Miðvikudagur 20. september 2006

263. tbl. 10. árg.

N ýkjörinn formaður þingflokks Samfylkingarinnar, Össur Skarphéðinsson, hefur forðast að ræða nýafstaðnar þingkosningar í Svíþjóð, en hann fagnar jafnan ákaft þegar félagar hans í öðrum löndum vinna sigra. Ástæðan fyrir því að hann fagnar svo mjög sigrum erlendis er vafalítið sú að þessi fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar hefur færri tækifæri til að fagna hér á landi. En nú hefur hann sum sé ekki heldur ástæðu til fagna úrslitum erlendis því að átrúnaðargoðin sænsku misstu flugið og biðu sinn stærsta ósigur frá árinu 1914, en hægri menn unnu góðan sigur og komust til valda. Á þessu eru sjálfsagt ýmsar skýringar, en The Wall Street Journal velti þeim einmitt fyrir sér í gær.

Blaðið benti á að jafnaðarmenn hafi boðað frekari útþenslu velferðarkerfisins, sem sé þegar þanið, en hægri menn hafi boðað umbætur. Hægri menn  hafi til dæmis viljað ýta undir það að menn fengju vinnu í stað þess að þiggja ölmusu frá hinu opinbera og hægri menn hafi viljað lækka skatta, minnka atvinnuleysisstyrki, draga úr launatengdum gjöldum vinnuveitenda og selja það sem ríkið ætti enn í skráðum félögum.

Hér á landi hefur þeirri kenningu helst verið haldið fram til skýringar á sigri hægri manna í Svíþjóð að þeir hafi sagt skilið við hægri sjónarmiðin og tekið upp stefnu jafnaðarmanna. Og jafnvel að þeir hafi gerst meiri talsmenn sænska velferðarmódelsins en jafnaðarmenn. Þessi skýring kann að henta þeim vel sem vilja draga hægri flokka til vinstri með þeim rökum að þar sé einu atkvæðin að hafa, en þær áherslur hægri flokkanna í Svíþjóð sem nefndar eru hér að ofan benda að minnsta kosti ekki til að þeir hafi keppt vinstra megin við jafnaðarmenn. Til marks um það er vitaskuld líka að barátta jafnaðarmanna gekk að stórum hluta út á að fólk yrði að kjósa þá til að verja sænska módelið.

Það þarf þess vegna ekki að koma á óvart að íslenskir sósíalistar, sem lengi hafa horft dreymnum augum til Svíþjóðar, skuli ekki líta glaða daga eftir úrslit helgarinnar. Velferðarkerfinu var hafnað í Svíþjóð og kjósendur vilja feta sig í átt til minni ríkisafskipta og aukinnar markaðsvæðingar. Þeir telja sig örugglega ekki hafa verið að kjósa yfir sig neina byltingu, en vonast greinilega til þess að ríkið dragi úr umsvifum sínum og að einstaklingarnir fái að njóta sín meira en verið hefur.