Helgarsprokið 13. ágúst 2006

225. tbl. 10. árg.

U m næstu helgi fer fram flokksþing Framsóknarflokksins og fer spennan vegna kosninga til forystustarfa mjög vaxandi. Taugatitringur einstakra frambjóðenda verður æ greinilegri og keppast sumir þeirra við að gefa alls konar yfirlýsingar þessa dagana í því skyni að auka möguleika sína á kjöri. Guðni Ágústsson, sem verið hefur varaformaður flokksins í sex ár og þingmaður í 19 ár, boðar þannig í blaðaviðtölum að nýir tímar taki við í flokknum verði hann endurkjörinn til varaformannsembættisins. Þetta er auðvitað eðlilegt, enda öllum ljóst að það myndi þýða mikla stöðnun fyrir flokkinn ef skipt væri um varaformann. Hann hefur jafnframt í mörgum viðtölum gefið yfirlýsingar um meint ofurlaun í þjóðfélaginu og þann 5. ágúst síðastliðinn lýsti hann til dæmis yfir í Morgunblaðinu vilja til að skoða bæði upptöku hátekjuskatts og breytinga á fjármagnstekjuskatti til að stemma stigu við launamun í þjóðfélaginu. Að vísu var hann eitthvað farinn að draga í land í Morgunblaðinu þann 11. ágúst og gerði þann fyrirvara varðandi fjármagnstekjuskatt að varlega yrði að fara í breytingar.

„Nú eru ekki nema þrjú ár síðan Framsóknarflokkurinn og þau tvö buðu fram til Alþingis undir merkjum skattalækkana en ekki skattahækkana, og þótt framsóknarmenn hafi vissulega ekki gefið fyrirheit um jafn miklar skattalækkanir og sjálfstæðismenn gat enginn verið í vafa um að vilji þeirra stæði til að lækka tekjuskattinn án þess að hækka aðra skatta.“

Keppinautur hans í varaformannskjörinu, Jónína Bjartmarz, kom síðan fram á síðum Fréttablaðsins í gær og bætti um betur. Þar tekur hún undir hugmyndir um nýtt skattþrep og hátekjuskatt og gefur raunar í skyn að einnig megi skoða að auka álögur á fyrirtæki og fjármagnseigendur til að jafna tekjur í samfélaginu, reyndar með þeim orðum að jafnframt eigi að lækka skatta á þá sem hún kallar venjulegt launafólk.

Það er athyglisvert að ofurlaunaumræða Morgunblaðsins og ASÍ skuli hafa tekið þessa tvo forystumenn í Framsóknarflokknum svona á taugum. Bæði Jónína og Guðni hafa tileinkað sér orðfæri og hugmyndir forystumanna vinstri flokkanna og jafnvel lýst meiri áhuga á skattahækkunum af þessu tilefni heldur en jafnvel Ingibjörg Sólrún Gísladóttir. Nú eru ekki nema þrjú ár síðan Framsóknarflokkurinn og þau tvö buðu fram til Alþingis undir merkjum skattalækkana en ekki skattahækkana, og þótt framsóknarmenn hafi vissulega ekki gefið fyrirheit um jafn miklar skattalækkanir og sjálfstæðismenn gat enginn verið í vafa um að vilji þeirra stæði til að lækka tekjuskattinn án þess að hækka aðra skatta. Þau tvö, ásamt öllum flokkssystkinum sínum á þingi, að undanskildum Kristni H. Gunnarssyni, hafa stutt allar skattalækkunartillögur ríkisstjórnarinnar fram að þessu og enginn hefur fundið á þeim hik í því sambandi. Þess vegna hlýtur það að vekja bæði undrun og efasemdir um trúverðugleika þessara stjórnmálamanna, að þau skuli skyndilega gerast róttækir vinstri sósíalistar, að því er virðist vegna þess eins, að einhverjir bankastarfsmenn hafa samið sín á milli um ríflega bónusa og kaupréttarsamninga.

Varaformannskandídatar Framsóknarflokksins þurfa auðvitað að gefa einhverjir haldbetri skýringar á viðsnúningi sínum í skattamálum og jafnframt þurfa þeir að gera grein fyrir því, hvaða áhrif skattahækkanir á háar launatekjur, fyrirtæki og fjármagnstekjur, muni hafa á íslenskt atvinnulíf. Eru slíkar breytingar líklegar til að styrkja íslenskt atvinnulíf í framtíðinni? Munu slíkar skattahækkanir stuðla að því að fjármagn haldist í landinu eða ýta undir að það flytjist til annarra landa? Trúa þau því að með því að hækka skatthlutföllin muni skattstofnar stækka og tekjuöflun ríkisins styrkjast? Ef þau svara þeim spurningum í sama anda og þau hafa þegar gert í blaðaviðtölum verða þau væntanlega jafnframt að lýsa því yfir, að ríkisstjórnir Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hafi verið á villigötum allt frá því flokkarnir hófu samstarf á vordögum 1995 og þá vaknar eðlilega sú spurning hvort þau hyggist beita sér fyrir því að framsóknarmenn gangi til liðs við Samfylkingu og Vinstri græna við stjórnarmyndun að loknum næstu kosningum. Orð stjórnmálamanna skipta nefnilega máli og geta haft margvíslegar afleiðingar.

Það væri raunar athyglisvert að fá fram afstöðu frambjóðenda til formennsku í Framsóknarflokknum til þessara hugmynda, en í yfirgripsmikilli fjölmiðlaumfjöllun hefur litið farið fyrir yfirlýsingum þeirra Jóns Sigurðssonar, Lúðvíks Gizurarsonar, Hauks P. Haraldssonar og Sivjar Friðleifsdóttur um þessi efni.