S einni dagur ársfundar Alþýðusambands Íslands er í dag. Í gær var á ársfundinum kynnt haustskýrsla hagdeildar ASÍ, þar sem meðal annars er að finna hagspá sambandsins. Skýrslan er talsvert plagg og greinilega allnokkur vinna lögð í hana, þó að með henni hafi ekki endilega tekist að sanna vinnuverðgildiskenninguna, en það er annað mál. Það er hins vegar athyglisvert að hjá ASÍ er starfandi hagdeild sem er nokkuð stór á íslenskan mælikvarða, og enn athyglisverðara er að ríkið greiðir kostnaðinn við deildina. Það er raunar svo að ríkið greiðir, ýmist beint eða óbeint, allan kostnað af rekstri ASÍ, og þar er ekki um smáar upphæðir að ræða.
Reikningar ASÍ verða lagðir fram í dag, en ef miðað er við síðustu reikninga má sjá að tekjur sambandsins voru nær 350 milljónir króna og verða örugglega hærri í nýju reikningunum. Af þessari fjárhæð voru skatttekjur, svo einkennilega sem það kann að hljóma, 144 milljónir króna. Stærstan hluta þess sem ekki er flokkað sem skatttekjur í reikningum ASÍ verður engu að síður að telja til skatta, því að launafólk er þvingað til að greiða til sambandsins. Launafólk hefur ekkert val, það verður að greiða til ASÍ eða sambærilegra félaga vilji það á annað borð halda vinnunni.
Þetta fyrirkomulag er vitaskuld alveg óviðunandi og nokkuð sem Alþýðusambandið ætti að taka til endurskoðunar á næsta ársfundi. Þetta væri verðugra umræðuefni en mál sem snerta hagsmuni launafólks minna, svo sem hnattvæðingin sem er til umræðu á fundinum nú. Launafólk hefur skýra hagsmuni af því að það verði ekki lengur neytt til að greiða til verkalýðsfélaga, heldur geti það valið hvort það telur hag sínum betur borgið innan félaganna eða utan þeirra. Launþegar, sem telja verkalýðsfélög standa sig illa, geta þá sagt sig úr þeim og sparað sér greiðslurnar til þeirra. Þessar greiðslur eru umtalsverðar, eins og menn sjá á launaseðlum sínum. Þetta er þó aðeins annar kosturinn við að gefa félagsaðild frjálsa. Hinn er að verkalýðshreyfingin yrði að taka sig á til að halda í félagsmenn og yrði þar með að einbeita sér að raunverulegum hagsmunum félaga sinna. Nú verða þeir helst varir við hana þegar hún býðst til að lána þeim sumarbústaði eða tjaldvagna gegn vægu verði. Ef aðildin væri frjáls yrði væntanlega meiri eftirspurn eftir lægri félagsgjöldum og skýrar afmarkaðri starfsemi en niðurgreiddum gistirýmum og útblásnum hagdeildum.