Þ að fór eins og Vefþjóðviljinn óttaðist. Gísli Tryggvason talsmaður neytenda er sá sem helst hefur orðið til þess að bregða fæti fyrir framboð Gísla Tryggvasonar frambjóðanda á lista Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi. Gísli Tryggvason talsmaður neytenda hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem segir, að frá því að framboðsfrestur rennur út næst komandi laugardag og „fram að tvöföldu kjördæmisþingi Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi 4. nóvember nk., sem tekur ákvörðun um val í efstu sæti á lista til alþingiskosninga, mun ég ekki koma fram í fjölmiðlum í embættis nafni.“
Gísli Tryggvason talsmaður neytenda mun því ekki koma fram í fjölmiðlum í heila átta daga í embættis nafni. Góðir hálsar, rétt er að endurtaka þetta: Hvorki meira né minna en í átta daga mun talsmaður neytenda ekki koma fram fyrir þeirra hönd opinberlega. Þetta er auðvitað gífurlegt áfall fyrir íslenska neytendur og gott ef ekki fyrir íslenska þjóð, eins og annar ekki síður mikilvægur maður mundi orða það.
En svo menn örvænti ekki er rétt að upplýsa að í yfirlýsingu talsmannsins kemur fram, að ef „hagsmunir eða réttindi neytenda krefjast þess á þeim tíma að embættið beiti sér opinberlega mun ég með hliðsjón af hæfisreglum stjórnsýsluréttar gera viðeigandi ráðstafanir.“ Þannig að þó að neytendur hafi vissulega ástæðu til að óttast um hag sinn frá 28. október til 4. nóvember, þá er gott til þess að vita að talsmaðurinn mun í þagnarbindindinu fylgjast vel með og grípa inn í með viðeigandi hætti ef uggvænlega horfir í neytendamálum. Og neytendur geta líka huggað sig við það að bæði í dag og á morgun verður talsmaðurinn á vaktinni, reiðubúinn að tjá sig af stóru og smáu tilefni fyrir þeirra hönd.
En þrátt fyrir að neytendur fái að njóta Gísla í tvo daga enn, og geti svo verið sæmilega rólegir vegna þeirra viðeigandi ráðstafana sem hann mun grípa til næstu átta daga á eftir skapist neytendakrísa, þá er talsverð hætta á að þetta sé aðeins lognið á undan storminum. Eða hvernig mun Gísli Tryggvason talsmaður neytenda bregðast við ef Gísli Tryggvason frambjóðandi verður valinn á lista Framsóknarflokksins fyrir komandi þingkosningar? Eru einhverjar líkur á að talsmaður neytenda samþykki að Gísli Tryggvason gegni á sama tíma mikilvægu hlutverki frambjóðanda Framsóknarflokksins og enn mikilvægara hlutverki talsmanns neytenda?
Full ástæða er til að ætla að talsmaðurinn heimili frambjóðandanum alls ekki að „koma fram í fjölmiðlum í embættis nafni“. Neytendur standa þess vegna berskjaldaðir frammi fyrir hræðilegri óvissu um að talsmaður þeirra verði í sjálfskipuðu þagnarbindindi um langa framtíð.