E f marka má fréttir verður gerð alvarleg tilraun til þess á Alþingi í vetur að takmarka frelsi manna til að styrkja stjórnmálaflokk, framboð og málstað. Um leið er ætlunin að breyta þeim stjórnmálaflokkum sem eiga fulltrúa á Alþingi í ríkisstofnanir með því að stórauka ríkisstuðning við þá og setja þá undir eftirlit ríkisendurskoðunar.
Við þingkosningar næsta vor munu áhugamenn um ný framboð því standa frammi fyrir því að þeir fimm flokkar sem eiga nú fulltrúa á Alþingi hafa fullar hendur opinbers fjár til að kynna sig. Flokkarnir fimm hafa svo 63 þingmenn og ráðherra, 12 aðstoðarmenn ráðherra og starfsmenn þingflokkanna á launum hjá hinu opinbera við að reka erindi flokkanna. Þegar það bætist svo við að verulegar skorður verða settar við því að afla fjár til stjórnmálaflokka með frjálsum framlögum einstaklinga og fyrirtækja má segja að búið sé að loka klúbbnum. Í prófkjörum verður einnig sett upp vörn fyrir sitjandi þingmenn með hámarki á því sem menn mega kosta til við prófkjörsbaráttu. Efnalitlum frambjóðendum verður gert erfitt fyrir að afla fjár en auðmenn þurfa ekki að hafa áhyggjur. Sitjandi þingmenn og auðkýfingar hagnast á þessum boðum og bönnum.
„Hér munu spretta upp alls kyns félög til hliðar við flokkana sem stunda áróður gegn ákveðnum flokkum og þá um leið ekki síður fyrir stefnumálum sinna flokka. Ef menn halda að þetta muni leiða til meira gegnsæis í stjórnmálum skortir þá raunsæi.“ |
Frumvarpsdrög í þessa átt munu nú vera á leiðinni úr nefnd sem fulltrúar flokkanna fimm skipa. Drögin mun eiga að kynna fyrir þingflokkum í vikunni og afgreiða með hraði á Alþingi án þess að kjósendur fái ráðrúm til að kynna sér almennilega hvað er þarna á ferðinni. Þó verður málið allt kynnt sem mikill greiði við kjósendur þótt það sé ekkert annað en samráð stjórnmálaflokka um að hygla sjálfum sér á kostnað kjósenda.
Nú liggur auðvitað ekki fyrir í smáatriðum hvernig menn hugsa sér að þessar reglur verði í framkvæmd. En víðast annars staðar þar sem menn hafa reynt að setja bönd á frjáls framlög til stjórnmálastarfs hafa menn lent í verulegum ógöngum og þar er engu minni umræða en hér um fjármál stjórnmálaflokka, hugsanleg áhrif fjárveitenda á flokka og vaxandi fjáraustur í kosningum og prófkjörum. Menn munu auðvitað ekki missa áhugann á að styrkja stjórnmálastarf við reglur sem þessar heldur þurfa að finna nýjar leiðir. Fyrirtækjum og einstaklingum verður varla bannað styðja baráttu gegn ákveðnum stjórnmálaflokkum þótt þeim verði bannað að styðja flokkana sjálfa. Hér munu spretta upp alls kyns félög til hliðar við flokkana sem stunda áróður gegn ákveðnum flokkum og þá um leið ekki síður fyrir stefnumálum sinna flokka. Ef menn halda að þetta muni leiða til meira gegnsæis í stjórnmálum skortir þá raunsæi.
Áhyggjurnar sem menn hafa af áhrifum peninga á stjórnmál eru fyrst og síðast áhyggjur af því að menn geti haft óeðlileg áhrif á stjórnmálamenn með fjárframlögum. Ætli stór hluti af þeim fjármunum sem ætlað er að hafa áhrif á stjórnmálamenn, ef einhverjir eru, fari um sjóði stjórnmálaflokkanna? Er ekki líklegra að slíkar greiðslur fari bara beint þangað sem þeim er ætlað er gera sitt gagn?
Ætli slík framlög finni sér ekki annan farveg, hvort sem lög eru fleiri eða færri um málið? Það eru líka önnur rök sem vega þyngra í þessum efnum. Ýmsir vilja ekki taka þátt í stjórnmálum öðruvísi en með því að styðja flokkinn sinn með fjárframlagi og kjósa hann í leynilegum kosningum. Ýmsir vilja ekki leggja annað til málanna en fé og x á kjördag. Það er þeirra framlag til umræðunnar. Margir vilja ekki að stjórnmálaskoðanir þeirra séu opinberar og vilja halda því fyrir sig hvaða flokk þeir kjósa, starfa fyrir og styrkja með fjárframlögum. Þeir sem vilja setja lög um að birta þurfi nafn styrktaraðila flokkanna opinberlega eru að biðja um takmarkanir á tjáningarfrelsinu.
Fyrir alþingiskosningar árið 1999 birtist auglýsing frá „Ungu fólki í Samfylkingunni“. Þar voru þröngir hagsmunir innlendra grænmetisframleiðenda varðir í nafni unga fólksins í Samfylkingunni. Þetta er ein af mörgum leiðum sem standa mun opin þegar sett hafa verið sérstök lög um fjármál flokkanna. Afl ýmissa hagmunasamtaka mun aukast til muna í umræðunni þegar almenningi verður meinað að styðja flokkinn sinn án þess að nafn styrktaraðila verði auglýst opinberlega.
