Föstudagur 1. september 2006

244. tbl. 10. árg.

N ú vill Steinunn Valdís Óskarsdóttir setjast á Alþingi. Ástæður þess eru að hún telur næstu alþingiskosningar einhverjar þær mikilvægustu sem fram hafi farið því að mikilvægt sé að skipta um ríkisstjórn og breyta um áherslur í landsstjórninni, eins og hún orðaði það í viðtali við Ríkissjónvarpið í gærkvöldi. „Og ég býð fram mína krafta vegna þess að ég tel mig hafa þá reynslu sem borgarfulltrúi til tólf ára og borgarstjóri til tæpra tveggja ára og vil bara gefa mig að fullu í slaginn og sjá hvað félagar mínir segja um það,“ sagði Steinunn í fyrrnefndu viðtali.

Enginn getur efast um reynslu Steinunnar sem borgarfulltrúa. Hún hefur setið þar lengi og raunar komið að pólitísku starfi í enn lengri tíma. Reynsluleysi mun því ekki þjaka hana í komandi kosningum. Menn geta hins vegar velt því fyrir sér hvort að sú reynsla er af hinu góða og hvort að reynslan er einmitt það sem Steinunn ætti að halda á lofti í baráttunni sem framundan er. Hún segist vilja breyttar áherslur í landsstjórninni og vísar í reynslu sína í borginni. Þar með má velta því fyrir sér hverju er líklegt að hún mundi vilja breyta og hvernig reynslu hún hefur.

Steinunn hefur meðal annars reynslu af opinberum fjármálum. Í stuttu máli hefur sú reynsla komið þannig út fyrir borgarbúa að þeir greiða nú mun hærri skatta en þegar Steinunn komst í meirihluta í borginni, því að hún stóð að því að hækka stöðugt álögur á Reykvíkinga. Meðal reynslunnar er að Steinunni tókst að hækka útsvarið úr lágmarksútsvari í hámarksútsvar á þeim tólf árum sem hún aflaði sér pólitískrar reynslu í borgarstjórn. Skattahækkanirnar fóru til dæmis þannig fram, að þegar ríkisstjórnin lækkaði skatta, þá sá Steinunn sér leik á borði og hækkaði skatta borgarinnar á móti til að koma í veg fyrir að Reykvíkingar nytu skattalækkana ríkisstjórnarinnar að fullu. Það þarf vart að taka fram að skattahækkanirnar fóru fram þvert á gefin loforð fyrir kosningar um lækkun gjalda á borgarbúa. Þessi reynsla mun væntanlega nýtast henni til að hækka aftur þá skatta sem ríkisstjórnin hefur lækkað og hlýtur að vera mikið fagnaðarefni fyrir landsmenn að fá slíka áherslubreytingu inn í landsstjórnina.

En þetta er ekki öll reynsla Steinunnar af opinberum fjármálum. Á sama tíma og hún hækkaði skatta á borgarbúa tókst henni nefnilega að hækka líka skuldir borgarinnar margfalt. Þetta gerðist sömu ár og ríkisstjórnin lækkaði skuldir sínar umtalsvert. Nú er sem sagt lag fyrir landsmenn, að mati ,Steinunnar að nýta sér reynslu hennar ekki aðeins til að hækka skatta ríkisins, heldur líka til að hækka skuldir þess. Hvað geta menn beðið um fleira?