S umir þeirra sem tala gegn stóriðjuframkvæmdum hér á landi gera það með þeim rökum að ríkið eigi ekki að standa í slíkum stórframkvæmdum. Þeir segja að hér eigi hvorki að vera stóriðjustefna né annars konar áætlunarbúskapur. Þetta er að vísu aðeins lítill hluti þeirra sem berst gegn stóriðjunni, en hluti þó. Og undir þessi rök má að nokkru leyti taka, því að svo miklu leyti sem stóriðjan hér á landi er rekin í tengslum við ríkið er hún ámóta vafasöm og annar ríkisrekstur. Það er vissulega hætta á því ef ríkið kemur með einhverjum hætti að stóriðjuframkvæmdum að ákvarðanir á því sviði séu ekki endilega þær hagkvæmustu. Hættan er sú að annarlega sjónarmið ráði. Þess vegna er mikilvægt að stjórnvöld skuli hafa lýst því yfir að þau reki enga stóriðjustefnu og þess vegna er líka mikilvægt að ýmsir stjórnmálamenn skuli hafa lýst vilja sínum til að ríkið selji sig út úr raforkuframleiðslu.
Margir sem hafa margt á móti stóriðju hafa líka horn í síðu hvalveiða. Rök þeirra gegn stóriðjunni eru jafnvel þau sem að framan eru nefnd og rökin gegn hvalveiðunum þau að veiðarnar skaði ferðamannaiðnaðinn svo kallaða. Þessir menn sjá meiri möguleika í straumi ferðamanna til landsins en rafstrauminum sem knýr stóriðjuverin. Ekki ætlar Vefþjóðviljinn að gerast dómari í þeirri sök hvor straumurinn er hagfelldari fyrir íslenskt þjóðarbú eða hvort virkjun annars straumsins getur dregið úr hinum. Það merkilega er hins vegar að sumir eru alveg vissir í sinni sök um þetta og þá ekki aðeins fyrir sig, heldur einnig fyrir hönd annarra. Þeir eru nefnilega til sem telja alveg ómögulegt að ríkið stundi áætlunarbúskap í einhverri mynd á sviði stóriðju, en vilja ólmir að áætlunarbúskapurinn fái að njóta sín á sviði ferðaiðnaðarins.
Íslenska ríkið rekur Ferðamálaráð – sem vitaskuld heitir Ferðamálastofa eftir nútímalega lagasetningu – þar sem 20 starfsmenn vinna að því að framkvæma ferðamálastefnu ríkisins í samræmi við ákvörðun ráðherra. Svo sérkennilega vill til að þeir sem hafa agnúast út í stóriðjuna fyrir að vera hálfgildings áætlunarbúskapur hafa aldrei fundið að því að ríkið reki fjölmenna stofnun sem hefur þann tilgang að framkvæma opinbera ferðamálastefnu. Það virðist nefnilega vera að áætlunarbúskapur sé ekki aðfinnsluverður í hugum þessa fólks nema þegar kemur að einni tiltekinni atvinnugrein. Á öðrum sviðum er áætlunarbúskapurinn talinn þjóðráð.
Þetta eru furðuleg sjónarmið. Áætlunarbúskapur er afleitur á öllum sviðum og það er ekki síður sjálfsagt að ríkið leggi niður Ferðamálaráð – afsakið, Ferðamálastofu – en að ríkið selji hlut sinn í Landsvirkjun. Ríkið ætti hvergi að skipta sér af atvinnurekstri með öðrum hætti en þeim að skapa fyrirtækjum almennt góð rekstrarskilyrði.