Laugardagur 14. október 2006

287. tbl. 10. árg.

R íkisstjórnin hefur ákveðið að virðisaukaskattur, tollar og vörugjöld verði lækkuð þann 1. mars á næsta ári. Eins og Vefþjóðviljinn hefur áður getið nemur þessi lækkun um 7 milljörðum króna eða um 100 þúsund krónum á hverja fjögurra manna fjölskyldu í landinu. Ríkisstjórnin hefur jafnframt ákveðið að auka vegaframkvæmdir að nýju enda sé verðbólga á niðurleið og þenslan svonefnda á undanhaldi.

Þetta vekur athygli því snemma í sumar ákvað ríkisstjórnin í samráði við Alþýðusamband Íslands að hætta við 1% lækkun á tekjuskatti einstaklinga sem átti að koma til framkvæmda um næstu áramót. Í stað þess að áður lögfest skattalækkun verði 2% verður hún aðeins 1%. Rökin fyrir þessu voru meðal annars þau að þensla væri í efnahagslífinu, verðbólga og viðskiptahalli og líklega ekki talið óhætt að treysta blessuðum almenningi fyrir eigin fjármunum heldur þyrfti skynsama og sparsama stjórnmálamenn til þess.

En nú virðast þessi rök ekki eiga við lengur. Ríkisstjórnin hefur ákveðið að auka framkvæmdir að nýju og lækka neysluskatta. Þenslan, verðbólgan og viðskiptahallinn eru ekki áhyggjuefni lengur. Það er því ekki nema sanngjarnt að spurt sé hvort ekki verði örugglega hætt við að hækka tekjuskattinn um 1% um næstu áramót.