F
Ólíkar persónur. Rúmum tveimur áratugum eftir ferðina frægu rifjaði Agnar Þórðarson hana upp í bókinni Kallað í Kremlarmúr. Kápumynd sýnir þá félaga, Agnar og Stein, sitja undir marmarastyttu af öðrum félögum. |
immtíu ár voru í sumar liðin frá hinni frægu ferð íslenskra rithöfunda til Sovétríkjanna. Í júlí 1956 fór lítill hópur íslenskra skálda til Sovétríkjanna í boði þarlendra yfirvalda, en valinn af Kristni E. Andréssyni forsvarsmanni Máls og menningar. Þekktastur í hópnum var skáldið Steinn Steinarr en meðal annarra má nefna rithöfundana Jón Óskar og Agnar Þórðarson. Frægð sína á ferð þessi ekki hvað síst því að þakka að heimkomnir tóku sumir ferðalangarnir upp á því að segja hreinskilnislega frá því sem fyrir augu hafði borið, en það var talsverð nýbreytni meðal Sovétfara. Þeir Steinn og Agnar lýstu ferðinni og ástandi mála í Sovétríkjunum til dæmis í blaðaviðtölum og hlutu af því litlar þakkir af vinstri vængnum. „Því voruð þið að kjafta frá?“ spurði Jón Múli Árnason þá Agnar og Stein og Þjóðviljinn sendi þeim félögum „kaldar kveðjur“, eins og Agnar rifjar upp í endurminningum sínum. Þeir hafi fengið að „heyra það tæpitungulaust hjá ýmsum dagfarsprúðum mönnum, að þarna hefðum við brugðist heilögum málstað sem ætti eftir að koma okkur sjálfum í koll.“
Mánuði áður en Agnar sagði frá reynslu sinni í viðtali við Morgunblaðið hafði einn af ritstjórum tímaritsins Birtings hvatt hann til að skrifa grein um hugleiðingar sínar eftir Sovétferðina. Agnar tók hann á orðinu og sendi tímaritinu slíka grein. Ekki varð þó af birtingu hennar, þar sem ritstjórnin vildi ekki samþykkja hana óbreytta, en í endurminningum sínum segir Agnar að greinin hafi „sennilega komið ritstjórninni í opna skjöldu þegar það duldist ekki að hér var ekki á ferðinni hefðbundinn lofsöngur af dýrðarríki hins fátæka manns sem gistivinirnir sáu í hrifningu sinni, heldur einföld frásögn mín í fáum dráttum af því sem mér hafði þótt eftirminnilegast.“
Í minningabókum sínum tveimur, Í vagni tímans og Í leiftri daganna, dregur Agnar upp ýmsar myndir af íslensku menningarlífi um miðbik tuttugustu aldar. Þeir Steinn Steinarr urðu góðir félagar og margt segir frá Steini í minningabókum Agnars, einkum hinni fyrri. Hann minnist Steins af hlýju, segir hann í tali hafa verið fundvísan „á margt skringilegt, en aldrei bar neitt á öfund hjá honum í garð skálda eða rithöfunda þótt honum þætti hvimleitt fjálglegt og merkingarlaust hjal um Listina og brosleg Köllun þeirra sem lifa í ástalífi við sjálfsmynd sína.“ Eitt sinn settist Svavar Guðnason listmálari hjá þeim Steini og talið barst að baráttu gegn varnarliðinu: „Steinn spurði hversvegna hann væri svo á móti hernum. Svavar svaraði að það væri aðallega vegna þeirrar spillingar sem hann hefði í för með sér hérlendis. Steinn glotti við: – Það er tóm vitleysa. Herinn hefur ekki haft nein spillandi áhrif á Íslendinga, aftur á móti hafa Íslendingar spillt svo hermönnunum að það verður alltaf að senda þá heim eftir dvölina hérna í spillingunni.“
Agnar Þórðarson var afkastamikill rithöfundur og tók virkan þátt í menningarlífinu. Hann var félagi í Rithöfundafélagi Íslands og um lífið þar segir hann á einum stað:
Á einum fundi sinnaðist Helga Hjörvar svo við skáldið Jón úr Vör að hann flaug eldrauður í framan af reiði á Jón sem var ekki viðbúinn árás og barði hann í andlitið með samanvöðluðu dagblaði með þessum ummælum: Það ætti að drekkja þér eins og hundi í mógröf. Sjaldan risu þó öldur svo hátt á rithöfundafundum þó að sumum yrði heitt í hamsi þegar Thor Vilhjálmsson leit reiður um öxl og las mönnum pistilinn af slíkum fítonskrafti að hárin risu á höfði skáldsins í vígamóði. Aðeins einu sinni man ég til þess að honum fipaðist í eldmóðinum, en það var þegar Þórunn Elfa rithöfundur kallaði til hans mjórri röddu: Thor, Thor – þakka þér fyrir síðast. Kreistu þá sumir kjúkur í fundarsalnum. Helgi vildi líta á mig sem sinn stuðningsmann og mislíkaði við mig þegar í ljós kom að ég var frekar á bandi Kristins E. Andréssonar sem hafði brugðist mjög vel við að gefa út aðra skáldsögu mína, Ef sverð þitt er stutt. Kristinn var í kynningu mjög hliðhollur ungum skáldaspírum, að minnsta kosti þeim sem fylgdu að einhverju leyti vinstri stefnu, en vonuðu að vestrænt lýðræði myndi festa rætur hjá Rússum við bandalagið gegn einræði Hitlers. Guðmundur G. Hagalín var ofsóttur fyrir að vera sósíaldemókrat og ort um hann landsfræg níðvísa fyrir að hafa skrifað skáldsöguna Sturlu í Vogum en söguhetjan átti peninga á bankabók. Slíkt var ekki hægt að taka gilt. Ég var sjálfur einn af þeim sem var fullur af fordómum gagnvart Hagalín á þeim árum, þó að ég hefði varla lesið neitt eftir hann, en lét stjórnast af einlitum áróðri. Seinna kynntist ég honum persónulega gegnum Helga Sæmundsson og uppgötvaði þá hvílíkur afbragðsmaður Guðmundur G. Hagalín var, alveg laus við allan biturleika þó að hann hefði mátt þola margra ára ofsóknir og útskúfun. Hann var gamansamur, snjöll eftirherma og allt varð ljóslifandi sem hann sagði manni vestan af fjörðum. Afköst hans voru mikil og misjöfn að gæðum eins og gengur, en stundum tókst honum afbragðs vel upp, eins og í Kristrúnu í Hamravík eða Virkum dögum. Hagalín átti sína stuðningsmenn og sterkan bakhjarl. Hann fékk alltaf verk sín gefin út. Sama var að segja um þann einstaka heiðursmann og ógleymanlega skáld Tómas Guðmundsson sem var beittur sömu brögðum og skáldbróðir hans í Sovét, Boris Pasternak, nefnilega þögninni. Það er vopn sem ýmis skáld og rithöfundar hafa síðan fengið að kenna á. |