E ins og Vefþjóðviljinn vék að í gær þá kusu aðeins tæp 70% hinna ótrúlega fáu þátttakenda í prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavík formann flokksins í fyrsta sætið. Það eina sem Ingibjörg Sólrún Gísladóttir getur huggað sig við í þessu sambandi er að fyrrverandi formaður fékk heldur lakari útkomu í síðasta prófkjöri flokksins í Reykjavík. Hún greip líka fegins hendi í það hálmstrá í Silfri Egils á Stöð 2 á sunndaginn til að skýra gengi sitt í prófkjörinu. Það má lengi hefja sig aðeins upp á kostnað Össurar.
Það er ekki aðeins útkoma formannsins sem vekur athygli. Varaformaður flokksins bað um fjórða sæti á listanum ásamt sjö öðrum frambjóðendum. Einhver mundi kannski segja að sýndi ágætlega hug manna til Ágúst Ólafs Ágústssonar sem varaformanns. Ef til vill sýnir það líka raunsætt mat varaformannsins sjálfs á veikri stöðu sinni að hann fór ekki fram á betra sæti. Samtals voru 10 frambjóðendur sem báðu um jafnhátt eða hærra sæti en varaformaðurinn. En þessi fjöldi sem bauð sig fram gegn varaformanninum kann þó ekki að segja til um neitt annað en ofmetnað og óhóflega bjartsýni áskorenda hans. Varaformaðurinn fékk þó fjórða sætið í prófkjörinu eftir tvísýna baráttu við Helga Hjörvar. Í það sæti fékk hann 1.807 atkvæði eða 38% gildra atkvæða. Enginn af 12 efstu í prófkjörinu fékk minni stuðning í það sæti sem viðkomandi endaði í. Leita þarf allt aftur til frambjóðenda á borð við þann sem bauð fram undir kjörorðunum „Nýtt blóð í baráttuna“ til að finna lakara atkvæðahlutfall í sæti. Það blóð var raunar svo nýtt og ferskt að frambjóðandinn tók fram hvar sem hann fékk tækifæri til að það væri blanda frá Ellerti frænda, Bryndísi, Jóni Baldvini og Hannibal Lecter.
Útkoma varaformanns Samfylkingarinnar er svo slök að enginn af 10 efstu frambjóðendum Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks í Reykjavík í vor mun hafa lægra atkvæðahlutfall og færri prófkjörsatkvæði á bak við sig.
Annars virðist Háskóli Íslands hafa fundið verðugan arftaka Svans Kristjánssonar þegar kemur að því að spá rangt fyrir um úrslit kosninga. Einar Mar Þórðarson stjórnmálafræðingur virðist hafa tileinkað sér þessa eiginleika Svans með miklum ágætum. Og gott betur því Einar Mar hefur einnig gott lag á að spá rangt í spilin eftir að úrslitin liggja fyrir. Þannig segir hann í viðtali við Blaðið í dag að Ágúst varaformaður hafi fengið „ágæta kosningu“ og að „flokksmenn [séu] ánægðir með hann“. Það hljóta að vera fréttir fyrir þau 62% sem kusu varaformanninn ekki í sætið sem hann bað um. Einar Mar segir einnig að Ingibjörg Sólrún formaður geti „vel við unað“ með sín tæpu 70% í fyrsta sætið. Hann segir að það séu kannski „einhver sárindi“ eftir frá því í formannskjörinu. Össur Skarphéðinsson fékk tæp 800 atkvæði í fyrsta sætið. Ef að stjórnmálafræðingurinn metur slíka gusu sem „einhver sárindi“ hvernig líta þá veruleg sárindi, hatur og heift út?