Fáar bækur koma út á Íslandi sem eru mikilvægari fyrir áhugamenn um þjóðmál en fjölmiðlabækur Ólafs Teits Guðnasonar. Í bókunum Fjölmiðlar 2004 og Fjölmiðlar 2005 hefur hann safnað hinum umtöluðu pistlum sínum, sem hann birtir vikulega í Viðskiptablaðinu . Þegar þeir eru lesnir í samhengi sést hversu íslenskir fjölmiðlamenn draga upp sérkennilega mynd af gangi mála, hversu einsleita og villandi mynd sá fær af heiminum sem tekur Íslandsmynd fjölmiðlamanna sem nýju neti.
Dæmi um þá mynd sem íslenskir fjölmiðlamenn gefa stundum af veruleiknum má sjá af nýlegri umræðu um hleranir og lögregluathuganir á kaldastríðsárunum. Eftir að Þór Whitehead prófessor hafði í tímaritinu Þjóðmálum fjallað um þær ráðstafanir sem íslensk yfirvöld höfðu reynt að gera til að tryggja öryggi landsins gagnvart yfirgangi kommúnista, reyndu fréttamenn margir hverjir að ná vopnum sínum með því að láta að því liggja að í landinu hefði starfað einhvers konar „leyniþjónusta Sjálfstæðisflokksins“. Sérstaklega lagði NFS sig fram um þetta, með langsóttum túlkunum á svörum Guðna Th. Jóhannessonar sagnfræðings við spurningum fréttamanns.
Hver hefur ekki fengið að heyra hugtakið „leyniþjónusta Sjálfstæðisflokksins“ nefnt í fréttum, greinum eða umræðuþáttum síðasta mánuðinn, fyrst með vísan í þennan sagnfræðing, síðar með vísan í almælt tíðindi? Þegar fréttamenn töldu sig getað túlkað svör Guðna í þessa veru, þá voru þau mikið fréttaefni.
Fyrir meira en viku, 28. október, skrifaði Guðni Th. Jóhannesson grein í Morgunblaðið og sagði að sér þætti umræða um hleranir og eftirlitsstarfsemi hafa „lent á villigötum síðustu vikur og mánuði“. Hann sagðist nú hafa séð gögn sem gæfu til kynna að Ólafi Jóhannessyni, forsætisráðherra og formanni Framsóknarflokksins, „hafi verið kunnugt um flesta þætti í starfsemi öryggisþjónustu lögreglunnar“. Guðni tók sérstaklega fram, að sjálfur tæki hann
alls ekki á mig sök af því að ýmsir fjölmiðlamenn og stjórnmálamenn hafa ákveðið að tala um „leyniþjónustu Sjálfstæðisflokksins“. Sjálfur leiðrétti ég þá mistúlkun fljótt og vel, eða um leið og ég var búinn að fullvissa mig um að það væri alls ekki sanngjarnt að misskilja orð mín á þann hátt sem reynt var. Sú leiðrétting hefur blessunarlega dugað nær öllum hingað til. Það væri líka stórkostlegt ofmat á nokkrum opnum spurningum og vangaveltum eins sagnfræðings að rekja til þeirra alla þá umræðu sem verið hefur um Sjálfstæðisflokkinn og öryggisþjónustu í kalda stríðinu. Til samanburðar má nefna að þegar símahleranir og persónunjósnir á tímum kalda stríðsins komust í hámæli í Noregi var Verkamannaflokkurinn vitaskuld í eldlínunni frekar en aðrir flokkar því hann var lengst af í stjórn. En ég segi það aftur hér svo það fari ekki milli mála: „Leyniþjónusta Sjálfstæðisflokksins“ er að mínu mati rangnefni yfir máttlitla öryggisþjónustu lögreglunnar í Reykjavík, svo máttlitla í raun að ráðamenn gátu nær aldrei farið offari þegar öryggi ríkisins þótti vera í veði. Það er líklega helsti munurinn á því sem gerðist hér og þeim viðamiklu persónunjósnum sem voru stundaðar á valdaskeiði jafnaðarmanna í Noregi og Svíþjóð, svo nærtæk dæmi séu tekin. |
Skoðanir og niðurstöður Guðna Th. Jóhannessonar þóttu ákaflega merkileg þegar mátti reyna að túlka þau svo að á Íslandi hefði einhvern tíma starfað „leyniþjónusta Sjálfstæðisflokksins“. En fyrir rúmri viku skrifaði hann grein, andmælti því hugtaki og sagðist hafa séð gögn um að forsætisráðherra vinstristjórnarinnar sem tók við af Viðreisnarstjórninni hafi vitað allt um málið.
Og hver hefur séð vitnað til þessarar greinar í fréttum?
Þetta er aðeins lítið dæmi um það hvernig fjölmiðlar draga upp myndir af því sem gerist og gerist ekki. Fjölmiðlabækur Ólafs Teits geyma ótalmörg önnur og fást á vægu verði í Bóksölu Andríkis.