V algerður Sverrisdóttir utanríkisráðherra kynnti þingi Sameinuðu þjóðanna áætlun þess efnis að stórauka þróunaraðstoð Íslendinga. Ef rétt er skilið mun átt við að íslenska ríkið taki fé af almenningi á Íslandi og sendi það til annarra landa.
Íslendingum er auðvitað frjálst að gefa eins og þeir vilja til þróunarlandanna án milligöngu ríkisins og margir gera það raunar. Ýmis samtök eru rekin hér gagngert í þeim tilgangi að beina því fé sem safnast í skynsamleg verkefni eins og skóla og heilbrigðisþjónustu. Það er því ekki alveg ljóst hvers vegna utanríkisráðherrann vill taka fram fyrir hendurnar á þessum aðilum því þótt menn séu allir af vilja gerðir þá verður hver króna aðeins gefin einu sinni og það sem íslenska ríkið tekur af mönnum í skatta nýtist ekki í annað á meðan. Samanburður á framlagi einstakra ríkja til þróunarmála er raunar oft mjög villandi því hann er jafnan eingöngu byggður á framlögum ríkjanna en ekki einstaklinga og frjálsra félagasamtaka.
Aukin ríkisrekin þróunaraðstoð hefur í seinni tíð orðið að einskonar afsökun ríkisstjórna á Vesturlöndum fyrir því að opna ekki markaði sína fyrir framleiðslu þróunarlandanna. Aðstoðin felst meira að segja stundum í því að umframframleiðslu Vesturlanda á landbúnaðarvörum er dembt inn á veikburða markaði þróunarlandanna og dreift þar „ókeypis“ með þeim afleiðingum að innlendir bændur fá ekkert fyrir sína framleiðslu og verða að bregða búi.