsund sálna. En það er fráleitt að hver einasti sem fær þá flugu í höfuðið að gerast listamaður geti sent ríkinu reikning og þurfi síðan ekki að hafa áhyggjur af því meir hvernig hann fái saltið í grautinn. Hér á landi eru kannski sjötíu til áttatíu manns sem telja sig sjálfborna til að njóta framfærslu ríkisins meðan þeir skapa listaverk. Og ef við berum okkur saman við Bandaríkin þá myndi það þýða áttatíu þúsund sálir! Okkur þætti það nú æði skoplegt ef við fréttum það væru áttatíu þúsund manns á listamannalaunum í Bandaríkjunum. |
Viðtalið við Gísla var tekið árið 1982 og skoðast í því ljósi. Það eru auðvitað mun fleiri en áttatíu manns sem í dag njóta opinberra styrkja við persónulega listsköpun eða þá vegna fyrri afreka á því sviði. Fyrir utan starfslaun listamanna þá fjölgar jafnt og þétt þeim sem alþingi ákveður að bæta í heiðurslaunaflokk og launin hafa auk þess verið hækkuð verulega. En opinberir listamannastyrkir eru ekki það eina sem Gísli J. Ástþórsson nefnir í samtali sínu við Jakob. Þeir víkja talinu einnig að Menningunni.
Já, menning með stórum staf. Ég var nýverið að lesa í blaði þar sem sagði að það væri að gera Mitterand-mennina brjálaða af áhyggjum að almenningur er orðinn svo hundleiður á menningunni í sjónvarpinu franska. Og mér skildist á greininni að það mætti fara að búast við kröfugöngum af þessu tilefni. Mitterand-mennirnir hafa nefnilega ákveðið að fólk skuli fá að sjá menningu í sjónvarpi. Gáfaðir menn byltast hver um annan þveran á skjánum og flytja menninguna inná hvert heimili þar sem fólk á að sitja með tunguna lafandi út úr sér af hrifningu. En það bera gerist ekki. Fólk slekkur á tækjunum í dauðans ofboði þegar þessir voðalegu menn birtast. En það er ekki þar með sagt að fólk sé menningarsnautt þó það kæri sig ekki um að láta mata sig á menningu með stórum staf. Ég hafði svolítið gaman af þessu með Frakkann því ég hata skipulagða menningu. Menningu – sem alls konar menningarvitar þykjast geta flokkað og skilgreint úti í bæ. Niðursoðna menningu! |
Í húsi listamanns geymir ýmis sjónarmið sem gaman er að skoða. Guðbergur Bergsson dregur ekki af sér þegar hann talar um kvennabókmenntir, þröngsýni og íslenska gagnrýnendur, Jón úr Vör segist fylgja „alþýðuflokksmönnum varðandi eignarrétt á landinu. Landið [sé] eign allra landsmanna en ekki einstaklinga. Menn [eigi] að fá ábúðarréttindi um lengri og skemmri tíma, en þau réttindi eiga alls ekki að ganga í erfðir“ – og svo furða sumir sig á því að bændum lítist mátulega á Alþýðuflokkinn og hugmyndafræðilega arftaka hans – og svo mætti áfram telja. Í húsi listamanns verður sjálfsagt ekki yfirgnæfandi í fjölmiðlum næstu vikur, en þar er margt skemmtilegt að finna.