Þ að er erfitt að gera fólki til hæfis! Á dögunum voru margir vinstrimenn æfir yfir því að ráðuneyti eitt færði gömul skjöl sín á þjóðskalasafnið – eins og lög mæla raunar fyrir um – í stað þess að liggja á þeim sjálft, og í gærkvöldi urðu menn reiðir yfir því að ríkissaksóknari skoðaði hvort framið hefði verið refsivert brot í tilteknu máli – eins og lög mæla raunar fyrir um. Næst verða menn sennilega reiðir ef veðurstofan fer að spá.
Að vísu má að vissu leyti skilja gagnrýni manna á það að ríkissaksóknari elti hina undarlegu umræðu síðustu daga og rannsaki það hvort einhver sími hafi verið hleraður fyrir rúmum áratug. Í því „máli“ liggur nefnilega það fyrir, að nákvæmlega ekkert hefur verið lagt fram sem bendir til þess að svo hafi verið, og raunar í fyllsta máta ólíklegt að þeir menn sem þarna eiga í hlut, hafi í meira en áratug þagað yfir því einu að símar þeirra hafi verið hleraðir!