Föstudagur 17. nóvember 2006

321. tbl. 10. árg.
Eru innflytjendur og þá sérstaklega ólöglegir innflytjendur góðir fyrir efnahagslífið? „Þeir eru hvorugt,“ svaraði Friedman. „En flutningur fólks til landsins er góður fyrir frelsið. Það ætti að vera sjálfsagt að menn geti flutt algerlega óhindrað milli landa. Velferðarkerfið kemur hins vegar í veg fyrir að það sé raunhæft. Hún er innflytjandi“ bætti hann við og benti á eiginkonu sína „Hún flutti hingað rétt fyrir fyrri heimsstyrjöldina. (Rose brosti blíðlega og sagði: Ég var aðeins tveggja ára). „Ef við hefðum ekkert ríkisrekið velferðarkerfi“ hélt hann áfram “gætum við opnað landamærin því menn þyrftu að bera ábyrgð á sjálfum sér.“ Var hann í raun að segja að ekki sé hægt að bæta innflytjendalöggjöfina án þess að breyta velferðarkerfinu? „Nei það má bæta innflytjendalöggjöfina en það verður ekki hægt að opna landið alveg fyrir innflytjendum án þess að afnema velferðarkerfið að mestu leyti.“
– Milton Friedman í viðtali við The Wall Street Journal í sumar.

B andaríski hagfræðingurinn Milton Friedman lést í gær á 95. aldursári. Hann er vafalítið einn áhrifmesti hagfræðingur síðari hluta 20. aldar. Vefþjóðviljinn fjallaði all ítarlega um helstu kenningar og lífshlaup Friedmans þegar hann varð níræður fyrir rúmum fjórum árum og ekki ástæða til að þylja það aftur hér.

Það er hins vegar ástæða til að staldra við þau sjónarmið sem Friedman setti fram í viðtalinu sem vísað er til hér að ofan í sumar sem leið. Þau eiga nokkuð erindi við Íslendinga um þessar mundir eftir að Steinunn Valdís Óskarsdóttir, Eiríkur Bergmann Einarsson og fleiri velviljaðir kratar bitu á agnið sem Frjálslyndi flokkurinn lagði fyrir þau og úr varð hundrað milljón króna auglýsingaherferð fyrir flokkinn. Í stað þess að ræða málið efnislega féllu kratarnir í þá gildru að gera Frjálslynda flokkinn að aðalatriði málsins. Kratarnir gátu bara ekki stillt sig um að nota alls kyns stóryrði um talsmenn Frjálslynda flokksins, sem var einmitt það sem þeir óskuðu sér. Annað sem kom örlítið spánskt fyrir sjónir í málflutningi kratanna er áhersla þeirra á umburðarlyndi gangvart einhver konar „fjölmenningu“ en um leið leggja þeir mikla áherslu á ríkisrekna „samlögun“ innflytjenda við þá sem fyrir eru í landinu. Hvort vilja menn? Það er skrýtið að þykjast vilja menningu innflytjenda en um leið séu sett upp alls kyns verkefni á vegum ríkisins til að steypa þá í sama mót og aðra landsmenn.

Íslendingar eru svo lánsamir að enn hefur íslenskt atvinnulíf meira aðdráttarafl fyrir útlendinga en íslenskt velferðarkerfi þótt þess séu auðvitað dæmi að innflytjendur hafi áttað sig á því sem Íslendingar hafa gert fyrir löngu að sum störf veita ekki mikið betur en velferðarkerfið. Þetta jákvæða ástand í innflytjendamálum getur þó hæglega breyst mjög hratt ef þrengist um í atvinnulífinu.

Það er engin tilviljun að því öflugri sem velferðarkerfi eru í Evrópulöndum því meiri „innflytjendavandamál“ eiga þau við að stríða.