Laugardagur 25. nóvember 2006

329. tbl. 10. árg.

Þ að fór eins og við mátti búast. Steinunn Stefánsdóttir leiðarahöfundur á Fréttablaðinu fylgdi nýlegum leiðara sínum um prófkjör eftir með öðrum um beint lýðræði. Prófkjörsleiðarinn gekk allur út á að kjósendur hefðu ekkert vit á því hvað þeir væru að gera og röðuðu frambjóðendum alrangt niður á lista. Um leið fullyrði Steinunn í leiðaranum að „kjósendur 21. aldarinnar“ gerðu kröfu um allt annars konar framboðslista en kjósendur í prófkjörunum – sem reyndar fóru fram á þessari sömu öld – hefðu raðað saman. Þetta veit Steinunn, líklega vegna þess að hún veit betur en kjósendur hvað kjósendur vilja.

Í leiðara Steinunnar um beint lýðræði kemur einnig fram að hún veit betur en kjósendur, því undir lok hans segir hún þetta: „Ljóst er að vilji Íslendinga stendur til þess að fá að taka með beinum hætti þátt í vissum stjórnvaldsákvörðunum. Annars vegar er hér um að ræða þjóðaratkvæðagreiðslu um meiriháttar mál sem varða þjóðina alla og hins vegar grenndarmál eða framkvæmdir sem íbúar í tilteknu sveitarfélagi taka ákvörðun um með beinni atkvæðagreiðslu.“

Það skýtur skökku við að sjá þessu haldið fram í sama leiðara og bent er á að innan við 40% borgarbúa nenntu að mæta til að kjósa um flugvöllinn í Vatnsmýrinni. Hafði það mál þó lengi verið í sífelldri umræðu hjá stjórnmálamönnum, þáttastjórnendum og kaffihúsaspekingum. Það vantaði ekki kynninguna á málinu og það vantaði ekki heldur sterkar skoðanir margra háværra einstaklinga og hópa sem hefði mátt ætla að gætu drifið fólk á kjörstað. En það tókst bara alls ekki og þá hlýtur að vera eðlilegra að draga þá ályktun að fólk hafi ekki áhuga á að kjósa um mál með beinum hætti en að „vilji Íslendinga“ standi sérstaklega til þess.

Sumir hafa ótrúlega ríka tilhneigingu til að tala fyrir munn allra annarra og ákveða hvað öllum öðrum finnst. Steinunn er í þessum vafasama hópi. Hún veit betur. Hún veit meira að segja hver „vilji Íslendinga“ er. Vefþjóðviljinn þarf víst ekki að minna á einkunnarorð sín hér að ofan í þessu sambandi, en leggur þess í stað til að Steinunn – og aðrir álitsgjafar – tali frekar fyrir eigin hönd en annarra þegar þeir flytja mál sitt. Ekki síst þegar aðrir virðast ítrekað hafa allt aðrar skoðanir en þeim eru gerðar upp.