Föstudagur 4. ágúst 2006

216. tbl. 10. árg.

Institute for Public Policy Research er rannsóknastofnun eða hugmyndabanki sem tengist breska Verkamannaflokknum. Í nýrri skýrslu frá stofnuninni sem meðal annars var sagt frá á fréttavef BBC í fyrradag er skoðað hvernig umfjöllun um loftslagsbreytingar var á þriggja mánaða tímabili yfir síðustu áramót. Skýrsluhöfundar tóku yfir 600 blaðagreinar, sjónvarpsfréttir, auglýsingar og vefi um loftslagsbreytingar til skoðunar. Niðurstaða þeirra er að engin ein skilaboð yfirgnæfi önnur og gróflega megi flokka þá sem tjá sig um þessi mál í heimsendaspámenn (alarmists) og svo tvo flokka af bjartsýnismönnum, annars vegar þá sem segja allt í stakasta lagi og svo hina sem segja loftslagsbreytingarnar slæmar en við getum gripið til aðgerða.

Það sem er sérlega áhugavert er umsögnin um heimsendaspámennina. Umhverfisverndarsamtök hafa oft verið sökuð um að mála skrattann á vegginn. Og þau viðurkenna mörg hver að þau dragi oft upp ýkta mynd af ástandinu. En um leið segja þau það nauðsynlegt til að fanga athygli almennings. Í skýrslunni segir hins vegar:

Loftslagbreytingar eru oftast kynntar að hætti heimsendaspámanna. Breytingarnar eru sagðar hrikalegar, skelfilegar, gríðarlegar og maðurinn fái ekki við þær ráðið. Þessa áherslu má sjá víða og hún spannar allt hugmyndafræðilega sviðið. Hún birtist í flestum dagblöðum, víðlesnum tímaritum og áróðursefni frá opinberum stofnunum og umhverfisverndarsamtökum. Skilaboð af þessu tagi eru jafnan sett fram með miklu málskrúði, kjarnyrtu orðalagi í viðvörunartón og tilvísunum í kvikmyndir. Skilaboðin hafa yfirbragð trúarbragða og bera í sér dauða og endalok. Þau gefa til kynna að þróunin sé sífellt hraðari og óafturkræf.

Vandinn við skilaboð af þessu tagi er að ógnin sýnist svo mikil að áhorfendum og lesendum finnst þeir ekki eiga möguleika á að hafa áhrif til hins betra. Með því að gefa svo mikla örvæntingu til kynna er um leið verið að segja „vandinn er of mikill til að við getum leyst hann“. Tilfinningasemin og tengingin við hinar óraunverulegu Hollywood kvikmyndir fælir almenning frá umfjöllunarefninu. Með þessum hætti gæti dómsdagsáróðurinn þó jafnframt orðið æsandi á sinni hátt – nokkurs konar „loftslagsklám“. Spár um loftslagsbreytingar eru því orðnar eins og hver önnur dómsdagsspá sem sprettur úr menningu okkar og grefur enn frekar undan getu okkar til að grípa til aðgerða.

Nei hér talar ekki „hópur íslenskra harðlínumanna“, Vefþjóðviljinn, George W. Bush eða aðrir sem höfundar Lesbókar Morgunblaðsins missa svefn yfir. Fleiri hafa áttað sig á því að upphrópanir og æsingur er ekki endilega besta leiðin við umhverfisvernd. Slíkt „loftlagsklám“ eins og skýrsluhöfundarnir kjósa að kalla það er kannski spennandi fyrir aðalleikarana en aðrir verða fljótt þreyttir að horfa. Umhverfisvernd snýst um fleira en stóryrði á mótmælaspjöldum. Ef til vill fengju fleiri áhuga á umhverfismálum ef þau væri ekki í eilífu umsátri atvinnumótmælenda og æsingamanna.