Bann við styrkjum fyrirtækja til stjórnmálaflokka mun færa peningana til og auka pukrið og vitleysisganginn með þessi mál. Þeir sem vilja komast framhjá slíkum reglum munu alltaf geta gert það. Hinir munu gjalda löghlýðni sinnar og staða þeirra verður því verri sem reglurnar eru flóknari og þrengri. Séu framlög til stjórnmálaflokka bönnuð eða gerð opinber þá munu menn veita fé til annarra félag og samtaka sem berjast í raun fyrir málstað stjórnmálaflokksins eins og dæmi eru um frá Þýskalandi þar sem jafnaðarmenn hafa notað þessa aðferð með prýðilegum árangri. Þar gefa ýmis fyrirtæki peninga til sérstakra fyrirtækja sem svo ýmist kaupa auglýsingar eða styrkja Jafnaðarmannaflokkinn í eigin nafni.
En í raun verður ekki alveg öllum fyrirtækjum bannað að styðja flokka og frambjóðendur beint og milliliðalaust. Fjölmiðlafyrirtæki munu geta gert það áfram með jákvæðri umfjöllum um flokka og frambjóðendur. Morgunblaðið mun áfram hampa ákveðnum frambjóðendum í Staksteinum. Morgunblaðið mun áfram birta litmyndir af sumum stjórnmálamönnum við ólíklegustu tækifæri en öðrum ekki. Morgunblaðið mun áfram kikna í liðunum ef einhver stjórnmálamaður eða frambjóðandi nefnir hugmyndir um beint lýðræði og gælir við sjónarmið Morgunblaðsins um þau efni. Stuðningur af þessu tagi frá útbreiddum fjölmiðli er auðvitað margfalt meira virði en nokkrir hundraðþúsundkallar frá einhverju fyrirtæki úti í bæ. Þeim, sem ekki eru í náðinni hjá stjórnendum fjölmiðlanna, verður bannað að leita beint til annarra fyrirtækja um stuðning. Þetta er hryllileg tilhugsun sem skýrir þó hinn mikla áhuga ýmissa fjölmiðlamanna á reglum af þess tagi.
Einnig geta menn látið ýmis samtök, svo sem launþegafélög, öryrkjabandalög eða leigjendasamtök kaupa auglýsingar og halda mótmælafundi þegar mikið liggur við.
Og hvað með vinnuframlag áhugamanna? Ef gefa á upp styrk yfir tiltekinni fjárhæð eða banna hann þá hlýtur líka að eiga að gefa upp alla þá sem leggja mikið af mörkum í kosningabaráttu flokka og frambjóðenda. Þetta er í raun ekki síður raunhæft í umræðu um meinta og mögulega spillingu, sem þetta hlýtur jú allt að snúast um. Margir hafa í gegnum tíðina haft gott af því að tengjast inn í stjórnmálaflokka og þá á það ekkert frekar við um þá sem hafa gefið peninga en hina sem starfað hafa af kappi innan flokkanna. Þegar stjórnmálamenn úthluta takmörkuðum gæðum eða geta haft áhrif á þá úthlutun, eins og til dæmis á lóðum, störfum eða plássum á dag- eða elliheimilum, þá skiptir máli að hafa aðgang að þeim. Þá er örugglega ekkert síðra að hafa kynnst þeim í gegnum stjórnmálastarf. Vinna fyrir frambjóðanda í prófkjöri þar sem til verða mjög persónuleg tengsl hlýtur að vega þyngra en einhver ópersónuleg fjárframlög frá fyrirtæki sem skiptir um eigendur og stjórnendur með reglulegu millibili. Vinna áhugamanna að stjórnmálum getur þess vegna ekki síður en fjárstyrkir boðið heim hættunni á spillingu. Með sömu rökum og nefnd flokkanna fimm færir fyrir nauðsyn þess að takmarka fjárstuðnings má færa rök fyrir því að setja hömlur á vinnu manna fyrir flokka og framboð. Það er jafnvel ríkari ástæða til þess. Kannski flokkarnir fimm banni líka frjáls vinnuframlög en feli ríkisfyrirtækinu Íslandspósti að útvega frambjóðendum og flokkum „sjálfboðaliða“ til starfa fyrir prófkjör og kosningar. Var ekki Íslandspóstur einmitt að kaupa einkafyrirtækið Samskipti sem gæti nýst vel í slíku verkefni?
Niðurstöðuna af því sem boðað er með tillögum nefndarinnar má setja fram í nokkrum liðum:
- Nýjum framboðum verður gert vonlítið að etja kappi við flokkana sem fyrir eru.
- Stjórnmálaflokkunum verður breytt úr frjálsum félagasamtökum í ríkisstofnanir.
- Valdið til að styrkja stjórnmálastarf verður flutt frá almenningi til stjórnmálamannanna sjálfra.
- Sitjandi þingmenn fá vernd gegn nýliðum í prófkjörum.
- Auðmenn styrkja stöðu sína í prófkjörum því öðrum verður bannað að afla fjár.
- Fjölmiðlar fá einkarétt fyrirtækja á að styðja milliliðalaust ákveðna flokka og frambjóðendur.
- Alls kyns leppfélög til hliðar við stjórnmálaflokkana verða stofnuð.
- Hagsmunasamtök fá aukið vægi í umræðunni.
- Vegið er að tjáningarfrelsinu og rétti manna til stjórnmálaþátttöku.