H elgi Magnússon fyrrverandi ritstjóri Frjálsrar verslunar reyndi í blaðagrein í Morgunblaðinu í gær að réttlæta það óheillaverk sitt að hefja birtingu viðkvæmra persónuupplýsinga um einstaklinga í tímaritinu árið 1989. Upplýsingarnar sem um ræðir eru áætlaðar skattgreiðslur. Helgi gagnrýnir unga sjálfstæðismenn sérstaklega í þessu sambandi, en þeir sátu vörð um álagningarskrár fyrir helgi og vöktu þannig athygli á óeðlilegri meðferð þessara persónuupplýsinga hjá skattinum. Helgi bendir í grein sinni réttilega á að frá því Sjálfstæðisflokkurinn komst til valda árið 1991 hafi „forystumenn flokksins gert sér sérstakt far um að koma á löggjöf til að gera þjóðfélagið opnara og gegnsærra,“ og nefnir upplýsingalögin sérstaklega í því sambandi. En svo lætur hann eins og birting persónuupplýsinga sé af sama meiði og það að veita upplýsingar um stjórnkerfið. Þessi samanburður er fráleitur og sýnir vel hversu slæma samvisku Helgi hefur af því að hafa í hagnaðarskyni byrjað að birta þessar viðkvæmu upplýsingar um samborgara sína.
Helgi heldur því beinlínis fram að birting umræddra persónuupplýsinga hafi gert gott, meðal annars með því að draga úr skattsvikum. Fátt bendir þó til að þetta eigi við rök að styðjast, þvert á móti virðist birting þessara upplýsinga sáralítil eða engin áhrif hafa á hversu margir eru gómaðir fyrir undanskot frá skatti. En mundi það einhverju breyta ef svo væri? Mætti birta hvaða persónuupplýsingar sem er ef birtingin yrði til að draga úr lögbrotum?
Nú má gera ráð fyrir að færri legðu símleiðis á ráðin um lögbrot ef öll símtöl væru öllum opin, til dæmis á vefnum. Mundi það réttlæta slíka birtingu þeirra upplýsinga? Þá má gera ráð fyrir að færri greiddu vafasömum mönnum fé fyrir ólöglega þjónustu ef allar greiðslur manna á milli væru aðgengilegar almenningi. Mundi það réttlæta birtingu þeirra upplýsinga? Og hvað með myndavélar eða hlerunarbúnað á heimilum fólks, sem mundi án vafa draga úr ofbeldi og öðrum glæpum. Væri uppsetning hlerunarbúnaðar á hverju heimili réttlætanleg aðgerð til að draga úr glæpum? Vitaskuld ekki. Fólk á að fá að hafa einkalíf sitt í friði, jafnvel þótt sá friður kunni stundum að kosta fleiri glæpi. Og fólk á líka að fá að hafa einkalíf sitt í friði þó að tímarit eða aðrir fjölmiðlar kunni við það að missa spón úr aski sínum.