Föstudagur 24. nóvember 2006

328. tbl. 10. árg.

M enn hafa miklar áhyggjur af því að engin kona verði kjörin á þing úr norðvesturkjördæmi í vor. En það er auðvitað ekki helsta vandamálið að konurnar séu fáar heldur eru karlarnir of margir. Þótt kjördæmið missi einn þingmann yfir í suðvesturkjördæmi í vor verður það enn með nokkra þingmenn sem það ætti ekki að hafa ef vægi atkvæða væri jafnt. Sömu sögu er raunar að segja af norðausturkjördæmi og suðurkjördæmi.

Miðað við síðustu skoðanakönnun um fylgi flokkanna á höfðuborgarsvæðinu og að því gefnu að Kolbrún Halldórsdóttir og Jónína Bjartmarz verði í forystusætum sinna flokka verður ekki annað sagt en að kynjaskipting þingsæta Reykjavíkurkjördæmanna og suðvesturkjördæmis verði bara sæmilega jöfn. Ef til vill ekki eins og dregið hafi verið handahófskennt úr þjóðskrá en svo nokkuð gott jafnvægi. Vafalaust dugar hlutfallið ekki til að friða starfsmenn jafnréttisiðnaðarins sem munu samviskusamlega halda áfram að tala konur niður. En þetta fólk verður auðvitað aldrei ánægt – að minnsta kosti ekki opinberlega – því um leið og það gerist vaknar spurningin til hvers eru skattgreiðendur að borga stórfé fyrir allar þessar jafnréttisnefndir, -fulltrúa, – ráð og – stofur.

Í kjördæmunum sem hafa of marga þingmenn miðað við íbúafjölda virðist hins vegar nokkuð önnur staða en á höfuðborgarsvæðinu. Þar stefnir karlpeningurinn að því að fá nánast fullt hús. Svo gæti að minnsta kosti farið í norðvestur- og suðurkjördæmum.

Hvaða ályktanir ætti að draga af þessu? Líklega engar. En það er samt freistandi að leggja það til að þegar vægi atkvæða verður loks jafnað að það gerist með því að þingmönnum landsbyggðarkjördæmanna fækki án þess að þingmönnum höfuðborgarsvæðisins fjölgi.

F ulltrúar stjórnmálaflokkanna í stjórn Landsvirkjunar ákváðu í gær að ríkisfyrirtækið muni styrkja stjórnmálabaráttu Ómars Ragnarssonar um 4 milljónir króna. Eins og áhorfendum frétta Ríkissjónvarpsins undanfarin ár er kunnugt hefur Ómar ákveðnar skoðanir á nýtingu hálendisins og ætlar sér jafnvel að fara í framboð til þings með þær. Hann mun nýta peningana í kvikmynd sem hann vinnur að þessar skoðanir sínar.

Það er merkilegt að einungis nokkrum dögum eftir að stjórnmálaflokkarnir kynntu þverpólitíska sátt á kostnað skattagreiðenda um að banna framlög til stjórnmálastarfs skuli fulltrúar þeirra í stjórn Landsvirkjunar ganga svo þvert gegn anda lagafrumvarps flokkanna sem verður að öllum líkindum samþykkt innan fárra daga.

En að vísu munu gilda aðrar og léttvægari reglur um framlög ríkisins en um frjáls framlög borgaranna.